09.03.1983
Efri deild: 63. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2773 í B-deild Alþingistíðinda. (2684)

206. mál, stjórnarskipunarlög

Egill Jónsson:

Herra forseti. Það er nú komið að þessari merku umr. sem menn hafa beðið eftir hér á hv. Alþingi og væntanlega í þessari hv. deild. Það er áreiðanlega óhætt að fullyrða að það eru ekki mörg minnisstæðari tímamót í löggjöf í þessu landi en þegar breytingar á stjórnskipunarlögum fara fram. Sú venja hefur gengið, að að undangenginni slíkri breytingu færi fram nokkur og venjulega mikil umr., ekki einungis í nefndum, ekki einungis á Alþingi heldur líka á meðal þjóðarinnar allrar.

Á þessu kjörtímabili hefur slík umr. átt sér stað innan Alþingis, þ.e. í þingflokkunum, og öðru hvoru hefur stjórnarskrárnefnd gefið yfirlit yfir störf sín og skýrt tillögur sínar varðandi hugsanlegar breytingar á stjórnarskrá íslenska lýðveldisins. Annaðhvort væri að svo væri unnið. Stjórnarskrárnefndin var, að því er ég hygg, kosin árið 1978 og hefur starfað alla daga síðan. Það er sannarlega ekki að ófyrirsynju þótt hún skýri sína vinnu fyrir Alþingi og þá eins og gert hefur verið á vettvangi þingflokkanna.

Núna, þegar mjög er farið að draga til endaloka þessa þinghalds, sem er það síðasta á þessu kjörtímabili, hafa hugmyndir um endurskoðun á stjórnarskránni og afgreiðslu hér á Alþingi orðíð fjarlægari. Ástæðan fyrir því er sú, að menn hafa talið og eru sammála um það, að ekki sé forsvaranlegt að ganga þannig frá stjórnskipunarlögum, endurskoðun á stjórnarskránni, að ekki gefist tími og rúm meðal íslensku þjóðarinnar að fjalla um málið almennt, ræða það sín á milli, gefa ábendingar og skýringar á afstöðu. Þetta eðlilega sjónarmið er af eðlilegum ástæðum virt. Annaðhvort væri nú í þjóðfélagi sem hefur eins ríkar taugar. til þingræðis og lýðræðis, eins og þetta þjóðfélag er grundvallað á.

Nú hefur það hins vegar hent sig að um tæplega tveggja mánaða skeið hefur farið fram umr. á milli forustumanna þingflokkanna um breytingar á einum þætti stjórnskipunarlaga, þ.e. kjördæmabreytingunni. Það vekur líka athygli að þær tillögur, sem þar hafa verið ræddar og hér eru nú til umr., hafa ekki verið áður skýrðar hér á Alþingi, ekki í þingflokkunum og ekki í neinni umr. annarri hér á Alþingi. Í upphafi þessa þings hélt þingflokkur Sjálfstfl. fund sinn austur í Rangárþingi, þar sem m. a. var farið mjög ítarlega yfir störf stjórnarskrárnefndar. Þá var ekki til umr. sú tillögugerð eða þær aðferðir við breytingu á stjórnarskránni sem hér eru lagðar til. Umr. hafði ekki átt sér stað um þá leið á fimm ára starfsferli stjórnarskrárnefndar. Það er ekki fyrr en núna, líklega innan við tveir mánuðir síðan, sem forustumenn þingflokkanna fara að ræða um þessa sérstöku leið sín á milli.

Þetta sýnir miklu betur en nokkur orð hvað hér hefur verið hratt að verki unnið, hve þessi umr. hefur öll verið takmörkuð og þröng. Það sem veldur þó kannske einna mestri undrun í allri þessari umr. er einmitt það, að hana á ekki að opna út í þjóðfélagið. Það eru aðeins örfáir dagar síðan till. um þessa leið var lögð hér fram á Alþingi og það er ætlan manna að afgreiða þetta mál héðan frá Alþingi á allra næstu dögum. Það væri sannarlega gaman að fá um það vitneskju hvers vegna nú er ekki þörf á að tala við þjóðina, hvers vegna nú er ekki ástæða til að skýra þessi mál og gefa íslensku þjóðinni möguleika á því að ræða þau opinskátt og sín á milli.

