09.03.1983
Efri deild: 62. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2746 í B-deild Alþingistíðinda. (2593)

130. mál, málefni fatlaðra

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. félmn. Ed. fyrir skjóta og röggsamlega afgreiðslu á þessu máli, sem aðeins fyrir fáeinum sólarhringum er komið hingað til hv. Ed. Í ákvæði II til bráðabirgða í þeim breytingum sem komu frá Nd. var gert ráð fyrir því að Framkvæmdasjóður öryrkja og þroskaheftra fjármagnaði kaup á bráðabirgðahúsnæði fyrir Greiningarstöð ríkisins, en við sölu á þessu húsnæði gengi andvirði þess síðan, endursöluverð, til Framkvæmdasjóðs öryrkja. Ég gat þess í minni framsöguræðu að það væri nákvæmara að orða þetta svo, að í síðara tilvikinu a. m. k. yrði talað um Framkvæmdasjóð fatlaðra, vegna þess að lögin um Framkvæmdasjóð fatlaðra mundu taka gildi frá og með 1. jan. 1984. Af þeim ástæðum lagði formaður félmn. Ed. það til, að flutt yrði breyting á þessu ákvæði til bráðabirgða II á þskj. 519. Við nánari athugun af minni hálfu hef ég komist að þeirri niðurstöðu að það sé í rauninni óþarfi að breyta þessu. Ég fer þess vegna fram á það við hv. félmn. að hún falli frá brtt., vegna þess að auðvitað hlýtur það að vera Framkvæmdasjóður öryrkja og þroskaheftra sem kaupir húsið, ef til þess kemur, og auðvitað hlýtur andvirðið að renna til Framkvæmdasjóðs öryrkja og þroskaheftra, ef það gerist á þessu ári, ella til Framkvæmdasjóðs fatlaðra, ef sala hússins á sér stað eftir 1. jan. 1984.

Mér þætti vænt um, herra forseti, ef hv. n. gæti tekið tillit til þessarar beiðni minnar.