09.03.1983
Neðri deild: 56. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2760 í B-deild Alþingistíðinda. (2665)

187. mál, fólksflutningar með langferðabifreiðum

Frsm. (Stefán Valgeirsson):

Herra forseti. Þetta frv., sem er um skipulag fólksflutninga með langferðabifreiðum, er komið frá Ed. og var ekki gerð nein breyting á frv. þar. Þetta er nokkuð stór lagabálkur og dálítið flókinn. Nm. í samgn. Nd. hafa raunar ýmislegt að athuga við sumt af þessum greinum, en það vannst ekki tími til þess að fara ofan í það eins og við teljum raunar að hefði þurft.

Nefndin kallaði fyrir sig Ólaf Steinar Valdimarsson í samgrn. og hann gerði grein fyrir frv. Frv. er samið af nefnd sem var skipuð af samgrh. 16. okt. 1981 til að endurskoða gildandi lög um þessi efni. Í þeirri nefnd var Ólafur Steinar Valdimarsson skrifstofustjóri í samgrn. formaður, en aðrir nm. voru Ágúst Hafberg, Einar Ögmundsson, Leifur Karlsson, Skarphéðinn D. Eyjólfsson og Ölvir Karlsson.

Niðurstaða nefndarinnar varð sú, að mæla með því að frv. verði samþykkt óbreytt, en einstakir nm. hafa áhuga á því að athuga frv. betur á næsta þingi og koma þá jafnvel með breytingar við það.

Fjarstaddir við afgreiðslu málsins voru þeir Friðjón Þórðarson, Steinþór Gestsson og Halldór Blöndal.