08.03.1983
Neðri deild: 55. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2692 í B-deild Alþingistíðinda. (2553)

Um þingsköp

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Það var hér í fyrra og hitteðfyrra starfað langt fram á nótt í þingi kvöld eftir kvöld og þá minnti ég á þessa löggjöf. Það var ekki virt. Þá þögðu þessir þm., þeir frændur, þunnu hljóði. Þá var þetta allt í lagi. En svo er malað hér og malað á daginn um þingtímann, að það sé verið að halda kvöldfundi, og það af mönnum sem tala allan daginn. Ef þeir eru ekki að tala um viðkomandi málefni eru þeir að tala um þingsköp eða utan dagskrár með svoleiðis dómadags kjaftæði til þess að tefja þingstörf, eins og skrifari deildarinnar í dag. Sá hefði getað flutt ræðu sína á mun skemmri tíma en hann gerði. Það er auðséð hvað verið er að fara. Svo kemur hv. 6. landsk. þm., hraustur maður líkamlega, ég skal ekkert segja um hitt, og kvartar og kveinar undan því að það sé svo mikill hraði á málum og kvöldfundir og kvöldfundir. Þeir tala allan daginn, þessir menn, eru búnir að tala í allan dag, hafa skipt með sér verkum, eru hlaupandi í ræðustólinn út af öllu.

Hér fór dýrmætur tími fyrir póstmeistara Alþingis að verja gerðir sínar að deginum og síðan var metingur um að fá að vita hvað þingveisla hafi kostað. Það er varla runnið af þeim sem voru í henni, — endanlegar upplýsingar fengnar um það. Ég er búinn að spyrja hér í tvö ár um utanlandsferðir í kerfinu og það kemur ekkert um það. Ég get því ekki skilið annað en að það verði að hafa pínulitla ró. Þessi hv. þm. má bíða eftir að reikningarnir komi inn. Þá verður gaman að grassera í þeim og reyna að finna út hvað hver hafi neytt mikils, bæði í föstu og fljótandi.

Hér er verið að tala um að það sé verið að koma þessu frv. í gegn með einhverjum óskaplegum hraða og enginn viti hvað hann sé að gera og þetta sé svo flókið að almenningur skilji það ekki. Ég tek það á þann veg að þessir þm. skilji það ekki sjálfir. Þeir hafa bara ekki reynt að skilja það. Ég trúi því ekki að þeir séu svo tæpir að þeir skilji það ekki. En þeir hafa ekkert reynt að skilja það og ekki viljað skilja það.

Hvað er búið að ræða mál eins og kjördæmamálið lengi í flokkunum? Hafa ekki verið sérfræðingar starfandi og hafa sýnt upplýsingar um fjölda aðferða og hefur ekki fjöldi tillagna komið til greina? Öllum hefur verið frjálst að sækja þá fræðslu og spyrja og spyrja. Síðan er farið með þetta mál hér inn eftir að það er búið að ræða það hvað eftir annað í öllum þingflokkum, í öllum stjórnmálaflokkum. Ég held að skrifari deildarinnar hafi heldur betur fengið æfingu í að ræða þetta mál á, ég veit ekki hvort það heitir, miðstjórnar- eða flokksstjórnarfundi Framsfl. nýlega. Svo kemur hann með þennan líka þokkaderring, eins og hann var með. Hann ræðst að formanni flokksins með gífuryrðum og hann telur að það stafi af frv. stórhætta. Hvernig í ósköpunum getur þessi föðurlandsvinur verið þekktur fyrir að vera annar maður á lista með Steingrími Hermannssyni, þessum voðamanni? Fyrst formaður Framsfl. er orðinn þessi óskaplegi svikari og óheilindamaður, sem ætlar að leggja landsbyggðina niður, hvernig ætlar þessi dúfa, sem situr hér í skrifarasætinu, að vera í 2. sæti á lista með slíkum manni? Sjá ekki allir í gegnum þessa tvöfeldni og þessi andstyggilegheit, sem svona piltar eru að boða hérna á þingi, og er að verða þinginu til skammar að hlusta á dag eftir dag?

