09.03.1983
Efri deild: 63. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2777 í B-deild Alþingistíðinda. (2685)

206. mál, stjórnarskipunarlög

Viðskrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Þetta frv. til stjórnskipunarlaga, sem hér er til umr., um breytingu á stjórnarskránni er tiltölulega stutt og fjallar aðeins um einn þátt stjórnarskrárinnar, sem er fyrst og fremst breyting á kosningafyrirkomulaginu, því að það er ekki gerð till. um breytingar á kjördæmaskipuninni eins og kunnugt er. Þessar breytingar eru fyrst og fremst fólgnar í því, að það á að fjölga alþm. um þrjá og það á að skipta þingsætum með tilteknum hætti niður á kjördæmin. Það skal ráðstafa a.m.k. átta þingsætum til kjördæma fyrir hverjar kosningar samkv. ákvæðum í kosningalögum og síðan er heimilt að ráðstafa einu þingsæti til kjördæmis að loknum hverjum kosningum samkv. ákvæðum í kosningalögum einnig. Síðan eru brtt. við stjórnarskrána um að lækka kosningarrétt til Alþingis úr 20 árum í 18 ár.

Kjördæmaskipunin og kosningafyrirkomulagið eru svo mikil grundvallarmál um skipan og meðferð ríkisvalds að sérstaklega þarf að grunda vel bæði meðferð og efni slíka mála. Ég vil strax taka það fram að mér finnst málsmeðferð þessa máls vera verulega gölluð. Málsmeðferðin hefur að mínu mati mótast allt of mikið af því að hér sé í raun og veru verið að setja kosningalög og kosningafyrirkomulag fyrir flokkana í landinu, þessa fjóra aðalflokka sem hafa starfað í landinu um alllanga hríð. Ég byggi þetta á því, að flokksformennirnir hafa setið í kringum tölvu og reiknað út hvernig kosningar hefðu farið eftir þessu kerfi, sem hér er stungið upp á, síðustu 20 árin fyrst og fremst. Mér finnst að þessi vinna og þessi málsmeðferð hafi mótast allt of mikið af því að setja kosningalög fyrir stjórnmálaflokkana, sem eru starfandi í landinu, í stað þess að hafa að leiðarljósi að setja kosningalög og kjördæmaskipan bæði fyrir land og þjóð. Tölvan er út af fyrir sig ágætt tæki og ekki nema gott um hana að segja í sjálfu sér, en mér finnst að menn séu allt í einu farnir að fást hér meira við stærðfræði en lögfræði þegar um er að ræða undirbúning þessa máls og það sé eiginlega stærðfræðin sem ráði ríkjum í sambandi við mótun málsins í staðinn fyrir ýmis önnur sjónarmið, sem eðlilegt væri að hafa í huga með tilliti til þess að setja kjördæmaskipun og kosningalög, sem munu hafa þau áhrif að bæta stjórn landsins og skapa réttlæti í landinu þegar á heildina er litið.

Þegar haft er í huga t.d. hvernig menn hugsuðu þegar verið var að setja á stofn nefnd til að endurskoða stjórnarskrána árið 1972 og aftur 1978 var ályktað svohljóðandi, með leyfi hæstv. forseta, — það var gerð ályktun á Alþingi um þessi efni í maímánuði 1972:

„Alþingi ályktar, að skipuð skuli 7 manna nefnd til að endurskoða stjórnarskrána. Nefndarmenn skulu kosnir af Alþingi. Forsrh. kveður nefndina saman til fyrsta fundar, en hún skiptir sjálf með sér verkum.

Nefndinni ber að leita álits sýslunefnda og bæjarstjórna, landshlutasambanda sveitarfélaga og landssambanda stéttarfélaga. Hún skal leita álits lagadeildar Háskóla Íslands og Hæstaréttar um lögfræðileg efni. Með opinberri tilkynningu skal þeim, sem þess kynnu að óska, gefinn kostur á að koma á framfæri við nefndina skriflegum og skriflega rökstuddum brtt. við núgildandi stjórnarskrá fyrir þann tíma, sem nefndin tiltekur.“

