09.03.1983
Neðri deild: 56. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2754 í B-deild Alþingistíðinda. (2624)

206. mál, stjórnarskipunarlög

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Það hefur áður skeð hér að hv. 3. þm. Vestf. geri aths. við það að hér sé um líkar till. að ræða og tiltekinn stjórnmálaflokkur hefur flutt í stjórnarskrárnefnd. Ég hélt að hv. þm. vissu það, að að því er varðar rannsóknarvald eða eftirlitsvald þingnefnda, þá hefur sá þm. sem hér stendur verið flm. frv. um það í mörg ár. Ég held því að aths. af þessu tagi ættu að vera óþarfar og a. m. k. hv. þm. víti betur.

En kjarni málsins er sá, að þessi brtt. er um aðskilnað löggjafarvalds og framkvæmdarvalds. Það er sú grundvallarhugsun sem í gegnum þessar tillögur allar gengur með einum eða öðrum hætti. Hún er skyld nefndum þingsins og störfum þeirra. Hún er skyld á hinn vænginn fjölda þm. o. s. frv. Og mér er ljóst að með þessu er verið að taka mikilvæg völd frá hinum þröngu flokkshagsmunum. Það vita auðvitað flokkarnir líka. En þetta er grundvallarhugsun allra þessara kenninga. Ég segi já.