09.03.1983
Neðri deild: 56. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2767 í B-deild Alþingistíðinda. (2675)

30. mál, heilbrigðisþjónusta

Jóhann Einvarðsson:

Herra forseti. Ég skal ekki tefja þessa umr. mikið. Þó vil ég segja hér nokkur orð í sambandi við orð síðasta ræðumanns. Ég held að þetta mál, endurskoðun heilbrigðislöggjafarinnar, sé samkomulagsmál, að samkomulag hafi orðíð á milli velflestra sem þátt tóku í þessari endurskoðun. Ástæðan fyrir því að ekki er eytt verulega miklum tíma til þess að yfirfara þetta mál í heilbr.- og trn. þessarar deildar er sú að tveir menn, sem sitja í þeirri nefnd, tóku þátt í þeirri endurskoðun sem þar fór fram og voru þar af leiðandi vel kunnugir þeim breytingum sem þarna er verið að leggja til. Þó er það nú svo, að alltaf má betrumbæta það sem verið er að gera og betur sjá augu en auga.

Ég ætlaði ekki að ræða efnislega mörg atriði. Það hefur verið gert af öðrum á undan mér og formanni n. einnig. En það er eitt atriði, sem hefur dottið niður hér, sem heilbr.- og trn. hefur ákveðið að flytja hér og samkomulag er um innan n. Það er atriði í sambandi við 31. gr. laganna. Í þeirri grein stóð undir liðnum 31.3: „Yfirlæknar annarra sjúkrahúsa skulu ráðnir af viðkomandi sjúkrahússtjórn að fenginni umsögn nefndar, sbr. 31.1., sbr. þó 21. gr.“ Og síðan kom: „Þó þarf ekki að leita þeirrar umsagnar ef reglur sjúkrahúsa kveða svo á, að sérfræðingar sérdeilda kjósi yfirlækni deilda úr sínum hópi til takmarkaðs tíma.“

Þessi setning, sem ég las núna, hefur fallið niður hjá okkur við endurskoðun þessara laga. Það er mat okkar að þessi setning þurfi að vera inni, en hún mun fyrst og fremst hafa verið nýtt af Landakotsspítala, sem er sjálfseignarstofnun. Þar hefur þessi háttur verið hafður á um allmörg ár, að sérfræðingar deilda hafa kosið sér sinn yfirlækni sjálfir til þriggja ára í senn.

Við mig hefur rætt framkvæmdastjóri spítalans og síðan hef ég látið hafa samband við stjórnarmeðlim sem telur það brýna nauðsyn að þetta sé áfram inni í lögunum, enda geri þeir samningar sem gerðir voru þegar þessi sjálfseignarstofnun var stofnuð ráð fyrir því að þessar reglur spítalans gildi a. m. k. næstu 20 ár.

Því höfum við leyft okkur í heilbr.- og trn. að leggja fram brtt. við þessa grein þess efnis að við bætist setningin: „Þó þarf ekki að leita þeirrar umsagnar ef reglur sjúkrahúss kveða svo á, að sérfræðingar sérdeilda kjósi yfirlækni deildar úr sínum hópi til takmarkaðs tíma.“ Ég held að það sé samkomulag um þetta og vænti þess, þar sem þetta mál þarf að fara aftur hvort sem er til Ed. vegna örfárra breytinga sem nefndin hafði fyrr gert, að samkomulag náist líka um að afgreiða þessa litlu breytingu.