Hér er ályktað um tiltekna meðferð málsins, sem felur í sér að ýmsum aðilum í þjóðfélaginu sé gefinn kostur á að tjá sig um málið áður en það fer til Alþingis sem till. Í þessu tilviki, sem hér er um að ræða, hefur slíkt alls ekki komið til álita. Þetta hefur verið unnið á tiltölulega skömmum tíma í Alþingi, og ekki raunar í Alþingi, heldur á vegum stjórnmálaflokkanna, og síðan kemur málið inn á Alþingi og er hespað af á Alþingi í svo miklum flýti að það er varla talið eðlilegt að menn tjái sig um málið í sæmilegu máli, heldur verði að hespa þetta af. Öll meðferðin ber vott um að það verði að hespa málið af án þess að það komi til möguleikar fyrir þjóðina og fyrir ýmsa aðila í þjóðfélaginu til að tjá sig um málið áður en það gengur í gegnum Alþingi. Ég álít að sú málsmeðferð varðandi svona mál sé ekki til fyrirmyndar.

Það er ástæða til að geta þess, að hér er um að ræða aðeinseinn þátt stjórnarskrárinnar, þ.e. kjördæmaskipanina og kosningafyrirkomulagið, þó fyrst og fremst kjördæmaskipanina og hve marga fulltrúa kjördæmin senda til Alþingis. Það er ekki um að ræða að fjalla um stjórnarskrána í heild og reyna að gera sér grein fyrir hvernig stjórnskipulegum réttindum manna í landinu er háttað. Ég álít þetta einnig mjög gallað, að það skuli unnið að þessu á þennan hátt, og hefði miklu fremur kosið að málið fengi heildarmeðferð á Alþingi og allir þættir stjórnarskrárinnar væru þar teknir saman.

Þegar fjallað er um hvernig kjördæmaskipun og kosningafyrirkomulag skuli vera með þjóðinni koma til álita mörg grundvallaratriði, sem geta haft verulega þýðingu um hvernig mál þróast. Það er t.d. það meginatriði hvernig menn vilja haga þessum málum með tilliti til þess að þjappa þjóðinni saman í stærri heildir eða hvort menn vilja heldur þann kostinn að koma á skipulagi sem stuðlar að því að sundra þjóðinni í fleiri heildir. Ég álít að með kjördæmaskipuninni 1959 hafi verið stigið verulegt spor í þá átt að koma á kjördæmaskipan og kosningafyrirkomulagi sem sundrar þjóðinni, enda hefur reyndin orðið sú síðan 1959 að það hefur verið mikil tilhneiging til þess að flokkum fjölgaði. Ég skal ekki spá um hve margir flokkar eða heildir eða hreyfingar taka þátt í kosningum að þessu sinni, en það er þó a.m.k. öruggt að það eru a.m.k. 6 flokkar, og hreyfingar, sem bjóða fram við kosningarnar, og kannske fleiri. En þetta hefur ekki aðeins haft þau áhrif að það er tilhneiging til að fjölga flokkum, það er tilhneiging til þess að sundra þjóðinni, heldur hefur þetta einnig haft þau áhrif að það er einnig talsvert upplausnarástand í stjórnmálaflokkunum, sem stafar kannske einum þræði af innra skipulagi þeirra, en öðrum þræði af því að það er meiri lausung, það er meira svigrúm til að kljúfa í þessu kerfi, sem sett var á 1959, en áður hafði verið. Ég álít því persónulega að það hafi verið skref aftur á bak að stækka kjördæmin eins mikið og þá var gert í þá átt að það auðveldar mönnum mjög leikinn að kljúfa og sundra í stað þess að koma á skipan sem sameinar menn meira en verið hefur og þetta kerfi ýti undir flokkafjölda og flokkadrætti.

