09.03.1983
Neðri deild: 56. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2752 í B-deild Alþingistíðinda. (2612)

206. mál, stjórnarskipunarlög

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Í fimm ár hafa fulltrúar stjórnmálaflokkanna setið við það að endurskapa nýja stjórnarskrá. Árangurinn er enginn utan það, að þeir leggja nú til að þm. sé fjölgað um þrjá og að kosningaaldur sé færður niður í 18 ár. Um það eitt hafa þeir komið sér saman og ekki annað. Hér er verið að leggja til hugmynd, sem margoft hefur verið rædd og allir hv. þm. gjörþekkja, nefnilega það að hið ólýðræðislega vald sé tekið af forsrh. að hann einn geti leyst upp hv. Alþingi þá er honum þóknast. Ég nefni aðeins þá umr. sem nú fer fram þessa dagana þar um. Það sýndist þó satt að segja vera rismeiri ákvörðun, ef Alþingi sæi sóma sinn í því að breyta þessu, heldur en það að fjölga því sem lítið er og sennilega verður minna, úr 60 í 63. En þm. sýna hvað þeir eru að gera og hvað þeir eru ekki að gera í þessari atkvgr. Ég segi já.