Svo kemur hér 4. þm. Reykv., sem nú er kallaður póstmeistari Alþingis, og hann segir: Þetta mál er ekki neitt. Það er ekkert í þessu máli, það er ekki neitt. Hann er búinn að tala í um það bil sex klukkutíma um mál sem er ekki neitt. Hann er búinn að flytja núna 10 tillögur, 4 tók hann aftur til 3. umr. Þeir komu hér, starfsmennirnir, hlaupandi með hverja tillöguna á fætur annarri í dag svo fjölritun hafði ekki undan. Hann er búinn að flytja 10 brtt. um mál sem er ekki neitt. (VG: Það verða að gera það einhverjir.) Þessi segir: Mál er ekki neitt. Hinn segir: Mál er stórhættulegt. Það er nú samræmi á milli hjá þeim þessum.

En einu er samræmi í. Báðir eru þeir með fíflalæti og þar hallast ekki á. (ÓÞÞ: Það eru engin fíflalæti núna.) Og annar, sem er 5. þm. Vestf., lagði fram gagnmerkar upplýsingar í gær, alveg stórmerkar, á borð þm., og það er um fjölda kosningabærra manna og flatarmál hvers kjördæmis. Og hann telur þetta frv. óskaplega ranglátt. En miðað við flatarmálið á Reykjavík að fá 4 þm. af 60, Reykjanes 3 af 60, Vesturland 5, Vestfirðir 5, Norðurl. v. 7, Norðurl. e. 12 og Austurland þarf ekki að kvarta, það fær 11, en Suðurland 13. Það verður nú lagið þegar þessi stjórnlagabreyting er komin þar. Þá vona ég að ég verði kominn undir græna torfu. (Gripið fram í.) Já, Austurland fær meginþorrann af Vatnajökli, það fær sennilega eina 4 þm. út á Vatnajökul. Ætla menn að taka svona mann alvarlega? (Gripið fram í: Þá er Egill inni.) Ja, þá getur hann orðið bara hv. þm. Hvannadalshnjúks. (Gripið fram í: Er þetta formleg tillaga?) Nei, þetta eru upplýsingar. Þetta er það sem barist er fyrir. Það er von að þm. frá Austurlandi sé glaður á svipinn. Ég held að þeir verði ekki eins glaðir hér í þéttbýlinu ef jöklarnir eru teknir með. En vill nú ekki 5. þm. Vestf. taka næst til athugunar hvort það væri ekki alveg eins gott að miða við strandlengjuna eða miðin, öll miðin, og sjá hvað þá kæmi út. Það er gaman að svona umr. Það er von að þeim þyki leitt að tala á kvöldin. Þeir vilja bara fá daginn til að flytja þennan boðskap.

Þá spurði 5. þm. Vestf. í gær hvort nefndin hefði ekki kallað hagfræðing á fundinn, hvort hún hefði ekki kallað á félagsfræðing. Það var enginn slíkur kallaður og datt engum nm. í hug. (Grípið fram í: Ólafur Ragnar.) Hann er þjóðfélagsfræðingur, hann var úr Ed. og var sem nm., en ekki sem sérfræðingur. Hins vegar hafa sumir, og meira að segja sá sem greip fram í, þurft oft á honum að halda á undanförnum tveimur árum og sennilega fengið mikla vitneskju út úr því samstarfi öllu og lífsreynslu. (Gripið fram í: Hann hefur komið að góðum notum.) Já, það er gott. Þetta eru ágætir menn hvoru tveggja.

5. þm. Vestf. segir: Ja, eigum við ekki að hætta? Fólksstraumurinn eykst hingað á suðvesturhornið með samþykki þessa frv. Það voru færri þm. eftir að landið varð fullvalda ríki. Þá voru færri þm. en nú eru og þá var hlutfallið hærra í kjördæmunum úti á landi, eins og t. d. Vestfjarðakjördæmi. En fólksstraumurinn hélt áfram bæði þaðan sem annars staðar. Það voru yfir 15% af íbúum þjóðarinnar búsett í því kjördæmi — að mig minnir — árið 1910, en ekki nema liðlega 5% núna. En það er ekki þingmannafjöldinn sem gildir. Það er fyrst og fremst: Standa þeir sig þessir þm.? Eru þeir starfi sínu vaxnir? Kunna þeir að eiga samvinnu við aðra þm. og koma málum fram með þeim hætti eða á bara að berja hausnum við steininn og láta fólkið fara?

