09.03.1983
Neðri deild: 56. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2764 í B-deild Alþingistíðinda. (2674)

30. mál, heilbrigðisþjónusta

Alexander Stefánsson:

Herra forseti. Ég verð því miður að segja að ég harma það á vissan hátt að það mikla mál sem hér er til umr., frv. til l. um breytingu á lögum um heilbrigðisþjónustu, var ekkert rætt við 1. umr. málsins vegna þess að það mælti enginn fyrir frv. Ég uppgötvaði það því miður of seint. Annars hefði ég við 1. umr. óskað eftir að koma að vissum aths., sem ég hefði talið nauðsynlegt að heilbr.- og trn. hefði fengið til meðferðar, því að þetta er svo viðamikið og stórt mál. Hér er verið að endurskoða lög, sem sett voru upphaflega 1973 með gildistöku 1. jan. 1974, með endurskoðun sem gerð var á þeim 1978.

Það mætti tala langt mál um þessa löggjöf miðað við þá reynslu sem af henni er fengin. Ég mun að sjálfsögðu taka tillit til þess að hér er málið við 2. umr. og ekki ráðrúm til þess að koma fram vissum brtt., sem hefði þurft að skoða í hv. n., þar sem svo furðulega vildi til að frv. fór hér í gegnum 1. umr. án þess að nokkur aðili tæki til máls þar sem ekki var höfð framsaga fyrir málinu. Þetta er sjálfsagt óvenjulegt um svo stórt og viðamikið mál.

Það sem ég vildi koma hér á framfæri við þessa umr. er í fyrsta lagi að ég get tekið undir með þeim sem hér hafa talað áður um að margt er til bóta í því frv. sem hér liggur fyrir, enda var markmiðið með því að taka málið til endurskoðunar að betrumbæta það frá því sem áður var, miðað við þá reynslu sem fengin var. Eitt stórt mál, sem ég vil sérstaklega undirstrika, er í sambandi við sjúkraflutningana, sem bæði ég og aðrir þm. í þessari deild höfum barist fyrir nú um nokkurt skeið að koma skipulagi á, því að allir vita, sem á hafa þreifað, að það hefur verið mjög mikið vandamál viða að skipulag sjúkraflutninga hefur ekki verið til í þessu landi. Þess vegna fagna ég því að það er komið mn í þessi lög.

Ennfremur eru margar aðrar úrbætur í lögunum, svo sem ákvæðið um heilbrigðisþing, sem er ákaflega mikilvægt, og nokkrar breytingar á skipulagi heilsugæsluumdæma, sem er allt til bóta, miðað við þá reynslu sem fengist hefur af þessum lögum.

Ég tel það einnig til bóta í 9. gr., að nú er því starfsliði á heilsugæslustöðvum fjölgað sem er launað af ríkinu, svo sem fólk sem annast sjúkraþjálfun. Það er ákaflega mikilvægt mál og var deiluatriði við meðferð þessara laga undanfarið. Einnig er það til bóta að kveðið hefur verið upp úr um það í sambandi við 10. gr., að viðhald og endurnýjunarkostnaður fasteigna og tækja greiðist í samræmi við stofnkostnað heilsugæslustöðva og sjúkrahúsa, sem er mikilvægt atriði.

En það sem mig langar fyrst og fremst til að vekja athygli á við þessa 2. umr. — þó að ég viðurkenni að það hefði átt að koma við 1. umr., og ég reiknaði satt að segja með að hv. Ed. áttaði sig á þessu máli, miðað við þær umr. sem fram hafa farið í þjóðfélaginu — er í sambandi við 12. gr. frv. Sú gr. fjallar um laun lækna. Og enn er þessu furðulega fyrirbrigði haldið áfram í lögum, að læknar á heilsugæslustöðvum skuli geta tekið laun með tvennum hætti: Í fyrsta lagi eru þeir launaðir eins og aðrir ríkisstarfsmenn. Þeir taka föst laun fyrir gegningarskyldu, vaktþjónustu, heilsuverndarstarf og ráðgjafarþjónustu við heilbrigðiseftirlit, svo og skólatannlækningar. En í öðru lagi skulu þeir taka laun samkv. samningi Stéttarfélags lækna og tannlækna og Tryggingastofnunar ríkisins fyrir almenn læknisstörf og almennar tannlækningar. M. ö. o., læknum í húsnæði ríkisins og sveitarfélaga, með öllum útbúnaði, tækjakosti og öðru slíku, er heimilað samkv. þessum lögum að praktísera á sjúklingum.

