08.03.1983
Efri deild: 60. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2659 í B-deild Alþingistíðinda. (2483)

226. mál, flugstöð á Keflavíkurflugvelli

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Ég hef kvatt mér hér hljóðs til að gera örstutta athugasemd. Þegar dagskrá þessa fundar var prentuð var þetta mál ekki á þeirri dagskrá. Ég hafði ekki gert ráð fyrir því að það kæmi hér á dagskrá í dag. Hér er, eins og menn vita, um mjög viðamikið mál að ræða sem á sér mjög langa sögu. Í þessu frv. er lagt til að verja margvíslegum tekjustofnum, sem hafa gengið til annarra framkvæmda, í að fjármagna taprekstur á þessari byggingu. Ég vil óska eftir því við hæstv. forseta að þessari umr. verði nú frestað og mönnum gefist tækifæri til þess að búa sig undir umr. um þetta efni eins og flm. telja sjálfsagt sæmandi, miðað við orð þeirra um stærðargráðu efnisins. Málið var ekki á prentaðri dagskrá og ég sat hér fundi í morgun, fyrst í utanrmn., síðan sameiginlegan fund fjh.- og viðskn. beggja deilda, þá fund í menntmn. þessarar hv. deildar og síðan fund í félmn. þessarar hv. deildar og loks fund fjh.- og viðskn. þessarar hv. deildar. Ég var þannig samfellt á nefndafundum á vegum þessarar hv. deildar og Sþ. frá því kl. 9 í morgun og þar til þessi fundur hófst og sá ekki fyrr en ég settist hér í sætið mitt að þessu máli hafði verið bætt við hina prentuðu dagskrá eftir að frá henni var gengið. Ég óska eftir því við hæstv. forseta að þessari umr. verði nú frestað.