Ég ætla að benda t. d. þessum hv. þm. á að vegamál eru mjög mikilvæg mál í sambandi við byggðastefnu og í sambandi við búsetu, samgöngur og framfarir úti um land. Síðan 1978 hefur framlag ríkisins sjálfs, beint framlag til vegamála á verðlagi ársins 1982, lækkað úr 69.7 millj. kr. í 9.5 millj. kr. á s. l. ári. M. ö. o.: lækkun á beinu framlagi til vegamálanna einna nemur rúmlega 167 millj. kr. á þessum árum frá 1978–1982. Þetta höfum við verið að benda á, þm. Vestfirðinga sem þm. annarra dreifbýliskjördæma, en 5. þm. Vestf. hefur látið sér þetta allt í léttu rúmi liggja. Hann hefur verið grútmáttlaus. Það þýðir ekki að opna muninn einstaka sinnum út af kjördæmamáli eða stjórnlagabreytingu, en þegja og gleypa allt sem að honum er rétt að öðru leyti. Það er kominn tími til fyrir þennan hv. þm. að sýna dáð hvað þetta varðar.

Ég vil líka minna þennan hv. þm. og fleiri þm. á framlag úr ríkissjóði til Byggðasjóðs á árunum 1972–1982 og það framlag sem er áætlað á árinu 1983 á verðlagi ársins 1982, og nú skulu menn taka eftir: Framlagið var 1972–1974 48–49 millj. kr., en 1975 fór það upp í 113.5 millj., 1976 upp í liðlega 116.2, 1977 í tæpar 130 millj. og 1978 í 108.5 millj. Hvað skeði svo eftir það? Eftir það fer það niður: 1979 niður í 90 millj., 1980 niður í 62.3 millj., 1981 niður í 58.6 millj., 1982 niður í 52.5 millj. og 1983 verður það tæplega 44.2 millj. Um leið og Sjálfstfl. var farinn úr ríkisstjórn, þar sem staðið var við framlög til Byggðasjóðs samkv. lögum var farið að klípa af og hefur verið haldið áfram síðan. Hefur nokkur heyrt stunu eða hósta frá 5. þm. Vestf. við þennan niðurskurð allan? Nei, hann hefur látið sér þetta allt í léttu rúmi liggja og samþykkt það allt saman.

Hann hefur staðið að fjárlagaafgreiðslu. Hann hefur staðið að því að lækka framlög til fólksins úti á landi, sem hann ber svona mikla umhyggju fyrir núna.

Það sem vantar er að velja sér betri þm. úti á landi en þetta. Þetta er léleg frammistaða, alveg hræðileg. Ef ég væri í sporum þessa hv. þm. mundi ég skríða undir borðið og ekki láta sjá mig fyrr en fundi væri slitið og reyna þá að komast heim óséður. Svo koma svona menn fram alveg hreint með munninn fullan og gleypa vind hér hvað eftir annað yfir að það sé verið að ráðast á byggðarlögin með þessu frv. og það er ekki gætt einu sinni að því að meira að segja formaður flokksins er stórskemmdur í ummælum í þeim ákafa að reyna að ráðast á aðra.

Hann sagði hér, þessi maður, að fjórmenningarnir væru þrír— ég skil þetta ekki — og hann endurtók það: fjórmenningarnir þrír. Og svo sagði hann: Það mætti kannske bæta 1. þm. Vestf. við og þá eru við orðnir fimm. Þetta minnir mig á eitt, sem maður einn sagði fyrir allmörgum árum í litlu byggðarlagi. Hann sagði: Það sem okkur vantar hér í þorpinu er kvartett með svona 2–3 mönnum.

