09.03.1983
Neðri deild: 56. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2753 í B-deild Alþingistíðinda. (2619)

206. mál, stjórnarskipunarlög

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Heldur er það nú undarleg afstaða að vera meðmæltur frelsinu en telja það ekki eiga að vera í stjórnarskránni. Eru það lítil meðmæli með því hinu ágætu hugtaki yfirleitt. Ef fólkið í landinu fengi um það að vita, þá er þetta býsna fróðleg atkvgr.

Í grg. með pappír fjórflokkakerfisins stendur eitthvað á þessa leið: Þingflokkar Alþfl. Alþb., Framsfl. og Sjálfstfl. hafa auk þess orðið ásáttir um eftirfarandi: Að meðfram framlagningu nýrrar stjórnarskrár skuli auka lýðræði og valddreifingu í landinu.

Hér er, herra forseti, verið að leggja til að aftan við þá grein stjórnarskrárinnar sem kveður á um fjölda þm. sé stjórnarskrárbundin sú aðferð við kosningar, að kjósandinn fái að kjósa raðaðan lista, fái að kjósa nafn af lista eða nöfn af lista eða listum.

Þarna er bara allt í senn, lýðræði og valddreifingin sem þessir herramenn hafa komið sér saman um að vinna að samfara nýrri stjórnarskrá. En úr því að þeir hafa komið sér saman um að vinna að því samfara nýrri stjórnarskrá, því þá ekki að setja það í stjórnarskrána? Það er borðliggjandi að það er hægt. Það eru þrjár setningar sem fjalla um það. Fái fólkið í landinu að vita með hverjum hætti menn eru hér að verja sjálfa sig, með örfáum undantekningum þó, þá er það fróðlegt fyrir fólkið sem þetta land byggir. Ég segi vitaskuld já.