Nú er það þannig, að talað er um það sem grundvallarþörf í þessum efnum að misvægi á milli kjördæma sé svo mikið að það sé ekki lengur líðanlegt. Og það sætir undrun með hvaða hætti menn fjalla um þetta svokallaða misvægi á milli kjördæma. Til þess að það valdi ekki neinum misskilningi er það óumdeilanlegt og að því er ég hygg ómótmælt sem staðreynd að það sé þörf á leiðréttingu á milli kjördæma. Að sjálfsögðu gengur ekki annað en mæta þeim óskum og virða þá staðreynd. En það er hins vegar athyglisvert, hvað sú umræða er líka takmörkuð. Nú vitum við það öll á hv. Alþingi að í öllum stærstu málum sem hér er fjallað um, afstöðu til ríkisstjórna, afstöðu til utanríkismála og öðrum slíkum stefnumótandi málum, er í rauninni ekkert misvægi til á milli kjördæma. Þá er málum ráðið til lykta á grundvelli stjórnmálaflokka en ekki með kjördæmasjónarmið í huga. Í þeim tilvikum fer stefnumótun a.m.k. fram í stjórnmálaflokkum, en ekki þar sem flokkarnir sjálfir hafa það í hendi sér hvert misvægi er á milli byggðarlaga eða kjördæma. Raunverulegt pólitískt misvægi í þeim tilvikum er ekki nema það misvægi sem er á milli stjórnmálaflokkanna í landinu og að sjálfsögðu má það ekki vera nema innan eðlilegra marka. Þetta þykir mér alveg nauðsynlegt að komi hér fram og ég vil alveg sérstaklega undirstrika þetta, m.a. vegna þess að ég hef tæpast heyrt á þetta minnst í umr. um kjördæmamálið.

Ég verð nú að segja líka, að það er ekki allt of mikið gerandi úr misvægi á milli flokka. Það hlýtur að vera eðlilegt að það sé eitthvað. Þetta hefur hins vegar atvikast þannig að það hefur nokkuð oltið á einn veg, þ.e. Framsfl. hefur haft trúlega lengst af heldur fleiri þm. en þingstyrkur hans hefur staðið til, en það má ekki heldur gleyma því að stundum hafa framsóknarmenn verið kjörnir naumlega til Alþingis, m.a. í síðustu kosningum. Ég hygg að það hafi staðið nokkuð glöggt í einum 2–3 kjördæmum Framsfl. og það hefði verið annar svipur á samanburði á milli flokka ef t.d. óheppnin hefði verið þeim megin þá. Menn verða að líta á öll mál af nokkurri sanngirni og meta þau út frá því.

Þessu er ég einfaldlega að bregða hér upp m.a. vegna þess, sem ég kem síðar að í ræðu minni, þar sem nú virðist eiga að sjá fyrir öllu slíku, að allt verði hárrétt útreiknað með þeim stærðfræðikúnstum sem núna eru til staðar og eru á vissan hátt ofar mannlegri hugsun. En ég undirstrika hitt, sem ég sagði áðan, að auðvitað verður því ekki á móti mælt að valdið flyst til í þessu landi með fólkinu. Atkvæðisréttinn eiga menn hvar sem menn búa á þessu landi og þegar þjóðflutningar gerast með sama hætti og á Íslandi verður að sjálfsögðu ekki komist hjá því að taka til öðru hvoru við að leiðrétta vægi atkv., leiðrétta á milli kjördæma, og fyrir því er að sjálfsögðu nú óumdeilanleg þörf.

En svo virðist hins vegar, að í þeirri umr. sem átt hefur sér stað að undanförnu hafi ekki verið hægt að koma neinu öðru að en þeirri lausn sem stjórnmálaflokkarnir hafa komið sér saman um hér. Og ýmsar aðrar ábendingar eða breytingar, sem a.m.k. þm. í Sjálfstfl. voru að leitast við að koma að, var enginn vegur að fá teknar til greina. Það hefði á marga vegu verið hægt að ganga til móts við sjónarmið þeirra alþm., sem eru óánægðir með þessa kjördæmabreytingu, með öðrum breytingum, sem hefðu m. a. tryggt rétt fólksins í þessu landi, og þá ekki síst rétt þess fólks, sem býr fjarri þéttbýlissvæðum.

Herra forseti. Það mundi henta vel fyrir mig að gera nú hlé á minni ræðu. — [Fundarhlé.]

