08.03.1983
Neðri deild: 54. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2660 í B-deild Alþingistíðinda. (2486)

Um þingsköp

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs um þingsköp, að vísu af litlu tilefni og vægast sagt lágkúrulegu, en tilefni sem þó því miður er með þeim hætti, að hjá því verður ekki komist að gera við athugasemd hér á hinu háa Alþingi.

Í dagblöðum að undanförnu, þeirri gulu pressu sem fjórflokkakerfið gefur út með einum eða öðrum hætti, hefur mátt lesa um það athugasemdir að hér á hinu háa Alþingi sé verið að breyta reglum um prentun þingskjala. Skýringarnar, sem upp eru gefnar í blöðunum, eru þær að þingskjöl hafi verið prentuð og send út til þegna í þessu landi. Það sem verið er að dylgja um, án þess að það sé sagt, er það að sá sem hér stendur, hv. 4. þm. Reykv., fékk prentuð 5000 eintök af þáltill. um aðgreiningu framkvæmdavaldsins og löggjafarvalds og sendi þau, ýmist eftir beiðnum eða ekki eftir beiðnum til starfsmanna í fyrirtækjum eða einstaklinga. Þetta er þingskjal sem þegar liggur fyrir sett í ríkisprentsmiðjunni Gutenberg, en efalítið er það rétt að nokkur hundruð króna kostnaður mun vera af umframprentun af þessu tagi.

Nú er þetta mál auðvitað svo ómerkilegt og athugasemdir við það svo ómerkilegar að mér er ljóst að það er út af fyrir sig varla sæmandi þessari stofnun að vera að ræða slíkt, ef tilefnið væri ekki það, að í einu dagblaðanna er á laugardag greint frá því í forsíðufrétt og það haft eftir skrifstofustjóra þessarar stofnunar „að það sé talað um það á forsetafundum að takmarka eintakafjölda þingskjala fyrir einstaka þm. við 500“ o. s. frv. Borið er við áhyggjum þingforseta vegna þessa.

Hér er auðvitað um að ræða venjulega lágkúrulega rógsherferð sem á sér stað. Ég rek tilefni hennar til niðurstöðu í skoðanakönnunum nú að undanförnu og þessa venjulega skjálfta sem gætir í þessu valdakerfi rétt fyrir kosningar. Og það geri ég af þeirri einföldu ástæðu að bæði sá þm. sem hér stendur og að ég hygg allmiklu fleiri — og þakka skyldi þeim — hafa auðvitað iðulega fengið þingmál, sem þeir meta að eigi erindi til fólks, prentuð í stærra upplagi til að senda út til kynningar. Ég nefni fjárlög til dæmis um það. En málið er svo ómerkilegt að furðu sætir að verið sé á forsetafundum að gera athugasemdir af þessu tagi, án þess að þeir komi sjálfir nokkurs staðar fram heldur beita þeir embættismanni fyrir sig. Ég gerði athugasemd við þetta í umr. um kjördæmamál hér í gærkvöld. Þá gall við í einum þm. í salnum, hv. 9. þm. Reykv., að ákvörðun um þetta hafi þegar verið tekin. Veit ég ekki frekari deili á því.

Þetta mál snýst í eðli sínu annars vegar um þriðja flokks rógsherferð, þar sem því er treyst að menn svari ekki fyrir sig í fjölmiðlum eða á sama vettvangi, en að hinu leytinu til snýst þetta sennilega um nokkur hundruð kr. En látum það allt vera.

Ég óskaði eftir því í morgun, svona til samanburðar, svo að menn hafi eitthvað til að byggja á, að forseti minnar deildar, hv. þm. Sverrir Hermannsson, aflaði upplýsinga um það hjá skrifstofu þingsins hvað t. d. þingveislur kosta. Ef menn eru komnir út á þær brautir að ræða hluti með lágkúrulegum hætti af þessu tagi, þá er auðvitað sjálfsagt að verða við því. Samkv. lauslegum fréttum, sem mér hafa borist í morgun, hafa slíkar veislur núna í tvö ár kostað fjórðung úr milljón kr.

Það er verið að gagnrýna það með formlegum hætti að alþm. freisti þess að hafa samband við fólk í landinu og kynna þau mál sem hann er að flytja, væntanlega vegna þess að hann óttast að þau fái ekki sanngjarna umfjöllun í fjölmiðlum. Ég vil greina hv. Alþingi frá því að ég hef kynnt annað mál, sem ég hef flutt af þessu tagi, — þá taldist ég að vísu til eins fjórflokkanna — með þessum hætti, nefnilega frv. til l. um stéttarfélög og vinnudeilur, þar sem ég hafði ástæðu til að óttast að það mál væri meira og minna afkynnt.

