08.03.1983
Neðri deild: 54. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2666 í B-deild Alþingistíðinda. (2500)

206. mál, stjórnarskipunarlög

Dómsmrh. (Friðjón Þórðarson):

Herra forseti. Vonir, sem hnigu í þá átt að takast mætti að vinna af alefli að hjöðnun verðbólgu á undanförnum mánuðum og fjalla um stjórnarskrármálið í heild, hafa brugðist. Í stað þess hafa forustumenn stjórnmálaflokka. og þingflokka einangrað hið svokallaða kjördæmamál og unnið öllum stundum að hagstæðri lausn þess að eigin dómi. Nú virðist hafa náðst allvíðtækt samkomulag sem gerir ráð fyrir fjölgun þm. um þrjá og nýstárlegum og framandi útreikningsaðferðum. Þó hefur verið bent á að ná mætti sama eða svipuðum árangri til jöfnunar með einfaldri breytingu án fjölgunar þm.

Brýnasta verkefni nú er að takast á við efnahagsvandann. Þar má engan tíma missa. En það er jafnan ánægjulegt þegar víðtækt samkomulag næst um kosningareglur og sættir takast. Skal því ekki reynt að bregða fæti fyrir þá lausn sem nú er fyrirhuguð. Ég greiði ekki atkv.