Herra forseti. Það er kunnara en frá þurfi að segja að stjórnmálaflokkarnir og skipan stjórnmála fer að sjálfsögðu mjög eftir því hvernig kjördæmum er háttað og hvernig kosningalög eru. Það er stutt að fara til þess að sjá hver áhrif síðasta kjördæmabreyting hafði á flokkaskipun hér á landi og áhrif pólitískra stjórnmálaflokka. Eins og menn vita var bæði um að ræða einmenningskjördæmi og fleirmenningskjördæmi og að sjálfsögðu þróuðust stjórnmálaflokkarnir mjög eftir þeirri kjördæmaskipan. Eins hefur að sjálfsögðu verið það tímabil sem liðið er frá því að núverandi kjördæmaskipan var upp tekin. Alveg með sama hætti kemur væntanleg kjördæmaskipun til með að ráða nokkru um það, með hvaða hætti stjórnmálaflokkarnir þróast hér í landinu. Það er greinilegt, og meira að segja mjög greinilegt, að til þess er alveg sérstaklega tekið í sambandi við þær till. sem hér liggja fyrir.

Þá er ég í raun kominn að þeim ágalla till. um breytingu á stjórnskipan íslenska lýðveldisins sem mér er verst við. Þar er þess alveg sérstaklega gætt að minni flokkarnir, Alþb. og Alþfl., haldi öllum sínum tökum úti á landsbyggðinni. Það er gengið svo frá, og var í rauninni það fyrsta sem maður varð sérstaklega var við í sambandi við umr. á milli þingflokkanna um það mál, að það mætti ekki með neinum hætti hagga við stöðu Alþfl. og Alþb. úti á landsbyggðinni. Og það kemur líka í ljós við samanburð, miðað við þær kosningar sem hafa átt sér stað, að þar verður ekki um fækkun að ræða hjá þeim flokkum. Tilfærsla verður á milli kjördæma, sem að vísu skiptir ekki neinu máli. Þess er sem sagt vandlega gætt að þeir flokkar haldi sinni stöðu í dreifbýlinu. Og engan skyldi undra þótt vel væri fyrir því séð, því að formaður Alþfl., hv. þm. Kjartan Jóhannsson, var einn af þeim sérfræðingum sem undirbjuggu forritin að þeim reikningskúnstum sem þar eru til grundvallar lagðar.

Sá tilflutningur á þm., sem verður samkv. hinni nýju kjördæmaskipun af landsbyggðinni og hingað yfir á þéttbýlissvæðin, verður á kostnað Sjálfstfl. og Framsfl. Það eru sem sagt hinir eiginlegu dreifbýlisflokkar sem eru látnir flytja þetta pólitíska afl á milli héraða. En alveg með sama hætti og kjördæmabreyting og kosningalöggjöf hefur áhrif á þróun stjórnmálaflokkanna hafa að sjálfsögðu þm. flokksins og þau viðhorf, sem þeir eru sérstakir talsmenn fyrir, áhrif á stjóraálaflokkana. Og ég verð að segja það alveg eins og er, að mér finnst það ekki ýkjageðfelld hugsun að þarna skuli Sjálfstfl. vera látinn færa meiri fórnir t.d. en Alþfl. og Alþb., því að eins og allir vita hefur nú dreifbýlið ekki sótt afar mikinn styrk til þeirra flokka og allra síst Alþfl. Hér er sannarlega um að ræða þann ágalla í þessum till. sem ég er mest á móti.

Ég er alveg sannfærður um að þessi breyting, ef af verður, kemur til með að hafa mikil áhrif varðandi þróun stjórnmálanna hér innanlands og þá sérstaklega vegna þess að aðstaða dreifbýlismanna versnar í stærri flokkunum. Það leiðir af sjálfu sér að um leið og hún versnar versnar pólitísk staða dreifbýlisins. Hér er því stigið miklu hættulegra skref en í fljótu bragði virðist vera.

Þá vil ég líka benda á í þessu sambandi að í rauninni hefur ekki verið lögð til grundvallar við þessa tillögugerð málefnaleg umr., ekki málefnalegar ákvarðanir. Þessum málum hefur verið ráðið til lykta með nútímatækni í reikningi. Það er í raun og veru tölvuöldin sem hefur gert mögulegt að ná fram þeim markmiðum sem frv. gerir ráð fyrir. Og satt að segja óttast ég að þar sé með engum hætti fyrir því séð að ekki geti hlotist slys af. Það er að sjálfsögðu alveg augljóst að þetta getur gengið nokkurn veginn upp miðað við þær kosningar sem hafa átt sér stað meðan núverandi kjördæmabreyting hefur verið í gildi, en menn hafa ekki hugmynd um hvaða stærðir koma út úr kosningum á Íslandi. Það er ekki víst að þau tölvuforrit, sem hafa verið lögð til grundvallar og eru sniðin að þeim kosningum sem fram hafa farið, dugi gagnvart þeim kosningum sem eru fram undan.

