09.03.1983
Neðri deild: 56. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2759 í B-deild Alþingistíðinda. (2659)

201. mál, vegalög

Frsm. (Stefán Valgeirsson):

Herra forseti. Þetta frv. fjallar um breytingu á 24. gr. vegalaga. Breytingin felst í því að orlofsheimili í eigu stéttarfélaga launþega á svæðum sem sérstaklega eru skipulögð fyrir orlofsheimili verði undanskilin sýsluvegasjóðsgjaldi.

Nefndin fékk til fundar við sig vegamálastjóra og vildi fá upplýsingar um hvað það mundi þýða fyrir sýsluvegasjóðina í hverju kjötdæmi ef þessi skattur yrði einnig felldur af öllum sumarbústöðum í landinu. Kom í ljós að þessi skattur er í ár talinn muni verða um 1 millj. 710 þús. kr. Aðallega er þessi skattur innheimtur í Suðurlandskjördæmi, 780 þús., í Reykjaneskjördæmi 340 þús., á Vesturlandi 290 þús., á Vestfjörðum 20 þús., á Norðurl. v. 100 þús., á Norðurl. e. 130 þús. og á Austurlandi 50 þús.

Með því að fella þetta aðeins niður af orlofsheimilum finnst okkur verið að gera þarna upp á milli, jafnvel eru launþegar sem eiga sína sumarbústaði. Við ræddum einnig við Magnús Guðjónsson um þann skatt sem var verið að greiða atkv. hér um, þ. e. fasteignaskattinn. Sveitarfélögin leggja mikið upp úr því að sá skattur haldist áfram, en þessi verði frekar lagður niður af orlofshúsunum eða sumarbústöðunum. Þess vegna gerir samgn. þá till. að greinin orðist svo:

„Undanskildar vegaskatti samkv. 23. gr. eru allar kirkjur, skólahús, þinghús, félagsheimili, vitar, orlofsheimili og sumarbústaðir.“

Fjarverandi við afgreiðslu málsins voru hv. þm. Friðjón Þórðarson, Steinþór Gestsson og Halldór Blöndal.

Ég mun óska eftir því sérstaklega, ef því verður við komið, að flýta þessu máli til þess að það geti farið til Ed. til athugunar og afgreiðslu. Það verður þá að koma í ljós hvort það hefst í gegn fyrir þinglok.