Hv. 6. landsk. þm. talaði mikið um upphitunina. Mér hefur oft runnið til rifja að geta ekki notað alla þá upphitun sem frá honum streymir. Það er alveg hárrétt hjá honum að kyndingarkostnaðurinn úti um land er svívirðilega hár. Hér hafa verið fluttar tillögur á þingi. Hér hafa verið fluttar tillögur við afgreiðslu fjárlaga. Stjórnarliðið hefur staðið í veginum. Ég er alveg reiðubúinn að standa að slíkri till., en við tökum ekki kyndingarkostnaðinn inn í stjórnarskrána. Nei. Hins vegar eru fjölmörg atriði sem við þurfum að hyggja að í þessum efnum. Það hefur margt vel tekist hjá mörgum ríkisstjórnum. Það hafa líka tekist einstök atriði hjá núv. ríkisstj., ég ætla ekkert að draga fjöður yfir það, en margt er óunnið.

Ég man ekki að hv. 6. landsk. þm. hafi flutt mál um þessi efni, ekki nema brtt. við fjárlög. (KP: Ásamt hv. 1. þm. Vestf.) En það hafa ýmsir aðrir þm. flutt mál af þessu tagi og þetta er mikils virði. Hins vegar hef ég frétt að vestan, haft eftir formanni þingflokks Alþfl., að 6. landsk. þm. hafi sagt að afrakstur formanna flokkanna hafi verið hálf lína á dag við að semja þetta frv. og þennan málatilbúnað. Það hefur verið sagt að formaður þingflokks Alþfl. hafi sagt að það væri ekki mælikvarði frekar en mæla orð þm. í desíbilum. Það má leggja mismunandi vægi í fleira en atkvæðisréttinn.

Ég hef margoft tekið fram að ég tel að leiðréttingar verði að gera í þessum efnum. Ef við ekki gerum það núna erum við enn að auka glundroðann í þjóðfélaginu. Það fer enn vaxandi að nýir flokkar rísi og bjóði fram. Hvað fæst með því að fleiri flokkar komi, fleiri frambjóðendur? Meira ósamræmi í þinginu. Það er nóg samt og það er nógu erfitt að halda flokkum saman í því upplausnarástandi sem er. Það er ekki rétta leiðin að fjölga þeim jafnt og þétt (Gripið fram í: Bara einn flokk.) Nei, flokkarnir mega gjarnan vera eins og þeir eru, en það er ekki lausnin á vanda þessa þjóðfélags að fjölga flokkum og það er ekki lausnin á stjórnmálaumr. og stjórnmálabaráttu að flokkar séu stofnaðir eftir kynferði og að flokkar séu stofnaðir eftir því hvort fólkið býr í þéttbýli eða strjálbýli. Það er fyrst og fremst um landsmálin almennt, um þjóðfélagsstefnu, um markmið og leiðir sem á að stofna og starfa í flokkum, og það er hægt að gera þó að þessi leiðrétting sé gerð á kjördæmamálinu.

Ég geri ekki mikið úr Önundarfjarðarsamþykktinni, sem 5. þm. Vestf. lýsti mjög fjálglega í gær. Ég geri ekki heldur mikið úr Hvammstangasamþykktinni. Hér er ekki verið að reyna að leita úrlausna á vandasömu og viðkvæmu máli. Ég geri ekki heldur mikið úr skoðanakönnunum sem eru sendar á bensínstöðvarnar og lesnar upp jafnharðan, þar sem gengið er fram hjá því fólki sem býr úti á landsbyggðinni. Þetta er ekki leiðin til að ná þessari þjóð saman. Þingræðið hangir núna á það veikum þræði að kominn er tími til að mynda sterka blokk manna úr öllum flokkum til að sýna þjóðinni að þm. geta staðið saman þegar aðrir gera það ekki. (Gripið fram í: Er það samstaðan?) Það er samstaða hér um breytingar. Þjóðinni hefur fjölgað um 50%, ætla ég að segja 4. þm. Reykv. ef hann hefur ekki vitað það, frá því að síðasta kjördæmabreyting var gerð. Það hefur ekki á þessari öld liðið lengra á milli breytinga á stjórnlögum en nú og aldrei verið meiri fjölgun þjóðarinnar en á þessu sama tímabili.