Og þeir hafa meiri rétt en þetta. Gegnum þetta ákvæði laganna semja þeir reikninga fyrir þessi störf og senda til sjúkrasamlaga sveitarfélaga. Sjúkrasamlögin greiða þetta refjalaust. Síðan á að tryggja það að til sé kerfi í landinu sem endurskoðar þessa reikninga. Hvernig er það kerfi hv. alþm.? Það kerfi er þannig, að við Tryggingastofnun ríkisins er sérstakur deildarstjóri sem á að vera tryggingaeftirlitsmaður. Hvernig er svo þetta eftirlit? Þessi maður á að fara yfir reikninga frá öllum sjúkrasamlögum landsins. Og hvernig hefur þetta verið? Þetta hefur verið þannig í framkvæmd, að það eru í mesta lagi 1–2 sjúkrasamlög á landinu sem er hægt að endurskoða í gegnum þetta kerfi á ári, sem þýðir það að raunhæft eftirlit með gjaldtöku praktíserandi lækna í ríkishúsnæði fer raunverulega aldrei fram. Þetta þykja e. t. v. stór orð, en ég hef sagt þau hér áður. Því miður er þetta svona. Og ég er undrandi yfir því. Frá þeim fyrsta degi að lögin tóku gildi hefur þetta verið gagnrýnt hér úr þessum ræðustól oftar en einu sinni. Samt sem áður láta alþm. það henda sig í gegnum meðferð málsins á Alþingi að við þessu er ekki hróflað.

Ég harma það að hæstv. heilbrmrh. er ekki hér í deild. Þessu til viðbótar kemur sú staðreynd, að það eru engir samningar við Tannlæknafélag Íslands t. d., sem upplýstist þegar verið var að ræða tannlækningamál hér fyrr í dag. Það eru engir samningar í gildi við Tannlæknafélag Íslands. Hvers vegna? Vegna þess að þeir samningar hafa ekki náðst milli rn. og Tryggingastofnunar ríkisins og Tannlæknafélags Íslands. en í lögum, m. a. í þessari gr. hér, 12. gr., er þessum mönnum heimilað að praktísera á heilsugæslustöðvum út um allt land. Enginn setur neinar skorður við þessu.

Þetta vil ég gagnrýna herra forseti, þó að ég viðurkenni fúslega að málið er e. t. v. komið svo langt hér í gegnum hv. deild að erfitt er að stöðva það út frá þessu. Ég vil benda á að Samband ísl. sveitarfélaga hefur oftar en einu sinni sent aths. frá sér við þessa gr. laganna. Meira að segja hefur fulltrúaráð sveitarfélaga sent frá sér ár eftir ár mótmæli gegn þessu ákvæði og talið eðlilegt að laun samkv. þessu ákvæði væru samkv. samningi stéttarfélags lækna og tannlækna og Tryggingastofnunar ríkisins fyrir almenn læknisstörf og almennar tannlækningar sem þeir sjálfir inna af hendi, og að sett yrðu sérstök ákvæði um þetta atriði. Þessu hefur ekki verið sinnt. Hér er eitt dæmi um það hvað menn geta orðið sammála um að hrófla ekki við kerfinu okkar svokallaða, því sem einu sinni er komið í lög eða reglur, og reyna ekki að hafa áhrif á að lagfæra svona lagað.

Ég skal ekki tefja umr. hér miklu meira um þetta. Þó get ég ekki stillt mig um að benda á önnur tvö atriði í sambandi við þessa lagasetningu. Í öðru tilfellinu á ég við stjórnarfyrirkomulag á heilsugæslustöðvum og sjúkrahúsum. Ég vil lýsa því hér yfir að þessi lagasetning gengur mjög í þá átt að draga úr áhrifum sveitarfélaga á stjórn þessara stofnana. Áhrifin eru færð yfir á starfslið stofnananna og í mörgum tilfellum hefur reynslan orðið sú við framkvæmd laganna að læknir og fulltrúi hjúkrunarliðs hafa myndað meiri hluta í stjórn heilsugæslustöðvar, þó að reiknað sé með því að sveitarfélögin hafi 2 af 3 stjórnaraðilum. Þetta er atvinnulýðræði sem gengur í öfuga átt. Ábyrgð þess, sem á að reka stofnunina, er minnkuð og ekki tekið tillit til þeirrar fjárhagslegu ábyrgðar sem þarna er um að ræða.