Auðvitað eru margar leiðir til að skapa kerfi sem þjappar mönnum saman. Það má nú fyrst nefna einmenningskjördæmafyrirkomulag, sem var hér áður fyrr og sem enginn vafi er á að mundi þjappa mönnum saman í flokki, í stærri heildir, eins og reyndin er t.d. í Bretlandi og hefur verið um langa hríð, eins og allir þekkja. Þar hefur þetta fyrirkomulag þjappað mönnum saman í stórar heildir, þannig að öfgarnar hafa orðið undir í þeim efnum og mönnum er þjappað saman í stærri heildir, sem hefur gefið góða raun hvað snertir stjórn landsins. Það er hægt að gera þetta með ýmsu öðru móti. Það er t.d. hægt að gera þetta með þeim hætti sem tíðkast í Bandaríkjunum. Það er gert í Bandaríkjunum sjálfum, þ.e. í sambandsríkinu, þar sem er sú skipan á að aðskilið er framkvæmdavald og löggjafarvald og forseti, þessi valdamikli aðili, er kosinn sérstaklega og það veldur því að þjóðin hefur skipst í tvær heildir vegna þess að það eru litlir möguleikar að ná kjöri nema menn þjappi sér saman. Sama er að segja um stjórnskipulag einstakra ríkja í Bandaríkjunum. Þar er þessi aðskilnaður alger. Þessi aðferð og þetta kerfi hefur valdið því m.a. að í Bandaríkjunum eru tveir höfuðflokkar sem berjast um völdin. Ég held að það sé óhætt að segja það hafi gefist heldur vel, ef þau mál eru skoðuð nánar.

Það mætti minnka kjördæmin frá því sem nú er. Það er ekki sjálfsagt mál að kjördæmaskipunin sé eins og frá henni var gengið 1959. Ég álít að kjördæmin, sérstaklega er það nú landsbyggðin sem ég er að hugsa um, séu allt of stór. Auðvitað finna þm., sem eru fulltrúar fyrir hin víðlendu kjördæmi á landsbyggðinni, að þessi kjördæmi eru allt of stór. Það er því erfitt að sinna þingmennsku í þessum kjördæmum svo að sæmilegt sé. Það eru því ýmsar leiðir sem koma til greina þegar og ef menn vilja á annað borð koma á kerfi sem er líklegt til að þjappa þjóðinni saman í stað þess að koma á kerfi sem hefur þau áhrif að sundra þjóðinni og skapa meiri og minni upplausn um stjórn á málefnum hennar. Inn í þessa umr. fyndist mér því eðlilegt að kæmi umr. um kjördæmaskipunina sjálfa og hvað menn álíta um það, hvort æskilegt sé að haga henni þannig að hún þjappi mönnum saman í staðinn fyrir það að hún sundri þjóðinni í margar sundurleitar fylkingar sem berjast um völdin og niðurstaðan verður tiltölulega léleg stjórn á málefnum lands og þjóðar.

Ég segi fyrir mína parta að ég er fylgjandi þeirri gerð stjórnarskrár sem mundi tryggja eins og auðið er að byggð héldist í landinu sem víðast og Ísland héldi áfram að verða það þjóðríki sem það hefur verið frá því að það var stofnað í stað þess að setja upp stjórnfyrirkomulag sem stuðlar að því að byggðin færist hingað á suðvesturhornið og þetta verði að eins konar borgríki þegar tímar líða.

Setning stjórnarskrár er auðvitað grundvallarmál og á þeim grunni hvílir öll réttarskipun þjóðarinnar, öll löggjöf og raunar öll stjórnmálastarfsemi í landinu. Skynsamleg ákvæði stjórnarskrárinnar, m.a. um kjördæmaskipan, skipan Alþingis og æðstu handhafa framkvæmdavaldsins, geta ráðið miklu um farsæla stjórn á málefnum ríkisins. Auðvitað eru ákvæði stjórnarskrár ekki einhlít í þessum efnum, en geta þó skapað skilyrði fyrir traustu og heilbrigðu þjóðfélagi þegar til lengri tíma er litið.

Frá setningu Úlfljótslaga hefur Alþingi verið burðarás íslensks stjórnskipulags, en veldi þess hefur verið misjafnlega mikið á hinum ýmsu tímum. Við höfum búið við þingræðisreglur allar götur síðan heimastjórn var tekin upp í landinu og þingræðisstjórnarfarið hefur gefist mörgum þjóðum vel. Hins vegar hefur það leitt til upplausnar í stjórnarfari sumra ríkja, eins og t.d. í Frakklandi. Flokkafjöldinn þar leiddi til glundroða og stjórnleysis, sem lauk með því að Frakkar lögðu niður þingræðisstjórnarfar og de Gaulle beitti sér fyrir nýrri stjórnarskrá þar sem skilið var á milli framkvæmdavalds og löggjafarvalds að verulega miklu leyti. Sama má segja um Weimarlýðveldið þýska, sem var sett á fót í lok fyrri heimsstyrjaldarinnar. Þar áttu allir kosningabærir menn að hafa sömu áhrif á stjórn ríkisins. Þessi stjórnarskrá tryggði mikinn flokkafjölda, sem leiddi til upplausnar á tiltölulega skömmum tíma og eins og kunnugt er til valdatöku Hitlers og nasista í Þýskalandi. Þessi dæmi sanna auðvitað að þingræði er ekki einhlítt. Það verður að búa þannig að því að það fái notið sín og sýnilega er mesta hætta þingræðis fólgin í offjölgun stjórnmálaflokka. En kosningafyrirkomulagið og kjördæmaskipunin ræður kannske mestu um þá þróun mála.

