09.03.1983
Neðri deild: 56. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2756 í B-deild Alþingistíðinda. (2638)

206. mál, stjórnarskipunarlög

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Það frv., sem hér er væntanlega verið að samþykkja frá þessari deild til hinnar efri, er árangur fimm ára starfs á vegum flokkakerfisins í landinu til úrlausnar á þeim vanda sem kenndur hefur verið við stjórnarskrá lýðveldisins. Og árangurinn er aðeins sá, að þm. hefur verið fjölgað um þrjá, enda hefur engin ákvörðun verið tekin, hvorki í þessum tillögum né öðrum, um það með hverjum hætti eigi að skipta þessum þm. milli kjördæma. Og ég held að þeir þm. séu a. m. k. til, sem gera sér ekki til hlítar grein fyrir því, að þetta virðulega þing, sem nú situr, bindur með engum hætti hendur þess þings sem hugsanlega verður kosið 23. apríl. Þá hefst algerlega ný umræða um það með hverjum hætti eigi að vinna úr tillögum um 63 þm.

Það er þetta sem gerir það að verkum, að frv. eins og það sem hér er lagt fram og verið að samþykkja er ónýtt, vegna þess að það hefur ekki verið gert upp á milli t. d. stríðandi sjónarmiða í því frv. Þetta er frestur, sem í máli eins og þessu er ekki á illu bestur. Einnig af þessum ástæðum væri þetta frv. betur geymt í kistum. Ég segi nei.