Hér er um slíkt mál að ræða, herra forseti, að óhjákvæmilegt er að færa það í tal, ekki vegna efnis málsins, því að það er nauðaómerkilegt, heldur vegna hins, að frá því er greint í blöðum að forsetar þessarar virðulegu stofnunar hafi áhyggjur af málinu — án þess að tala við viðkomandi þm. eða ég hygg nokkurn annan.

Ég vil í fyrsta lagi að forsetar geri grein fyrir því með formlegum hætti hver þeir telji að hafi verið kostnaðarauki Alþingis af þessu. Í öðru lagi gefi forsetar þessa virðulega húss upplýsingar um það, svona til samanburðar, hvað þingveislur kosta.

Hér upplýsti hv. 3. þm. Reykv. í umr. um flugmálastjóra að ráðherra, sem situr í flugráði, hafi sótt þar laun sín árum saman og sitji þar á fundum. Á þessu siðprúða umhverfi hér sér auðvitað ekki blett eða hrukku. En kjarninn er sá, að nú eru allt í einu taldar ástæður til að gera athugasemdir — ég kalla það hreinan róg — vegna þess að þingskjal sé prentað í nokkur þúsund eintökum og sent út til kynningar.

Ég væri auðvitað enga athugasemd að gera ef hér væri einvörðungu um að ræða þennan venjulega róg, hina gulu pressu, sem fjórflokkakerfið gefur út, því að þar er auðvitað fólk í sínum fulla rétti. En það er ekki málið. Málið er það að hér eru uppi hafðar viðbárur af forsetum þessarar virðulegu stofnunar og embættismaður látinn tala — ég segi: látinn tala í þeirra nafni.

Ég vil í fyrsta lagi fá skýringar á því, frá forseta eða hverjum öðrum sem þær getur gefið, hverju þetta sætir, hvað hafi verið ákveðið og ákveðið ekki í þessum efnum, því að sé leikreglum breytt, þá á vitaskuld að verða við því.

Ég vil í öðru lagi fá upplýst um hvaða kostnað menn eru að tala.

Ég vil í þriðja lagi til samanburðar fá upplýsingar fyrir þjóðina um hvað þingveislurnar kosta, sem þeir halda fyrir sjálfa sig á hverju einasta ári, og með hverjum hætti þeir fjármunir eru sóttir í almannavasa. Því að ef fólk vill fá að vita hvað sé veitt í þágu þess að kynna mál, þá skiptir líka máli og það vill væntanlega fá að vita hverju er eytt í þágu þess að gamna sér á kostnað almennings, úr því að menn biðja um umræðu af þessu tagi.

Ég vil vekja athygli á því að ég hóf ekki þessa umr. Það er verið að tala um forsetafundi og það er embættismaður forsetanna sem slíkar upplýsingar er að gefa. Tilefnið er sagt vera prentun í 5 000 eintökum af tilteknu þingmáli. Og ég vísa í að hv. þm. Albert Guðmundsson gerði slíkar athugasemdir um flugráð. Ég veit ekki hvað satt er eða logið í þeim efnum, en frétt þætti annars staðar a. m. k. ef sönn væri. Ég undirstrika það enn, herra forseti, að — (Forseti: Þetta er orðið allt of langt um þingsköp.) Þessi umr. er auðvitað dapurleg, en tilefnið er fullt að þessu leytinu til, að forsetar þingsins hafa verið að þinga hér um eitthvað sem þeir kalla vandamál. Ég krefst skýringar á því og ég krefst upplýsinga um önnur atriði, sem almannafé varðar, því að almenningur á heimtingu á slíku.

Mín skýring er auðvitað að ástæðan fyrir þessari ómerkilegu rógsherferð sé sú að kosningar eru í nánd og þeim stjórnmálasamtökum sem ég er fulltrúi fyrir, Bandalagi jafnaðarmanna, virðist hafa vegnað vel í skoðanakönnunum. Þetta er svarið, þetta hefðbundna svar kerfisins, sem ræður fyrir fjölmiðlunum einnig. En ég krefst þessara upplýsinga og krefst þess, að jafn skilmerkilega verði greint frá þeim eins og því að 5 000 eintök af tilteknu þingmáli hafi verið prentuð nú eins og raunar oft áður.