Þessu næst vildi ég aðeins víkja nokkrum orðum að strjálbýli og þéttbýli, sem mikið hefur verið rætt um, og vægi atkvæða, hvað væri sanngjarnt, hvað væri réttlátt í þeim efnum. Lýðræðisstjórnarfar er náttúrlega fólgið í því að meiri hl., samkv. þeim reglum sem settar hafa verið, ráði stjórn þjóðarinnar. En spurningin er náttúrlega: Hvernig eiga þessar reglur að vera þannig að best fari? Kosningarréttur verður að vera eins jafn og hagur þjóðarinnar og staðhættir allir leyfa. Ég álít sanngjarnt og nauðsynlegt, eins og málum er háttað hér á Íslandi, að strjálbýlið hafi hlutfallslega fleiri fulltrúa en þéttbýlið, og eðlilegt, eins og komið er málum, að vægi atkvæða verði næst því sem var fyrst eftir að núverandi kjördæmaskipun var komið á árið 1959. Auðvitað er ekki afgerandi í þessu efni hvar bilið eigi að vera þarna á milli, en ég álít að þegar á heildina er lítið sé eðlilegt að þarna sé munur á vægi atkvæða og kem ég nánar að því hér á eftir.

Þegar menn ræða um kosningafyrirkomulagið og kjötdæmaskipunina eina sér, einangrað, er léttur leikur að sýna fram á að jafn kosningarréttur sé sjálfsagður, það séu mannréttindi. En að ræða um þetta eitt og sér er annað en ef þessi mál eru rædd í tengslum við stjórnarskrána að öðru leyti og í tengslum við þau stjórnskipulegu réttindi sem mönnum eru fengin í stjórnarskránni, því þá kann að koma annað á daginn. Það er ljóst að öll þjóðmálastarfsemi er miklu erfiðari í strjálbýli en í þéttbýli. Vegna samgangna er þá erfiðara fyrir menn að beita samtökum en er í þéttbýli. Vegalengdir og torfærur eru miklar og valda þar miklu um. Allt félagslegt samstarf er þyngra í vöfum og erfiðara. Það er óhægara að stilla saman kröftum á sviði þjóðmálanna í strjálbýlinu en í þéttbýlinu þegar af þessum ástæðum.

Það er talið sjálfsagt mál og ég tel það, að stjórnarskráin ákveði eins og verið hefur að Alþingi, ríkisstjórn og forseti hafi aðsetur í einu kjördæmi, Reykjavíkurkjördæmi. En þetta eru býsna mikilvæg réttindi, sem fengin eru í hendur einu kjördæmi í stjórnarskránni, þegar betur er að gáð. Þessi mikilvægu réttindi hafa verið fengin Reykjavíkurkjördæmi eða Stór-Reykjavíkursvæðinu í stjórnarskránni. Af þessu leiðir m.a. að staðsetning mjög mikillar opinberrar sýslu í víðtækri merkingu og opinberra stofnana er í höfuðstaðnum. Þessi mikilvægu réttindi hafa aðrir landsmenn ekki, það er staðreynd. Hér er um að ræða að mínu mati gífurlega þýðingarmikil stjórnskipuleg réttindi til handa einu kjördæmi og nágrenni og kemur þar margt til, ef þetta er greinilega skoðað í samhengi við önnur mál. Það má leiða rök að því hvað þetta eru mikil réttindi og hvað þetta hefur fært þeim sem búa í nágrenni við alla þá opinberu sýslu, allar þær opinberu stofnanir og öll þau umsvif sem það opinbera hefur í einu kjördæmi. Það er alveg sama hvar gripið er niður í þessum efnum. Vitanlega hefur þetta haft áhrif á vöxt og viðgang höfuðborgarinnar í gegnum tíðina. Það er eiginlega sama hvar niður er gripið, hvort það er á sviði heilbrigðismála, menntamála, hvort um er að ræða atvinnumöguleika o.s.frv.

