09.11.1982
Sameinað þing: 14. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 478 í B-deild Alþingistíðinda. (268)

267. mál, bann við því að bændum sé greitt fullt verð fyrir afurðir

Steinþór Gestsson:

Herra forseti. Það er sannarlega þörf umr., sem hér er byrjuð, og ég vænti þess og vona að það verði framhald á henni síðar í vetur, þó að það geti ekki orðið að þessu sinni. Ég er ánægður yfir því að það skuli vera komið í ljós greinilegar en oft áður hversu lagasetningin frá 1979 um heimildir til handa Framleiðsluráði og bændasamtökunum til að setja margs konar hömlur á framleiðslu bænda er vafasöm og hefur sýnst vera og er greinilega mjög erfið í framkvæmd. En um það ætla ég ekki að ræða að þessu sinni. Ég ætla aðeins að fara fáeinum orðum um þann þáttinn, sem hér eru minnstar upplýsingar um, sem er sláturkostnaðurinn sem borið hefur á góma.

Sláturkostnaðurinn er settur upp og samþykktur af sexmannanefnd. Það kom fram hér í máli fyrirspyrjanda, að sá kostnaður væri orðinn hartnær 30%, eða 28.1%, af verðlagsgrundvallarverði dilksins þegar honum er slátrað. Það segir sig sjálft, að þetta er algjörlega óviðunandi. Ég er nú ánægður yfir því að heyra það í máli landbrh. að hann hefur sett menn í það verk að endurskoða þessa hluti. En ég vildi gera þá kröfu, að það fengist opinber umr. um hvernig þessi sláturkostnaður er upp settur. Ég hef gert tilraun til að fá um það upplýsingar hvernig hann er sundurgreindur. Ég minnist þess, að fyrir allmörgum árum skrifaði þáv. formaður Stéttarsambands bænda, Gunnar Guðbjartsson, um það í opinber skjöl hvernig sláturkostnaðurinn væri fundinn út og um það varð nokkur umræða þá. En þegar ég vil fá sundurliðun á þeim kostnaði núna, þá telur sexmannanefnd ekki rétt að birta þá sundurliðun. Ég vil láta það koma hér fram, að ég tel mjög óeðlilegt að ekki liggi fyrir allir þættir þessa máls þegar umr. fer fram um sláturkostnaðinn og fyrir þá sök mun ég fara fram á það við landbrh. að hann opni umr. algjörlega um þetta mál.