07.03.1983
Neðri deild: 53. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2653 í B-deild Alþingistíðinda. (2478)

236. mál, Launasjóður íslenskra rithöfunda

Menntmrh. (Ingvar Gíslason):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. um Launasjóð íslenskra rithöfunda. Þetta mál er hér flutt af ríkisstj. sem stjfrv. og ég bendi á að hér er um samkomulagsmál að ræða — samkomulagsmál sem varð til í sérstakri nefnd sem í áttu sæti fulltrúar allra þingflokka. Í þessari nefnd sátu Sigurlaug Bjarnadóttir, sem var tilnefnd af þingflokki Sjálfstæðisflokks, Stefán Júlíusson rithöfundur, sem var tilnefndur af þingflokki Alþfl., Tryggvi Gíslason, sem tilnefndur var af þingflokki Framsfl., Vésteinn Ólason dósent, sem tilnefndur var af þingflokki Alþb., en formaður nefndarinnar var Haukur Ingibergsson, fyrrv. skólastjóri, sem var skipaður af menntmrh.

Í þessu frv. er að finna nokkrar breytingar frá gildandi lögum. Þar er m. a. nafni sjóðsins breytt nokkuð frá því að heita Launasjóður rithöfunda. Skal hann nú heita Launasjóður íslenskra rithöfunda. Þá er sett sérstök grein í lögin um markmið sjóðsins, sem ekki var í gildandi lögum, en þar er gert ráð fyrir að tekið sé nákvæmlega fram hvert sé markmið sjóðsins eða hlutverk hans, sem sé að greiða höfundum laun fyrir ritstörf og efla þannig bókmenntir og ritlist í landinu, eins og segir hér í 1. gr. þessa frv.

Þá er ein allveigamikil breyting. Viðmiðun fjárveitingar er breytt verulega. Lagt er til samkv. þessu frv. að sú fjárhæð sem lögð er til launasjóðsins svari til 400 mánaðarlauna menntaskólakennara á fyrsta starfsári. Um alllangt skeið má segja að hafi verið miðað við 300 mánaðarlaun, en umsóknir á undanförnum árum hafa verið miklu fleiri en svo, nálægt því 800 mánaðarlaun, þannig að hér er komið nokkuð til móts við umsóknirnar og þannig auðveldara að fullnægja þeim.

Þá er ákvæðinu um stjórn sjóðsins breytt, en eins og margir munu kannast við hafa verið deilur um hvernig stjórn sjóðsins er skipuð, þannig að mönnum hefur fundist að vald stjórnar Rithöfundasambandsins væri of mikið í stjórninni og stjórnarþátttökunni. En þarna er gert ráð fyrir að því ákvæði sé breytt að þeir sem í stjórninni sitja séu allir tilnefndir af stjórn Rithöfundasambandsins, heldur er gert ráð fyrir að stjórnin sé valin eftir kosningu í Rithöfundasambandinu, auk þess sem menntmrh. mundi nú skipa formann stjórnarinnar. Alls mundu sitja í stjórn fimm menn í stað þess að áður voru þeir þrír. Ráðh. skipar formanninn, en fjórir meðstjórnendur eru samkv. tilnefningu Rithöfundasambandsins og þá kosnir almennri kosningu á vegum Rithöfundasambandsins.

Þetta eru helstu breytingarnar sem hér er um að ræða. Ég legg áherslu á að hér er um að ræða að finna leið til sátta og friðar um starfsemi þessa mikilvæga sjóðs. Ég vænti þess að hv. Alþingi fjalli um þetta mál. Æskilegt væri að hægt væri að ljúka því á þessu þingi, en það verður auðvitað að ráðast hvort það tekst, miðað við þann stutta tíma sem við höfum til umráða.

Herra forseti. Ég mun leggja það til að málinu verði nú vísað til 2. umr. og hv. menntmn. til athugunar.