Ég gæti nú byrjað við fæðinguna. Menn fara hér á fæðingardeild Landspítalans og þar fæðast flestir hér um slóðir. Síðan kemur menntakerfið. Hér geta menn gengið inn í bestu stofnanir af því tagi alveg upp úr og í öllum greinum. Þetta er á vegum ríkisins mjög mikið. Menn eiga aðgang að þessu hér, sem er miklu erfiðara fyrir þá sem annars staðar eiga heima og þeim mun erfiðara sem þeir eiga heima lengra í burtu frá Reykjavík. Og það eru náttúrlega engin smávegis réttindi sem þessu fylgja ef grannt er skoðað. Síðan koma möguleikar til atvinnu eða atvinnutækifæri, eins og menn kalla það nú orðið. Atvinnutækifæri hér í Reykjavík og grenndinni, þegar af þeirri ástæðu að ríkisvaldið er hér og hefur hér gífurleg umsvíf, eru gífurlega mikil. Fyrir þá sem eru hér fæddir og eiga hér heima eru þetta stórkostleg réttindi umfram hina sem eru fæddir og uppaldir langt í burtu. Þetta þarf auðvitað ekki að skýra fyrir mönnum. Þetta er svo sjálfsagt og auðskilið mál. Að ég tali ekki um ýmsar aðrar stofnanir, eins og bankakerfi ríkisins o.s.frv., sem hér eru staðsettar.

Auðvitað sér hver einasti sanngjarn maður að hér er ólíku saman að jafna og það er staðreynd, að ef þetta mál er skoðað í heild sinni, ekki aðeins tekið út úr kosningaskipanin, kosningafyrirkomulagið og kjördæmaskipunin, er hér um að ræða stjórnskipuleg réttindi manna sem þarf að skoða í einni heild. Þess vegna er eðlilegra að meðferð þessa máls sé með þeim hætti að stjórnarskráin í heild sé tekin til endurskoðunar og meðferðar á Alþingi, en ekki aðeins einn þáttur hennar, sem snertir eina tiltekna tegund réttinda, sem veitt eru í stjórnarskránni til handa landsmönnum.

Það má benda á að fjölmargar þjóðir haga málum þannig að vægi atkvæða er í nokkru hlutfalli við fjarlægð kjördæma frá höfuðborgunum. Við þurfum ekki annað en líta t.d. til Noregs. Þar er aðalreglan sú, að eftir því sem kjördæmi er lengra í burtu frá Osló er vægi atkv. meira. Það er aðalreglan. Auðvitað er vandasamt að kveða á um hvaða hlutfall eigi hér að gilda. Það er auðvitað mjög vandasamt og sjálfsagt á færi fárra. En það er staðreynd að í Noregi hafa menn reynt að jafna þennan mun með þessum hætti.

Það mætti nefna mörg fleiri dæmi í þessu sambandi, það mætti nefna t.d. Bandaríkin Norður-Ameríku. Mér hefur oft verið hugsað til þess hvernig hefði farið fyrir Bandaríkjunum ef þeir Thomas Jefferson, Washington og Benjamín Franklín hefðu setið við tölvu til þess að grundvalla Bandaríki Norður-Ameríku. Hvernig hefði farið fyrir Bandaríkjunum ef svo hefði verið gert? Þeir tóku þann kostinn að haga þessu á þá leið að hin gífurlega valdamikla öldungadeild Bandaríkjaþings er þannig skipuð að það eru tveir öldungadeildarþingmenn frá hverju ríki án tillits til þess hver fólksfjöldi er í ríkjunum. Þetta eru að vísu bandaríki, en það er ein þjóð sem þarna er um tefla og þeir töldu á þeim tíma nauðsynlegt að haga þessu svona til þess að halda þjóðin saman og til þess að stuðla að því að landið byggðist allt og þeim hefur tekist það, það mætti nefna mörg fleiri dæmi í þessum efnum, sem eru á þessa leiðina.

