09.11.1982
Sameinað þing: 14. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 477 í B-deild Alþingistíðinda. (267)

267. mál, bann við því að bændum sé greitt fullt verð fyrir afurðir

Egill Jónsson:

Herra forseti. Ég fagna þeirri umr. sem hér hefur átt sér stað og er þakklátur fyrirspyrjanda að hafa hér vakið athygli á þessu máli.

Ég tek undir það, sem hér hefur komið fram, að auðvitað er hér ekki nálægt því nógu mikill tími til að brjóta þessi mál til mergjar. En í þessum umr. hafa hins vegar komið beint og óbeint fram ákaflega glöggar skýringar.

Það er t.d. frá því sagt, að ekki sé hægt að gera upp fyrr en eftir dúk og disk við bændur vegna þess að það standi á gjaldeyrisskilum. Þeir aðilar, sem flytja út eða kaupa þessa vöru erlendis hafa svo langan greiðslufrest. Það má þakka fyrir ef þetta fer ekki frekar í gegnum einn banka en tvo banka áður en það kemur hingað til lands. Sannarlega væri mál út af fyrir sig að athuga með hvaða hætti þeir verslunarhættir eiga sér stað.

Það er líka sagt hér frá því, að greiðsla berist ekki frá ríkissjóði vegna þess að það þurfi að bíða þar til það sé búið að loka vaxta- og geymslureikningi. Menn hefðu haft gott af því að sjá hvernig þeim tölum er stillt upp. Ég held að eitt það mikilvægasta í sambandi við þessi milliliðaviðskipti sé að breyta því kerfi frá því sem er, þannig að eftir því sem lengra liður á árið dragi úr geymslukostnaði. Eins og þessi mál standa núna er þetta kerfi beinlínis hvati í þá veru að selja ekki vöruna. Það er bókstaflega hvati í þá veru að halda henni sem lengst í geymslu og svona mætti halda áfram lengur að telja.

Hæstv. landbrh. sagði að hluti af verðinu sem ætti að vera skilaverð til bænda ætti að koma í gegnum kjarnfóðurgjald. Ég held að af mörgu því sem skakkt er í kringum þessi mál sé þó það allhæpnasta að taka kjarnfóðurgjald af bændum, láta söluaðilann hafa það í 2–4 mánuði í sinni vörslu — (Forseti hringir.) Ég er rétt að ljúka máli mínu, hæstv. forseti. — og skila því síðan eftir dúk og disk aftur til bændanna sem hluta af framleiðsluverðinu. Þetta eru náttúrlega algerlega óþolandi vinnubrögð.

Þetta og reyndar margt fleira í þessum dúr, sem ég vonast til að mönnum gefist kostur á að ræða hér síðar á þessum vetri, er svarið við þeirri spurningu, hvers vegna sé verið að senda bannskeyti út um land. Svarið er það, að menn eru í tímahraki með þetta. Þetta er gamalt og úrelt kerfi og því þarf að breyta.