Í öðru lagi vil ég gagnrýna einn þátt, sem veldur því að ég hef á undanförnum árum oftar en einu sinni gert harða hríð að hæstv. heilbrmrh. í sambandi við framkvæmd laganna. Það er setning reglugerða og gjaldskráa. Samkv. gildandi lögum var gert ráð fyrir því að sett yrði reglugerð og gjaldskrá um framkvæmd laganna í öllum aðalatriðum. Þetta var ekki gert. Þetta átti að gera samkv. setningu laganna 1973. Þetta átti að gera samkv. setningu laganna 1978 og það var ekki gert. Það er fyrst á síðasta ári að þetta er gert. Og þá kem ég að kjarna málsins.

Þegar heilbrmrn. lætur loksins verða af því að setja reglugerð um framkvæmd laganna þá sendir það drög að þessari reglugerð til Sambands ísl. sveitarfélaga. Og þá kemur það furðulega í ljós, að reglugerðin er hvorki meira né minna en 52 greinar. Hún er umfangsmeiri, hún er stærri en lögin sjálf. Og þegar Samband ísl. sveitarfélaga lætur fara í gegnum þessa reglugerð, þá er fullt af mótsögnum í reglugerðinni gagnvart lögunum. Sambandið lét útbúa sérstaka nýja reglugerð út frá þessu, sem er stytt niður í 32 greinar og rökstuddi með sterkum rökum helstu vankanta á reglugerð ráðuneytisins sem í mörgum tilfellum gengur lengra en lögin heimila.

Við skyldum ætla að hæstv. heilbrmrn. tæki tillit til slíkrar gagnrýni. En það var ekki gert. Reglugerðin var sett án þess að haft væri meira samband við Samband ísl. sveitarfélaga. Og í staðinn fyrir 52 greinar er hún endanlega orðin 67 greinar. Í mörgum tilfellum gengur þessi staðfesta reglugerð lengra en lög um heilbrigðisþjónustu heimila. Ef hv. þm. hafa lagt það á sig að skoða þessa reglugerð, þá sjá þeir í henni að það er búið að setja stjórnarform á allflestar heilbrigðisstofnanir sem lögin fjalla um. Og það er búið að gera ráð fyrir því að ráða alls konar forstjóra, ekki aðeins við sjúkrahúsin og deildir þar, sem eðlilegt er, ekki aðeins við heilsugæslustöðvar H 2, sem eru stærri heilsugæslustöðvar, heldur einnig á heilsugæslustöðvar H 1, eða réttara sagt læknisaðstöðu.

Þetta eru atriði sem ég vil harðlega gagnrýna. Ég tel að þarna hafi verið gengið á svig við eðlilegt samstarf við þá aðila sem eiga að sjá um og bera ábyrgð á rekstri þessara stofnana. Þetta vil ég gagnrýna um leið og ég gagnrýni það, að heilbr.- og trn. Alþingis skuli hafa látið þessi mál algerlega fram hjá sér fara eins og ekkert væri. Ég harma það, að þetta mál skuli vera komið svona langt í gegnum sali Alþingis, því að megintilgangurinn með endurskoðun laganna frá 1978 var að betrumbæta þau og samhæfa, miðað við þá reynslu sem fengin var, og miðað við þá nauðsyn sem var að gera reglugerð um heilbrigðisþjónustu þannig, að hún tryggði fyrst og fremst það sem til er ætlast, betri þjónustu fyrir alla íbúa landsins.

Herra forseti. Ég taldi rétt að koma inn í þessar umr. hér við 2. umr. málsins, þó að ég viðurkenni hins vegar að það var óheppilegt að hafa ekki getað komið fram með þær brtt. sem ég hefði viljað gera. Ég endurtek, að ég harma að þetta furðulega fyrirbrigði skyldi geta skeð á hv. Alþingi, að svona þýðingarmikil löggjöf fer í gegnum umr. hér í hv. deild án þess að nokkur aðili tæki til máls til þess að fylgja frv. eftir. Því var vísað til nefndar umræðulaust. Og ég harma það, að hv. trn. Nd. skyldi ekki gefa sér meiri tíma til að skoða þessa þætti, því að um þetta frv. er umsögn úr öllum áttum, sem gefur tilefni til skoðanaskipta.