08.11.1982
Neðri deild: 8. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 465 í B-deild Alþingistíðinda. (253)

3. mál, stéttarfélög og vinnudeilur

Guðmundur J. Guðmundsson:

Herra forseti. Bara örfá orð. Ég held að meginrök séu nú komin fram á báða bóga og það þurfi ekki að vera að tíunda þau öllu lengur. Ég held að það sé rétt að málið fari til nefndar og að nál. komi hér fram. Ég styð það mjög að málið fái þinglega meðferð.

Hér hefur hv. þm., bæði í þessari hv. deild og víðar, túlkað 2. gr. vinnulöggjafarinnar á ákveðinn hátt. Þegar lesnir eru upp fyrir hann dómar, sem sýna aðra lagaskilgreiningu, þá er bara svissað yfir og sagt: Lagakerfið er ónýtt. Menn haga sér eins og hæstv. forsrh. Gunnar Thoroddsen. Þeir bara túlka lögin sér í hag. Þetta er Félagsdómur og maður skyldi nú halda að hann hafi ekkert verið honum í hag sérstaklega, þessi tiltekni dómur þarna. En fyrrv. dómsmrh. má hafa sínar skoðanir á því. Ég vil aðeins segja það í sambandi við Frakkland og Ítalíu, sem ég skal ekki fara að öðru leyti neitt út í, að ég held að verkalýðssamtök beggja þessara landa og líka t.d. á Írlandi, þótt það sé ekki sambærilegt, mundu vilja líta með töluverðri öfund til Íslands fyrir það að þar hafa verkalýðssamtökin aldrei klofnað í þrenn samtök eins og t.d. í Frakklandi. Það er samband sósíaldemókrata, þar er samband kommúnista og þar er samband kaþólskra. Hvað eru menn að slá um sig hér með einhverjum sögulegum hroki? Sannleikurinn er bara sá, að illu heilli fyrir alþýðu þessara landa tvístruðust þessi verkalýðssamtök. Ef hv. þm. leitaði álits forustumanna, þá mundu þeir telja styrkinn hafa aukist mjög ef til þessa klofnings hefði ekki komið.

Ég lofaði forseta því, þegar ég bað um orðið, að ég mundi ekki teygja lopann eitt eða neitt. Þegar ég segi að það komist ringulreið á vinnumarkaðinn og upp geti komið 200–300 verkalýðsfélög og stöðvun hjá einu fyrirtæki verki á annað fyrirtæki og önnur fyrirtæki og þetta gæti þýtt verkföll kannske meira og minna vikulega og það sé hætta á að þetta framkalli breytingar á vinnulöggjöfinni verkalýðshreyfingunni í óhag, þá er ég ekkert að lýsa samúð með atvinnurekendum. Ég er bara að benda á þá hættu sem skapast. Nú vill hv. þm. telja þetta mjög skylt skipulagstillögum Alþýðusambandsins, en þar skilur mikið á milli. skipulagstillögum Alþýðusambandsins verður að mínu viti að breyta töluvert. Þær eru yfir 20 ára gamlar og ýmislegt sem þarf breytingar við til að ná samkomulagi áður en vinnustaðurinn yrði allur í einu félagi. T.d. fiskiðnaður myndar starfsgreinasamband. Það hefur ekki einn hópur verkfallsheimild, það er ekki hugsunin. En með till. hv. þm. mundu einstakir hópar, sem hafa úrslitastöðu, geta knúið fram fyrir sig einhverja hluti. Hv. 6. landsk. þm., Karvel Pálmason, sagði að hann hefði ekki orðið var við að þetta hefði fengið miklar undirtektir í landinu og ekki heyrt á það minnst. Ég held að það sé rétt hjá honum, ég held að þetta veki ekki mikla athygli.

Ég veit um tvo vinnustaði sem hefðu nokkurn hug á slíku. Það eru alveg táknrænir vinnustaðir upp á það sem koma skal eftir till. hv. þm. Þetta eru fámennir vinnustaðir. Ætli það séu ekki 30 í öðrum og rösklega 40 á hinum. Þeir geta lokað á fleiri þúsund manns. Vitanlega vilja slíkir aðilar fá svona skipulag þar sem þeir eru algjörlega sjálfstæðir. Það er ekki verkakonan, það er ekki stúlkan sem hann vorkennir í versluninni, sem er í þessu. Það er verið að bjóða upp á tannlæknaþjóðfélag, það er verið að bjóða upp á þetta kalda markaðsþjóðfélag, þar sem aðstaðan til verkfalla, aðstaðan til aðgerða skal ráða. Og hvort sem ég er að nudda mér utan í sósíaldemókrata eða ekki, þá er hv. þm. Vilmundur Gylfason a.m.k. ekki að því með þessum málflutningi sínum.