Reyndar hvarflar það ekki að mér og sjálfsagt engum að fara að breyta þeim ákvæðum stjórnarskrárinnar að Alþingi, ríkisstjórn, Hæstiréttur og forseti skuli eiga aðsetur í höfuðborginni, í Reykjavík. Það hvarflar áreiðanlega ekki að nokkrum manni. Það gefur auga leið. En það sem ég vildi undirstrika er þetta: að þessu fylgja réttindi sem stjórnarskráin veitir einu kjördæmi og nágrenni þess. Seltjarnarnesið, við skulum taka það með. (Gripið fram í: Mosfellssveitina.) Mosfellssveitina. (Gripið fram í: Hvers á Kópavogur að gjalda?) Ja, hann geldur einskis í þessum efnum. Ég sagði Stór-Reykjavíkursvæðið. Hann nýtur þess. (Gripið fram í: Hann þarf meira að segja að senda þm. sinn austur á land.) Já, hann gerir það. Seltjarnarnesið reynir nú stundum að hasla sér völl úti á landi þó að það hafi ekki tekist. Hér er því um að ræða réttindi sem stjórnarskráin veitir. En ég efast um að nokkur hv. þm. treysti sér til að mótmæla því í sjálfu sér. Sú aðferð sem hefur fram að þessu verið nýtt í þessum efnum er að jafna þessi met með nokkru meira vægi atkv. úti á landsbyggðinni en er hér í Reykjavík. Ég held að Reykvíkingar sem slíkir og þeir sem búa á Stór-Reykjavíkursvæðinu hafi í sjálfu sér ekki staðið fyrir þessari skipan mála, þó að það séu þeir sem hafa átt mestan þátt í því að koma þessari skipun á. Ég held að þeir hafi ekki staðið fyrir þessari skipun mála til þess að tryggja sér sérstaklega landsbyggðina. Ég held að þeir hafi staðið fyrir þessari skipun mála ekkert síður til þess að tryggja sjálfa sig. Þeir hafa talið, þegar á heildina er litið, að það væri skynsamlegt að haga málum á þá leið að landið byggðist sem mest, það væti langsamlega heppilegast fyrir framþróun og fyrir framvindu íslensks þjóðfélags þegar litið er til lengri tíma.

Íslendingar eru ákaflega fámenn þjóð, eins og við vitum vel, og þess vegna þýðingarmikið að leggja áherslu á að víðhalda byggð sem víðast á landinu og áreiðanlega þjóðarnauðsyn að búa þannig að landsbyggðinni að byggð haldist sem víðast um landið þar sem á annað borð er talið æskilegt að stuðla að byggð, byggðaþróun. Eins og ég sagði áður er þetta engu síður nauðsynlegt og æskilegt fyrir þéttbýlið. Okkar helstu auðlindir, eins og fiskimiðin, eru þess eðlis að það verður auðvitað að tryggja byggð umhverfis landið til þess að það sé hægt að nýta þessar þýðingarmestu auðlindir okkar. Það veltur á miklu að svo sé. En það er ekkert sjálfsagt að byggð haldist í kringum landið. Ég held að atvinnulíf og mannlíf víða um landið hangi allt að því á bláþræði og það þurfi virkilega að gæta þess að þar verði ekki stór brestur á og menn gefist hreinlega upp þegar byggðin er orðin strjál. Þá er erfitt að halda uppi nútímaþjóðlífi eða mannlífi og menn flytja þá burtu, og ef verulegur viðbótarflótti frá landsbyggðinni til Reykjavíkur verður er stórhætta á ferðum að stórir flákar landsins leggist í auðn. Þetta þarf að hafa í huga þegar verið er að setja stjórnarskrá, þegar verið er að setja og ákveða kjördæmaskipan og kosningafyrirkomulag.

Ég hef rætt nokkuð almennt um þetta mál. Mér finnst ákaflega eðlilegt að þegar svona stórt og þýðingarmikið, ég vil segja örlagaríkt, mál er til meðferðar á sjálfu Alþingi sé það rætt í nokkrum tengslum við stjórnarskrána að öðru leyti og menn geri grein fyrir víðhorfum sínum.

Mér finnst ákaflega eðlilegt að menn einskorði ekki umr. aðeins við kjördæmaskipun og kosningafyrirkomulag, heldur ræði einnig aðra þætti stjórnskipunarinnar því hér er um að ræða breytingu á henni.

