08.03.1983
Sameinað þing: 61. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2688 í B-deild Alþingistíðinda. (2539)

139. mál, öryggiskröfur til hjólbarða

Frsm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Allshn. Sþ. hefur fjallað um till. til þál. um öryggiskröfur til hjólbarða og innflutningsgjöld af hjólbörðum og hefur nefndin fengið umsagnir Bílgreinasambandsins og Bifreiðaeftirlitsins um málið. Nefndin telur brýnt að settar verði gæða- og öryggisreglur um innflutning og notkun hjólbarða, enda mikilvægt öryggistæki, og mun eftirlit og reglur um bætt ástand þeirra tvímælalaust stuðla að auknu öryggi í umferðinni.

Nefndin gerir nokkra breytingu á tillgr. og leggur til að hún hljóði svo:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að láta setja gæða- og öryggisreglur um innflutning og notkun hjólbarða með hliðsjón af því, sem tíðkast í grannlöndum okkar, og kanna jafnframt hvort unnt sé að lækka verulega innflutningsgjöld af hjólbörðum.“

Er allshn. sammála um að mæla með samþykkt till. með þeirri brtt. sem ég hef hér lýst.