Það er oft talað um að strjálbýlið þurfi að standa saman á móti þéttbýli eða þéttbýli á móti strjálbýli. Ég hef 20 ára þingreynslu og ég get því talað af talsverðri reynslu. Þegar maður hefur þurft að berjast fyrir framgangi mála, sem hafa snert það kjördæmi sem ég hef verið fulltrúi fyrir, hefur það sjaldnar verið að strjálbýlið hafi náð saman. Það hefur blossað upp öfund á milli strjálbýliskjördæmanna við afgreiðslu slíkra mála. Það er miklu oftar sem ég man eftir því að hafa leyst erfið mál með góðu samstarfi við þm. hér í þéttbýlinu. Því miður verð ég að segja að strjálbýlið hefur ekki átt þá gæfu að standa saman vegna innbyrðis metnaðar og metings um fjármuni. Þess vegna lít ég eftir þessa reynslu ekki með þröngsýni á þetta mál og þessa stöðu. Ég get alveg sagt við það fólk sem hefur sent mig á þing að þessa reynslu hef ég og af þessari reynslu hef ég lært og það þýðir ekki annað í því að koma baráttumálum fram en að njóta stuðnings annarra, njóta þess að aðrir sýni sanngirni, en að ætlast til þess að aðrir sýni sanngirni kostar það að við hinir verðum að sýna þeim sanngirni í þeirra málum. Þetta eru ekki hrossakaup, heldur er hér um gagnkvæman skilning að ræða til að koma okkur eitthvað áleiðis í þessum efnum.

Það er mikið talað um af þessum mönnum að þetta frv. sé svo lítið að það hefði þurft að ná til stjórnarskrárbreytingarinnar í heild. 4. apríl á s. l. ári eða fyrir um 11 mánuðum kom formaður stjórnarskrárnefndar fram í útvarpinu og hann segir í samtalinu: Nefndin fjallar ekki eingöngu um kjördæmamál, heldur alla stjórnarskrána. Hún ljúki störfum fyrri hluta þessa árs, ársins 1982 eða í sumar, þannig að í haust, (s. l. haust) þegar þing kemur saman, og það kemur nú saman 10. okt., verði unnt að leggja fram fyrir þingið frv. til nýrrar stjórnarskrár eða um breytingar á stjórnarskránni. Það þing hafi svo að sjálfsögðu rúman tíma til að fjalla um málið, en að stjórnarskráin verði svo afgreidd á þessu þingi, vorið 1983. Hann segir í sama viðtali varðandi sjálft kjördæmamálið: Þá sýnist mér að horfi betur nú um samkomulag um víðtæka samstöðu um breytingar þar en við fyrri kjördæmabreytingar. Meginatriðið er þetta, að það þarf að leiðrétta hlut Reykjavíkur og Reykjaness, og ég held að þó að margir kjósi að fjölga ekki þm., þá verði menn að líta raunhæft á málið. Það hefur hingað til aldrei tekist að leysa kjördæmavandann nema með einhverri fjölgun þm. og ég ætla að það verði þannig nú einnig, þannig að ég tel að mestur byr sé fyrir því að halda þeirri kjördæmaskipun í megindráttum sem nú er og hefur verið síðan 1959, en fyrst og fremst að rétta hlut þessara tveggja kjördæma.

Þetta segir formaður stjórnarskrárnefndarinnar. Það sem gerist svo er að nefndin lýkur ekki þessum störfum fyrr en miklu síðar og þegar þetta álit er sent til þingflokkanna eru menn á því, á einu máli að ekki sé hyggilegt að taka alla stjórnarskrárbreytinguna til afgreiðslu nú á þessum vetri. Það er ákveðið mál að ríkisstj. ætlar að láta kosningar fara fram ekki síðar en 23. apríl og því er ekki um annað að ræða en að hraða afgreiðslu þessa máls.