Eins og ég gat um í upphafi er hér um að ræða örfá atriði sem á að breyta í stjórnarskránni. Það er hins vegar gert ráð fyrir að frekari útfærsla á þessum breytingum eigi sér stað með almennum lögum. Það fylgja þessu frv. drög að frv. til l. um breytingar á kosningalögum til Alþingis. Ég skal ekki ræða þann þátt málsins nú. Það kemur til kasta nýs Alþingis. Ef þetta frv. verður samþykkt, sem ég efast ekki um að það verði, kemur til kasta nýs Alþingis, sem verður öðruvísi skipað en þetta, að fjalla um frekari útfærslu á þessari breytingu á stjórnarskránni, sem hér er lagt til að gerð verði. Ég skal ekkert um það segja hvað slíkt Alþingi gerir í þeim efnum. Það fer alveg eftir því hvernig það verður skipað. Um það veit nú enginn til fulls hvernig það verður skipað. Það verða auðvitað kosningar sem skera úr um hvernig Alþingi verður skipað að þeim loknum og kosningaúrslitin kunna að hafa einhver áhrif á hvernig þeim málum verður hagað. Menn geta ekki alveg horft fram hjá þjóðinni. Menn verða að gera sér grein fyrir því að einn mikilvægur þáttur í sambandi við breytingar á stjórnarskránni er að slík breyting er nú einu sinni lögð fyrir þjóðina og þjóðin kemur að þessu máli og meðferð þess. Ég er ekki í sjálfu sér að segja að ég álíti að það verði einhver stór breyting í þessum efnum. Hún gæti orðið. Það gæti orðið annað viðhorf þegar nýtt Alþingi kemur saman að loknum kosningum.

Varðandi þetta mál sérstaklega vildi ég segja það, að þó að ég sé óánægður með meðferð þess að ýmsu leyti og efni og telji að endanleg ákvörðun um kjördæmaskipan og kosningafyrirkomulag hljóti að bíða heildarendurskoðunar stjórnarskrárinnar geri ég mér fulla grein fyrir því að hér er um að ræða vissar sættir á milli stjórnmálaaflanna í landinu og þegar um slíkt er að ræða hljóta slíkar sættir að byggjast á málamiðlun. Menn láta af sínum kröfum, hver og einn aðili sem að þessu stendur. Ég álít að hér sé um að ræða sættir um sinn, sem eftir atvikum og öllum yfirlýsingum eru að mínu mati þolanlegar fyrir landsbyggðina miðað við hvað til stóð og miðað við yfirlýsingar ýmissa áhrifamikilla stjórnmálamanna um að ganga miklu lengra en hér er gert ráð fyrir.

Þingflokkur Framsfl. hefur ákveðið að ganga til þessa samstarfs eins og kunnugt er og ég mun því styðja málið. Það er samstaða um það, verulega víðtæk samstaða, innan þingsins eins og kunnugt er. Ég skal ekki um það spá hvort sú samstaða er eins víðtæk í þjóðfélaginu, hvort þessi samstaða innan þingsins er spegilmynd af því sem um er að ræða í þjóðfélaginu sjálfu. Ég skal ekkert um það segja. En það er óvenjulega mikil samstaða, mundi ég vilja segja, hér í þinginu. Ég álít að það séu, eins og margir hv. þm. í Nd. tóku fram, vissar sættir á ferðinni, sem kannske báðir aðilar eru út af fyrir sig, bæði landsbyggðin og þéttbýlið hér á Stór-Reykjavíkursvæðinu og hér í grenndinni, óánægðir með. Kannske báðir aðilar séu það. Það er kannske merki um að þessar sættir séu eftir atvíkum sæmilegar. Þess vegna mun ég fyrir mína parta styðja málið í þessari hv. þd. þó að ég hafi ýmsar aths. við það að gera, bæði meðferð málsins og einnig efni þess, og hefði kosið að það yrði unnið að þessu á allt annan veg. Ég gerði mér satt að segja vonir um að einhvern tíma, hvenær sem það nú verður, komi að því að stjórnarskráin í heild verði endurskoðuð. Þá kann að vera að það verði uppi nokkuð önnur viðhorf um framtíðarstjórnskipun landsins en eru við afgreiðslu þessa máls hér nú.

