08.03.1983
Neðri deild: 55. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2741 í B-deild Alþingistíðinda. (2562)

206. mál, stjórnarskipunarlög

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja þessar umr. Ég geri ráð fyrir að það sé að ljúka hér í þessari deild umræðum um það frv. til stjórnlagaskipunar sem við höfum rætt um undanfarna daga.

Ég mælti fyrir brtt. í gær, sem ég flyt ásamt Ólafi Þórðarsyni, og tók hana til 3. umr. þess efnis, að skattamálum skal skipa með lögum, við ákvörðun skatta á tekjur og eignir skuli gætt jafnræðis þegnanna þannig að til lækkunar komi sérstakur kostnaður vegna búsetu eftir því sem nánar verður ákveðið í lögum.

Það mátti heyra það á hv. 1. þm. Vestf. Matthíasi Bjarnasyni hér í ræðustóli í dag að hann var ekki ánægður með sitt hlutskipti, og skyldi engan furða að maður, sem finnur til eins og Matthías Bjarnason, skuli ekki láta fá sig til þess að tala fyrir frv. af þessu tagi án þess að gera tilraun í leiðinni til að rétta hlut landsbyggðarinnar að þessu leyti. Hvernig skyldi nú standa á því að það er straumur fólks utan af landsbyggðinni þrátt fyrir vægi atkv.? Ef þetta fólk vildi meta þetta eins og menn eru hér að gefa í skyn að sé eftirsóknarvert. hvers vegna flytur það? Er það ekki skoðun hv. alþm. að það sé nauðsynlegt fyrir þessa þjóð að við byggjum landið allt? A. m. k. segja forustumenn allra flokka það á tyllidögum — eða meina þeir ekkert með því sem þeir halda fram?

Ég hef ekki haldið því fram að það sé óeðlilegt að breyta því vægi sem nú er. Það er fjarri mínu eðli. En ég vil gera um leið ráðstafanir til að jafna þá lífsaðstöðu sem landsbyggðin býr við. En undir þetta er ekki tekið, ekki einu sinni af þeim mönnum sem eiga hér setu á Alþingi og eru fulltrúar landsbyggðarinnar.

Það má segja að ræður sumra manna hér á hv. Alþingi í þessum umr. sýni að þeir þekkja ekki æðaslátt þjóðfélagsins. Þeir vita ekki hvað þeir eru að tala um. Þeir hafa ekki jarðsamband. Einn af þeim mönnum var hér að stíga úr ræðustóli á undan mér. Hann talar um að hann sé í forsvari fyrir einhvern félagsskap sem heiti Bandalag jafnaðarmanna. Það er ekki til nema í hans munni. Hvar er það til? Hann er sem sagt fulltrúi fyrir það sem ekki er til. Það er sannleikurinn blákaldur.

Það má segja að ýmislegt það sem hefur komið frá þessum hv. þm. sé á þá leið að það sé ekki svaravert. En ég veit ekki hvort rétt er að koma nokkrum manni upp á það að fara með slíkt fleipur sem hann hefur farið með úr þessum ræðustól hvað eftir annað. Hann hefur t. d. haldið því fram að mín skrifstofa sé útí í Búnaðarbanka. Það er eitt sýnishorn af því hvað þessi hv. þm. temur sér hér í ræðustól.

Það er ýmislegt sem þessi hv. ræðumaður hefur rætt um á fundum sínum út um landið, en ég ætla ekki að eltast við það. Það kann að vera að hans fulltrúar eða hann sjálfur — vonandi verður það — hitti okkur í mínu kjördæmi í væntanlegri kosningabaráttu. Það væri a. m. k. gleðiefni fyrir mig að hitta á hann þar.

Hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson talaði hér lengi og það var auðheyrt á honum að hann var ekki að tala til kjósenda landsbyggðarinnar. Hann vildi bera á móti því að hann hefði skipt um skoðun frá því að hann bjó vestur á Ísafirði. Ja, mig brestur þá illa minni ef sá hv. þm., á meðan hann var í bæjarstjórn Ísafjarðar, hefur haldið fram því sem hann gerði í þessum ræðustól bæði í dag og í gær.

En mín síðustu orð skulu vera þessi:

Að hverju er stefnt með þessari breytingu? Sumir hafa viljað láta orð liggja að því, og þar með hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson, að ástæðuna fyrir því ástandi sem er í þjóðfélaginu sé að finna í vægi atkv. eins og það er og það muni leysa allan vandann ef þessu sé breytt. Hvað eru þessir menn að tala um? Halda menn að fulltrúar suðvesturhornsins, sem kunni að vera kjörnir til þingmennsku af þessu svæði, hafi til að bera einhverja hæfileikavisku sem fulltrúar landsbyggðarinnar hafa ekki?

Ég held að þeir ættu að hugleiða hvað felst í þeim orðum sem þeir hafa látið falla í þessum ræðustól um þessi efni. Ég hygg að það sé fjarri öllu viti og öllum sanni að hægt sé að leiða rök að því að það ástand sem er í verðbólgumálum í þjóðfélaginu í dag megi rekja til þeirra laga sem eru til stjórnskipunar og það sé hægt að leiða rök að því að það muni leysa allan vanda að breyta þeim á þann veg sem þessi till. gerir ráð fyrir.

Að endingu vil ég segja það, að eins og nú háttar í þjóðfélaginu í atvinnumálum tel ég það mikla ábyrgð sem þeir taka á sig sem ætla að stefna þjóðinni í tvennar kosningar í sumar. Það hlýtur að liggja nokkuð ljóst fyrir að starfhæf ríkisstjórn verður ekki komin í landinu fyrr en seinni partinn í ágúst í fyrsta lagi. Til hvers mun það leiða? Öll þau rök, sem hafa verið notuð fyrir þessu frv., eru því haldlítil, og má segja að það sé mikil ábyrgð sem þeir taka á sig sem ætla að stefna þjóðinni í tvennar kosningar undir þeim kringumstæðum sem nú eru í þjóðfélaginu.