08.03.1983
Sameinað þing: 61. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2690 í B-deild Alþingistíðinda. (2545)

Umræður utan dagskrár

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Heilsugæsluumdæmið á Hólmavík hefur verið eitt af þeim umdæmum sem erfiðast hefur verið að manna á undanförnum árum og um árabil var þetta þannig að stórir kaflar féllu úr á ári hverju, þar sem enginn læknir fékkst til að sitja þar á heilsugæslustöðinni, en eins og kunnugt er er Hl stöð á Hólmavík. Undanfarin tvö ár eða svo hefur stöðin verið setin allan tímann, en það hefur hins vegar verið með afskaplega tíðum skiptum á mönnum eins og hv. 1. þm. Vestf. gat um áðan. Það er auðvitað ákaflega slæmt að slíkt skuli gerast því að út úr því fæst ekki sú heilbrigðisþjónusta sem fólkið á svæðunum á rétt á því að fá samkv. landslögum.

Rn. hefur hins vegar kosið að reyna að telja menn á að vera þarna um skemmri tíma, þó að það væri bara hálfur mánuður eða tveir mánuðir, frekar en að hafa engan. Þess vegna lítur listinn út eins og hv. þm. gat um áðan. Ég hlýt að þakka honum fyrir þá stuðningsyfirlýsingu sem fram kom af hans hálfu við rn. í þessu efni og við munum í rn. reyna að gera allt sem unnt er til að koma þarna á varanlegri skipan mála þannig að hlutirnir verði betur tryggðir en verið hefur.

Ég vil aðeins, herra forseti, leyfa mér að geta þess í leiðinni að nú er það þannig að um 60% af heilsugæslustöðvum í landinu eru setnar mönnum sem hafa skipun og er það mjög veruleg framför frá því sem var fyrir fáeinum árum. Þetta stafar af því að það er meira framboð af læknum en áður var, m. a. sérmenntuðum heimilislæknum. Nú er það t. d. þannig á Vestfjörðum að þar eru sex skipaðir læknar, en var einn þegar ég kom í heilbrrn. fyrir þremur árum. Ástæðan til þess að fjölgunin hefur orðið þetta mikil er í fyrsta lagi aukið framboð á læknum og í öðru lagi að nú sjá menn að verið er að búa betur að heilsugæslunni á Ísafirði en áður var og er það vegna þess að þar hefur verið tekin í notkun ný heilsugæslustöð.

Nú eru eins og ég sagði sex skipaðir heilsugæslulæknar á Vestfjörðum, þ. e. þrír á Ísafirði, einn á Bolungarvík, einn á Patreksfirði og einn á Flateyri. Auk þess hefur verið ráðinn til starfa í nýja stöðu mjög hæfur skurðlæknir að sjúkrahúsinu á Ísafirði, þannig að þessum málum hefur þokað mjög áleiðis að mínu mati á liðnum árum. Þá er þess ógetið að þar hefur nú loksins verið skipaður héraðslæknir sem starfað hefur þar um tveggja ára skeið. Engu að síður er þarna verulegur vandi á ferðum, bæði að því er varðar Hólmavík og Þingeyri, og heilbrigðisyfirvöldum er skylt að gera allt sem í þeirra valdi stendur til þess að bæta þarna úr.

Kannske er það góð hugmynd, sem hér var bent á, að reyna að ná samningum um það við læknasamtökin að menn gegni þessum stöðum, þó um skemmri tíma sé, til þess að tryggja samfellu í heilsugæslunni.