09.11.1982
Sameinað þing: 14. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 471 í B-deild Alþingistíðinda. (263)

267. mál, bann við því að bændum sé greitt fullt verð fyrir afurðir

Landbrh. (Pálmi Jónsson):

Herra forseti. Hv. 1. þm. Vestf. spyr í fyrsta lagi: Samkvæmt hvaða lagaheimild hefur Framleiðsluráð landbúnaðarins lagt bann við því, að bændum sé greitt fullt verð fyrir sauðfjárafurðir frá haustinu 1981?“

Sem svar við þessari fsp. vil ég taka fram eftirfarandi: Þegar umrædd fsp. barst var leitað svara hjá Framleiðsluráði landbúnaðarins við þeim atriðum sem að ráðinu snúa eða það hefur upplýsingar um undir höndum. Samkv. því svari sem frá Framleiðsluráði barst telur það sig ekki hafa lagt bann við því að bændum sé greitt fullt grundvallarverð fyrir sauðfjárafurðir frá haustinu 1981. Í grg. framkvæmdastjóra Framleiðsluráðs er bent á, að skv. 2. gr. laga nr. 95/1981, um Framleiðsluráð landbúnaðarins, verðskráningu, verðmiðlun og sölu á landbúnaðarvörum o.fl., beri Framleiðsluráði skylda til að jafna á milli framleiðenda halla sem verða kann af útflutningi búvara eftir reglum sem settar voru í a-lið lagagreinarinnar og nánar voru skýrðar í 2. gr. reglugerðar nr. 348/ 1979 við áðurgreind lögfrá Alþingi.

Í 6. mgr. a-liðar 2. gr. laga segir svo: „Söluaðilum er skylt að halda eftir af greiðslum til framleiðenda þeirri fjárhæð af andvirði innlagðrar búvöru, sem ákveðin er hverju sinni vegna framkvæmdar ofangreindra heimilda, og standa skil á þeim fjárhæðum til Framleiðsluráðs.“

Í bréfi framkvæmdastjóra Framleiðsluráðs segir svo til viðbótar:

„Hinn 22. okt. s.l. bárust upplýsingar til Framleiðsluráðs um að einstakir sláturleyfishafar væru búnir að greiða út fullt verð til framleiðenda á sínu svæði, m.a. á Siglufirði, þar sem mikið er um framleiðslu þéttbýlisbúa, sem átti samkv. fyrirætlunum Framleiðsluráðs haustið 1981 að skerða verðið hjá. Einnig voru ýmsir aðrir sláturleyfishafar tilbúnir með að gera upp við framleiðendur með fullu verði. Þetta voru smáir aðilar, sem höfðu selt allt sitt kjöt innanlands og áttu ekkert eftir í óseldum birgðum. Þegar þessar fréttir bárust til Framleiðsluráðs ákvað það að senda sláturleyfishöfum eftirfarandi skeyti:

„Að gefnu tilefni skal tekið fram, að ekki hefur enn verið ákveðin verðskerðing á framleiðslu kindakjöts haustið 1981. Sláturleyfishafar eru aðvaraðir um, að þeir bera ábyrgð á greiðslu verðskerðingar ef til hennar kemur og mega því ekki að svo stöddu greiða fullt verð fyrir kjötið.

Framleiðsluráð landbúnaðarins.“ “

Þetta voru tilvitnanir í bréf framkvæmdastjóra Framleiðsluráðs landbúnaðarins.

Til viðbótar við það sem hér kemur fram eru þau lagaákvæði skýr að gert er ráð fyrir að allir sláturleyfishafar geti borgað sambærilegt verð til framleiðenda. Ef vantar á að innanlandsmarkaður, andvirði útfluttra landbúnaðarafurða og útflutningsbætur hrökkvi til að greiða fullt verð fyrir sauðfjárafurðir hefur sú regla gilt og gildir samkv. lögum, að því sem á vantar sé verðjafnað á milli aðila þannig að þeir sem selja sína vöru á innlendum markaði fái ekki fullt verð á meðan aðrir, sem kannske verða að sæta því að flytja verulegan hluta af sinum afurðum til útlanda, geti ekki fengið greitt nema einhvers staðar á milli hálfvirðis og fulls verðs. Þetta eru þær lagaheimildir sem stuðst er við og fram koma í framleiðsluráðslögum, svo sem hér hefur komið fram.

Á hinn bóginn er vandséð hvort unnt sé að banna einstökum aðilum að greiða fullt verð, en þeir hljóta að standa ábyrgir fyrir því, ef til verðskerðingar kemur, og verða þá að standa skil á verðjöfnunargjöldum og gildir þá einu hvort þeir hafa greitt fullt verð eða ekki.

Ég tel að með þessu komi fram skýringar á, sem hv. fyrirspyrjandi taldi sig ekki átta sig á til fulls, hvers vegna framleiðendur verða að sætta sig við það í sumum tilvikum að fá ekki fullt verð fyrir framleiðslu sína, fá ekki laun fyrir sina vinnu.

Í öðru lagi er spurt: „Var bann þetta lagt á í samráði við landbrh.?“

Svar: Aðvörun til sláturleyfishafa um að þeir beri fulla ábyrgð á greiðslu verðskerðingar ef til hennar kemur, sem kemur fram í því skeyti sem hér var lesið áðan, var hvorki gerð í samráði við mig eða með mínu samþykki. Ég vissi ekki af þessu skeyti fyrr en nokkru eftir að það hafði verið sent.