Að lokum vildi ég aðeins ræða í örfáum orðum um stöðuna eins og hún er nú. Það er auðvitað ljóst að ástand okkar efnahagsmála og atvinnumála er með þeim hætti að ekki þolir bið að tekið verði á þeim málum. Því miður hefur ekki tekist samstarf um viðnámsaðgerðir í þessum efnum, þannig að yfir hefur riðið holskefla verðbólgu, sem erfitt er að fást við, sem atvinnulífíð í landinu stynur undir og sem enginn vafi er á að stofnar atvinnuöryggi þjóðarinnar í verulega hættu, hafi ekki tekist samstarf um viðnámsaðgerðir. En þeim mun brýnna er að slíkt samstarf takist, hverjir sem það verða sem að því standa, sem allra fyrst. Þess vegna álít ég að það sé í raun og veru spurning, og það stór spurning, hvort þetta sé rétti tíminn til að fjölga þm. um þrjá og gera aðrar breytingar á kosningafyrirkomulaginu, sem fyrirhugaðar eru, í stað þess að snúa sér að því að leysa úr þeim mikla vanda sem atvinnulíf þjóðarinnar og efnahagslíf er í nú.

Þess vegna vildi ég segja að lokum að ég álít að það sé fullkomið ábyrgðarleysi að ákveða nú að það skuli verða tvennar kosningar á þessu ári. Hvað þýðir það, ef það verða tvennar kosningar á þessu ári? Það þýðir að sennilega verði kosið seinni partinn í apríl, eins og fyrirhugað er, þ.e. fyrri kosningarnar, þing verði svo kallað saman einhvern tíma í maí og síðari kosning verði þá sennilega einhvern tíma í júlí. Ég hef ekki trú á að það verði auðvelt verk að mynda ríkisstjórn að loknum fyrri kosningum, ríkisstjórn sem takist á við vanda efnahags- og atvinnumála. Ég hygg þvert á móti að það séu yfirgnæfandi líkur á að það verði engin slík ríkisstjórn mynduð fyrr en að loknum síðari kosningum. (StJ: Þá er um að gera að flýta þeim.) Jú, rétt er það, en það eru takmörk fyrir því hvað hægt er að flýta þeim mikið. Ég var að segja að ég hefði ekki trú á að mögulegt væri að flýta þeim meira en það að síðari kosningarnar færu fram í júlímánuði.

Eftir kosningar hefur nú tekið alllangan tíma að mynda ríkisstjórnir og ég hef nú ekki trú á því að það verði neitt sérstaklega auðvelt að mynda ríkisstjórn eftir kosningar í sumar. Það tók tvo mánuði að mynda ríkisstjórn 1974, það tók held ég tvo mánuði 1978 og ætli það hafi ekki tekið tvo mánuði 1979, mig minnir það, þannig að sennilegast er að það verði ekki komin á ríkisstjórn hér í landinu fyrr en seinni part sumars, í ágústmánuði kannske, og hún mundi þá fara að taka á málum eftir að hún er sest að völdum og sennilega mundi ekkert gerast í okkar efnahagsmálum, sem er afgerandi í atvinnumálum, fyrr en með haustinu. Ég held að það sé öllum ljóst að ástandið er þannig að það þolir ekkí þá bíð. (Gripið fram í: Þá er að drífa í að mynda þessa ríkisstjórn.)

Nú bið ég hv. þm. að lofa mér að ljúka máli mínu. Ég er að gera grein fyrir því hvernig mér sýnist líklegt að mál þróist ef mál ganga fram með þessum hætti og ég er að vara við því að slík stefna verði mörkuð. Það er auðvitað hugsanlegt að eftir fyrri kosningar verði mynduð ríkisstjórn sem tekur á málum. Ég hef ekki mikla trú á því, ef á að dæma af reynslunni, að það verði annað en hrein vettlingatök fyrir kosningar, þannig að það verði ekki farið að taka á málum af þeirri festu sem nauðsyn ber til fyrr en með haustinu. Þess vegna held ég að það eigi ekki á þessu stigi málsins að slá neinu föstu um hvenær kosið verður í annað sinn. Ég álít að þannig sé háttað málum og það sé það alvarlegt ástand í okkar efnahags- og atvinnumálum að það væri óráð að ákveða það nú.