09.03.1983
Efri deild: 62. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2747 í B-deild Alþingistíðinda. (2598)

149. mál, kaupstaðarréttindi til handa Ólafsvíkurhreppi

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Það urðu nokkrar umr. við 1. umr. þessa máls hér í þessari hv. deild. Þá kvaddi ég mér hljóðs m. a. og gagnrýndi þá breytingu, sem gerð hafði verið á frv. í Nd. frá því að það var lagt fram, þ. e. um stofnun sérstaks bæjarfógetaembættis í kaupstaðnum. Ég greindi þá frá því að ég mundi flytja brtt. við 2. umr. málsins um að færa þetta í hið upphaflega form.

Eins og kom fram í máli hv. 4. þm. Vestf., frsm. félmn. þessarar hv. deildar, þá kom hreppsnefnd Ólafsvíkurhrepps hingað suður ásamt sveitarstjóra til viðræðna m. a. við þm. kjördæmisins og fleiri aðila um þetta mál. Það er rétt að sjálfsögðu, sem hv. síðasti ræðumaður sagði, að hreppsnefndin hefur samþykkt að una þessu, — ég vil nota orðið una því, una þeirri breytingu sem gerð hefur verið á þessu, vegna þess að hreppsnefndinni var sagt að ef yrði farið að gera breytingar á þessu enn á ný, þá væri málið dautt á þessu þingi. Ég er ósammála því. Það hefði vel mátt breyta þessu og samt gefist tími til að afgreiða málið engu að síður. En það varð niðurstaða meiri hl. hreppsnefndar Ólafsvíkurhrepps að una þessu eins og það er og var það þó ekki gert með neinni sérstakri ánægju. Það fullyrði ég.

Það sem fyrst og fremst vakti fyrir íbúum Ólafsvíkurhrepps með því að óska eftir kaupstaðarréttindum var að fá bætta þjónustu frá sýslumannsembættinu eða fá bætta þjónustu með þeim hætti að þar yrði sjálfstæður bæjarfógeti. Það hefur ekki fengist og þá er auðvitað að huga að því, hver er næstbesti kosturinn. Næstbesta kostinn hefði ég talið þann að lögfesta í þessu frv. að í Ólafsvík skyldi sýslumaður Snæfellsnes- og Hnappadalssýslu starfrækja sérstaka skrifstofu, sem annaðist öll þau embættisverk önnur en dómarastörf, sem sýslumannsskrifstofan annast. Þetta töldu menn að mundi gera það að verkum að málið næði ekki fram að ganga á þessu þingi. Því ætla ég ekki að hafa uppi neina tilburði til þess að stöðva það eða valda því að það nái ekki fram að ganga og mun þess vegna ekki flytja brtt.

Staðreynd er hins vegar að þeir sem í Ólafsvíkurhreppi búa eiga 150 km leið að sækja fram og til baka til sýsluskrifstofunnar í Stykkishólmi. Þaðan hefur maður komið einu sinni í viku til Ólafsvíkur. Þeir sem hafa þurft á hans þjónustu að halda hafa mátt bíða í geymsluherbergi og sitja þar á bíldekkjum og öðru dóti sem þar er í vanskilum. Þannig hefur verið að þessu búið.

Janúarmánuður var að vísu erfiður veðurfarslega og samgöngur ekki eins og best gerist, en nær allur janúarmánuður leið líka án þess að nokkur fulltrúi sýslumannsembættisins í Stykkishólmi kæmi til Ólafsvíkur. Það var fyrst á 28. degi mánaðarins, sem fulltrúi sýslumannsembættisins í Stykkishólmi kom til Ólafsvíkur, og höfðu þó mjólkurbílarnir a. m. k. komist sinna ferða velflesta daga mánaðarins. En vonandi hefur þessi beiðni hreppsbúa í Ólafsvík orðið til þess að nú verður þarna breyting á. Ég vil aðeins ítreka og minna á það sem stendur hér í umsögn sýslumanns. Þar segir með leyfi forseta:

„Í samráði við rn. hefur síðan verið ákveðið að ráða mann til starfa, er veiti forstöðu umboðsskrifstofu sýslumanns í Ólafsvík, er hafi fastan afgreiðslutíma mánudaga til föstudaga. Ætlunin er að þetta fyrirkomulag komist á síðar á þessu ári. Færi þá fram á þessari skrifstofu öll venjuleg afgreiðsla, sem almennt fer fram á sýsluskrifstofum, eftir því sem lög heimila. Má þar nefna móttöku opinberra gjalda, útgáfu skírteina, umskráningu bifreiða, umboðsstörf í sambandi við almannatryggingar og sjúkrasamlag, móttöku skjala til þinglýsingar o. s. frv.“ Varðandi þinglýsingu skjala er þess sérstaklega getið að ætlunin er að liðka til með afgreiðslu þeirra mála og hraða afgreiðslu eftir því sem unnt er.

Þetta er auðvitað góðra gjalda vert. En því les ég þetta hér, að það hlýtur að verða höfuðkrafa að við þessi loforð verði staðið. Og það verður auðvitað látið á það reyna. Væntanlega munu einhverjir verða til þess hér síðar að taka þetta mál upp, ef ekki verður efnt það sem lofað hefur verið.

Mér þykir það miður að þessu máli skuli hafa verið stefnt í tímaþröng hér. En það var vissulega gert vegna þess að þm. Vesturl. var sent þetta mál hinn 12. nóv. í ábyrgðarbréfi til l. þm. kjördæmisins. Þetta ábyrgðarbréf var ekki afhent þm. fyrr en 6. des. Málið kom ekki hér inn í þing fyrr en rétt fyrir jól. Því hefur verið stefnt í tímaþröng. Ég ætla ekki að ásaka hér einn eða neinn, en því meir sem ég hugsa um hlut hæstv. dómsmrh. og 1. þm. Vesturl. í þessu máli, þeim mun verri þykir mér hann.