Í þriðja lagi er spurt: „Hvert var tilefni þess, að Framleiðsluráð taldi sig knúið til að banna sláturleyfishöfum að greiða bændum fullt verð?“

Svar: Í greinargerð framkvæmdastjóra Framleiðsluráðs eru talin upp nokkur atriði sem ástæða þess að umrædd tilmæli voru send sláturleyfishöfum. Vil ég sérstaklega rekja eftirfarandi úr bréfi Framleiðsluráðs:

1. Ekki hefur enn verið gengið frá verðmætaáætlun landbúnaðarins fyrir árið 1981–1982, sem er í höndum Hagstofu Íslands og stjórnvalda. Um þetta var rætt við landbrh. og fleiri ráðh. 15. júlí s.l. og óskað eftir að verkinu yrði hraðað og þá sendar bráðabirgðatölur til Hagstofu Íslands. Hinn 4. okt, var gengið frá lokatillögum Framleiðsluráðs til Hagstofu Íslands um þetta efni.

2. Enn liggja ógreiddir útflutningsbótareikningar hjá fjmrn. vegna síðasta verðlagsárs, hátt á annan tug millj. kr.

3. Ekki eru enn komin gjaldeyrisskil vegna allrar búvörusölu síðasta verðlagsárs og því ekki vitað með vissu hver vöntun verður á útflutningsuppbótum.

4. Enn vantar uppgjörsgögn frá nokkrum sláturhúsum og mjólkurbúum, svo að unnt sé að vinna uppgjörið. Sláturhúsum var gert að skila gögnum í júlímánuði s.l. Upplýsingar um mjólkurinnleggið áttu að koma í sept., eftir að verðlagsári var lokið, en vantar enn frá einu mjólkursamlagi. Þeim sem ekki skila á réttum tíma er veitt áminning minnst einu sinni í viku hverri.

Þessi atriði vildi ég láta koma fram úr bréfi framkvæmdastjóra Framleiðsluráðs landbúnaðarins.

Til viðbótar vil ég segja það, að 1. okt. s.l. var eftir að selja rúmlega 1000 tonn af gömlu kjöti og tvísýnt er að því sé enn lokið. Framleiðsluráðið telur ekki fært að taka ákvarðanir um verðskerðingu eða fullt verð nema hafa öll gögn og allar upplýsingar sem til þarf. Þetta eru þær ástæður sem Framleiðsluráðið færir fyrir áðurnefndum tilmælum til sláturleyfishafa um að halda eftir af verði til framleiðenda.

Ég vil láta það koma fram, að landbrn. hefur ítrekað farið fram á það við Hagstofu Íslands að ljúka uppgjöri á verðmætamati landbúnaðarafurða, sem er grundvöllur þess að unnt sé að segja fyrir með vissu um hvað útflutningsuppbætur verði miklar frá síðasta verðlagsári, en veikindi og aðrar aðstæður á Hagstofunni hafa tafið að frá þessu væri gengið og því miður eru þessi gögn ekki enn komin í mínar hendur.

Í fjórða lagi er spurt: „Mega bændur eiga von á því, að sláturleyfishöfum verði nú á næstunni bannað að greiða þeim fullt verð fyrir afurðir haustsins 1982?“

Þessari spurningu vil ég fyrir mitt leyti svara afdráttarlaust neitandi. Þó svo af fsp. megi ráða að bændur eigi það undir jáyrði eða neitun hvort þeir fái fullt verð fyrir afurðir sínar er málið flóknara en svo. Til að hægt sé að greiða þeim fullt verð fyrir afurðir sínar þarf í fyrsta lagi að vera til markaður fyrir framleiðslu þeirra og í öðru lagi þarf að fást framleiðslukostnaðarverð fyrir afurðirnar. Þó útflutningsbótum sé ætlað að tryggja bændum fullt verð fyrir afurðir sínar er sá réttur takmarkaður með lögum við 10% af heildarverðmæti landbúnaðarafurða, sem hefur hin síðari ár reynst ónóg. Í því sambandi vil ég minna á þáltill., sem ég hef lagt fyrir Alþingi nýlega, en með henni yrði mörkuð sú stefna að aðlaga framleiðslu landbúnaðarins að innlendum markaði og nýtanlegum mörkuðum erlendis. Þegar því marki er náð ætti spurning um hvort skerða eigi verð til bænda að vera óþörf.

Ég vil svo bæta við þetta svar, að ég tel mjög nauðsynlegt að í þessum mánuði verði unnt að ganga frá uppgjöri við bændur fyrir síðasta verðlagsár. Þó að nokkur gögn skorti enn til þess að gera það mögulegt að dómi Framleiðsluráðs, svo sem rakið hefur verið að framan, sýnast vera skilyrði til þess að það geti tekist. Það skal tekið fram, að samkv. lögum um Framleiðsluráð o.fl. er það hlutverk Framleiðsluráðs að skila tillögum til landbrh. um hvernig skuli tekið á málum ef ekki næst fullt verð og á það síðan að koma til ákvörðunar landbrh. hvernig þeim halla skuli skipt eða hvaða leiðir skuli farnar til að reikna út þá verðskerðingu sem kann að verða. Ég vænti þess, miðað við þau gögn sem þegar liggja fyrir varðandi uppgjör fyrir síðasta verðlagsár, að ekki þurfi að koma til nema a.m.k. mjög óverulegar verðskerðingar fyrir framleiðslu þess árs, enda sé þá notað í uppgjörið fé úr kjarnfóðursjóði, sem áður hefur að sjálfsögðu verið af framleiðendum tekið.