08.03.1983
Neðri deild: 54. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2664 í B-deild Alþingistíðinda. (2493)

Um þingsköp

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að tefja þessar umr. og ekki að ræða um rógsherferð á hendur einum eða neinum, þótt mér þyki sumir vart hafa efni á því að tala um rógsherferðir annarra á hendur sér, ef sagan er skoðuð.

Mér er ljóst og las það í blöðum, að hv. þm. hefur verið kallaður póstmeistari Alþingis. Ég las ekki þessa grein, en taldi þarna vera enn eina hólgreinina í þessum þætti um hv. þm. Svo virðist þó ekki hafa verið, a. m. k. ekki að áliti hv. þm. Hann fékk hér úrskurð forseta um það að engar reglur væru gildandi um það sem hér var til umr., hve mörg eintök mætti prenta og senda út.

Ég vil bara upplýsa það hér og nú að ég hef reynt þetta sjálfur. Fyrir hönd þingflokksins þurfti ég að senda út nál. og ég spurðist fyrir um það eftir jólin — og ég tek það skýrt fram að þessar sögur um hv. þm. Vilmund Gylfason eru ekki frá mér komnar, ég hef ekki hugmynd um hvað hann hefur sent út í mörgum eintökum — en ég fékk það svar upp úr jólum að nýjar reglur hefðu verið settar vegna fenginnar reynslu, og að ekki mætti prenta nema 500 eintök, sem þingflokkurinn fengi til útsendingar. Þarna var um tvö nál. að ræða og mjög mikilvægt fyrir okkur að koma þeim út til nokkurra af okkar kjósendum. Ég fer því fram á það, herra forseti, að hér gildi jafnræði gagnvart öllum flokkum, þannig að einn flokkur, Bandalag jafnaðarmanna, sem ekki á fulltrúa á þingi kosinn í sínu nafni heldur hefur stolið þm. úr röðum Alþfl. og reytt bestu fjaðrirnar úr þeim flokki má segja, skuli ekki njóta forréttinda í þessum efnum og fá að senda út í — ja, ég veit ekki hve stóru upplagi, ég hef ekki hugmynd um það — en stærsti þingflokkurinn aðeins 500 eintök til útsendingar. Hér þarf að koma jafnræði á.