08.03.1983
Sameinað þing: 61. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2691 í B-deild Alþingistíðinda. (2546)

Umræður utan dagskrár

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. heilbrrh. fyrir góðar undirtektir. Mér er ljóst að hér hafa orðið miklar breytingar einmitt með auknum framlögum til heilbrigðismála í þetta kjördæmi sem og í öll önnur og stóraukið framboð af læknum. Ég held að langbesta lausnin sé sú, sem oft var reynd og tókst stundum vel, að leita samstarfs við lækna á stærstu sjúkrahúsunum til að fá menn í þessi störf um nokkurra mánaða skeið í einu. Þetta tókst oft í neyðartilfellum og nú eru ekki í þessu kjördæmi nema tveir staðir sem er bágt ástand með og þó alveg sér í lagi þessi eini staður.

Ég endurtek að ég skal standa með ráðh. í því að gera þær ráðstafanir sem duga til að bæta úr þessu og reyna það með friðsömum hætti og treysti á skilning læknanna sjálfra á nauðsyn þess að leysa úr ófremdarástandinu sem þarna er.