Ég við í þessu sambandi benda á máli mínu til stuðnings að það er ekki í ófáum tilvikum sem menn hafa þurft að gera breytingar á tillögum, útreikningum og forritum vegna þess að við einhverjar undanfarandi kosningar hafa komið upp þær stærðir sem ekki féllu að þeirri kjördæmaskipan eða þeim útreikningsreglum sem á að grundvalla útreikninga um úthlutun þingsæta á í framtíðinni. Við þessu vil ég alveg sérstaklega vara. Það kæmi mér ekki á óvart, þegar farið verður að bera þessar útreikningsreglur saman við t.d. útkomuna úr næstu alþingiskosningum, að upp komi einhverjar þær stærðir og einhverjar þær ábendingar sem nokkrum efasemdum gætu valdið í sambandi við gildi þessa fyrirkomulags.

Herra forseti. Ég hef nú dregið fram þau meginmarkmið sem ég vil sérstaklega vara við og gera það að verkum að ég er bæði á móti þessari kjördæmaskipan vegna stöðu dreifbýlisins, vegna þess hvernig ákveðnir stjórnmálaflokkar eru þar látnir færa meiri fórnir en aðrir, og líka vegna hins, að ég óttast mjög að hér sé ekki byggt á þeim grunni sem forsvaranlegur er. Ég vek sérstaka athygli á því sem ég hóf mál mitt á, þar sem ég benti á að engin umræða hefði farið fram um málið meðal þjóðarinnar.

Ég vil sérstaklega í þessu sambandi leggja áherslu á hve leikurinn á milli fólksins úti á landi og fólksins sem býr á þéttbýlissvæðunum hefur verið ójafn. Hér í Reykjavík hefur verið komið upp sérstökum samtökum til að flytja áróður fyrir jöfnun kosningarréttar. Það hafa verið framkvæmdar hér skoðanakannanir, sem hafa reyndar verið mjög skoðanamyndandi, og leitast við þannig að hafa áhrif á skoðanir fólks. Líka hefur með sama hætti verið leitast við að hafa áhrif á gerðir Alþingis. Alveg um sömu mundir hefur ekki nokkur einasta umræða um málið getað átt sér stað annars staðar á landinu. En það er eins og menn varði ekkert um þetta. Tilgangurinn helgar meðalið og þessi kjördæmabreyting, jafnvafasöm og hún annars er, skal ganga fram alveg án tillits til þess hvort þjóðin getur metið gagnsemi hennar eða ekki.

Ég ætla ekki að orðlengja þetta frekar að þessu sinni, herra forseti. Vera má að það verði hægt að koma öðrum sjónarmiðum hér að síðar. Þó vil ég að lokum aðeins geta þess sem sérstaks áhersluatriðis í þessum efnum, að alger forsenda fyrir því að hægt hefði verið að fallast á þessar breytingar er sú, að aðrir þættir í samskiptum fólksins í þessu landi og réttarstaða og hagsmunastaða fólksins út um hinar dreifðu byggðir væri tryggð samtímis þessu. Ég vil benda á í þessu sambandi, sem oft hefur komið fram í umr. um þessi mál, að jafnhliða valdflutningum með þessum hætti yrði að tryggja hagsmuni og aðstöðu dreifbýlisins með öðrum hætti, t.d. með þeim hætti að sveitarfélögin úti um land fengju meira sjálfsforræði yfir sínum framkvæmdum og hefðu meiri möguleika á því að taka eigin ákvarðanir um framgang þeirra. Það eru sem sagt stærstu þættir þessara mála sem enn eru óafgreiddir en sem ég tel af eðlilegum ástæðum að verði að fylgja slíkri valdatilfærslu í þjóðfélaginu sem hér er verið að leggja til að verði.

Ég orðlengi þetta ekki frekar, en þarf að sjálfsögðu ekki að taka það hér fram að með tilliti til þeirrar skýringar sem ég hef hér gefið mun ég greiða atkv. á móti þessu máli.