Í stjórnarsáttmála núv. ríkisstj. segir um stjórnarskrármálið: „Stjórnarskrárnefndin, sem vinnur að endurskoðun stjórnarskrárinnar, ljúki störfum fyrir árslok 1980, þannig að Alþingi hafi nægan tíma til að ljúka afgreiðslu stjórnarskrár og kjördæmamálsins fyrir lok kjörtímabilsins.“

M. ö. o.: þeir sem að núv. ríkisstj. standa töldu að þessar tillögur þyrftu að liggja fyrir í árslok 1980, þannig að rúmur tími væri til að kanna þær og afgreiða fyrir kosningar 1983. Það var ekki skemmri tími en þetta eða næstum því 2.5 ár sem stuðningsmönnum þessarar ríkisstj. þótti vera hæfilegur til að afgreiða þetta mál eftir að tillögur stjórnarskrárnefndarinnar lægju fyrir. Það er hollt fyrir þá þm. sem nú telja að þetta eigi allt að hafa verið í einum pakka, að hugsa um að þetta er sáttmáli sem þeir sumir hverjir stóðu að og hafa staðið að til þessa. Það er líka hollt fyrir þm. eins og hv. 6. þm. Norðurl. e. að hafa þetta í huga, þegar hann segist ekki vilja taka afstöðu til þessa máls vegna þess að hann vilji hafa allar stjórnarskrárbreytingarnar inni. Þetta er útilokað. Þetta hefur engum manni dottið í hug fyrr en núna. Þetta er tekið hér fram af stuðningsliði ríkisstj. Þetta hefur hvað eftir annað verið tekið fram af fjölmörgum stjórnarandstæðingum, að Alþingi þyrfti langan tíma í þessi mál öll. Þess vegna er það ástæðan fyrir því að þessi atriði eru ekki inni í frv. sem hér er til umr. og afgreiðslu.

Ég hef aldrei heyrt neitt frá hv. 4. þm. Reykv. í þessum efnum fyrr en nú. Það er eins og hann hafi ekki fylgst neitt með þessu máli, hann hafi vaknað af Þyrnirósarsvefni og vaknað svo illa að hann skrifar hér tillögur í gríð og erg. Sennilega veit hann ekkert hvað sumar tillögurnar fjalla um því að fumið og hamagangurinn er svo óskaplegt. (VG: Þm. les ekki þskj.) Jú, ég les miklu betur þskj. en viðkomandi þm. hefur gert því að hann veit ekkert í fjölmörgum málum. Hann er í sínum leikskóla og sínum hugarheimi í þessum efnum.

Þá langar mig að snúa með nokkrum orðum að hv. þm. sem ég hef ekki nefnt áður. Það er hv. 9. þm. Reykv. Hann vill gjarnan breyta kjördæmaskipuninni, að hann segir, og seint í sumar loksins kom hann ásamt hinum fulltrúa Alþfl. í stjórnarskrárnefnd með það að fækka kjördæmunum á þann veg að stækka þau, sem hann nefndi hér í ræðum. Við sem höfum starfað sem þm. fyrir stór og erfið kjördæmi yfirferðar teljum það ekki skynsamlegt að fjölga þeim kjördæmum, ef þm. eiga að sinna vel sínum störfum, og ég tel að frekar megi finna að að þm. komist ekki nógu vel yfir að sinna sínum störfum í þeim kjördæmum eins og þau eru núna, hvað þá að stækka þau. Síðan kemur það upp að gera landið að einu kjördæmi. Þetta var einu sinni baráttumál Alþfl., en Alþfl. féll frá þessu. Að gera landið að einu kjördæmi er auðvitað það sama og að segja hinum fámennu byggðum: Við ætlum bara ekkert um ykkur að hugsa. — Það mundi enginn þm. gera það fyrst í stað. Þm. sem hafa tengsli við þessi fámennu byggðarlög mundu sinna þeim fyrst í stað, en þegar fram líða stundir væri fyrst og fremst snúist um hinar fjölmennari byggðir og fjölmennustu byggðir í landinu. Þess vegna er slík till. óframkvæmanleg og hún er í fullu ósamræmi við lýðræðisleg vinnubrögð, enda er það þannig að flestar þjóðir skipta löndum sínum í kjördæmi og umdæmi. Hins vegar má deila um hvort landið eigi að vera þessi átta kjördæmi eða hvort þau eigi að vera minni eða jafnvel einmenningskjördæmi. Um það má deila. Þessi breyting, sem gerð var 1959, hefði aldrei verið gerð, ef Framsfl. hefði staðið að breytingu. Þá hefði vafalaust verið haldið við það kerfi sem var fram til þess tíma. En ég er eins sannfærður um það núna og ég var lítið sannfærður um það þá, að þessi breyting var til góðs og hún hefur á margan hátt reynst mjög vel.

Ég tel að það sé hreinn misskilningur hjá andófsmönnum gegn þessu frv. að telja að þetta frv. sé látið ganga fram með einhverju offorsi. Þetta frv. hefur verið rætt tvö kvöld, sagði hv. 5. þm. Norðurl. v. Það var rætt annað kvöldið í vikunni um leið, fyrir miðja viku. Það var rætt í gærdag og gærkvöld og það hefur verið mestallan tímann í dag til umr. Ég skil ekki í að menn þurfi að kvarta undan þessu. Ef þetta mál hefði ekki verið til umfjöllunar í þingflokkum eða stjórnmálaflokkunum almennt væri hægt að kvarta. Það er búið að ræða þetta mál fram og til baka, gera fjölmargar samþykktir og ákvarðanir hafa verið teknar. Það hefur verið rætt hér í þinginu í þingnefnd, sem vinnur sameiginlega að tillögugerð í málinu, sem er skipuð 14 þm. úr öllum fjórum flokkunum og það eru allir sammála í þessum efnum. Því kemur mér ákaflega spánskt fyrir sjónir hvernig þrír framsóknarmenn hér í þessari hv. deild láta. Af hverju gerðu þeir ekki kröfu eða ósk um að fá að eiga einn fulltrúa í þessari nefnd eða gerðu þeir kannske kröfu um það og fengu ekki? Og hvaða tal er þetta hjá hv. 5. þm. Vestf., hvort nefndin hafi verið að kalla einhverja sérstaka embættismenn á sinn fund. Hagstofustjóri var eini embættismaðurinn sem kom og óskaði eftir að koma. Það eru fjölmargir embættismenn búnir að fjalla um þetta mál. Hverjum átti að senda málið til umsagnar? Þetta mál hefur verið til umsagnar í öllum stjórnmálaflokkunum. Það eru fleiri hundruð ef ekki þúsundir manna búin að fjalla um kjördæmamálið. Það liggja fyrir ályktanir þess efnis að flokkarnir reyni að ná samstarfi. Hins vegar vitum við að hver og einn vill hafa málin öðruvísi. En þegar á að taka tillit til annarra verður maður að láta af hörðum skoðunum og ég segi fyrir mitt leyti, að ef ég einn hefði átt að semja þetta frv. eða frv. um þetta efni hefði það verið með töluvert öðrum hætti en þetta frv. er. Ég kynnti þau mál í stjórnarskrárnefndinni í upphafi. Þau mál náðu ekki fram að ganga. Ég hafði aðeins tvö prinsip þegar ég fór í þessa stjórnarskrárnefnd. Í fyrsta lagi að ná sem mestum jöfnuði á milli flokka og í öðru lagi að leiðrétta það misvægi sem hefur skapast frá því að kjördæmabreytingin var gerð. Ég hef rakið víðar þessi mál og það fyrir 2–3 árum og alltaf voru nýjar tillögur. Ef hver og einn hefði átt að halda sér við það sem hann lagði fram í upphafi hefði aldrei neinn árangur orðið. Ef hver formaður í flokki eða þm. hefði ætlað að halda sér við það sem þeim hefði áður litist best á hefði enginn árangur náðst. Þá stæðum við líka frammi fyrir því að fá fleiri flokka, meiri glundroða, meiri erfiðleika til þess að standa að lausn aðsteðjandi vandamála, sem bíða úrlausnar hjá þessari þjóð.