09.11.1982
Sameinað þing: 14. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 478 í B-deild Alþingistíðinda. (269)

267. mál, bann við því að bændum sé greitt fullt verð fyrir afurðir

Eyjólfur Konráð Jónsson:

Herra forseti. Það var árið 1930 að sett voru lög nr. 22 um bann við greiðslu verkkaups með innskrift í verslanir. Núna, rúmri hálfri öld síðar, búa bændur enn við þetta kerfi. Lögin taka einungis til sjómanna og verkamanna. Það er bannað að greiða verkkaup með þeim hætti að menn verði að taka út vörur. Íslensk bændastétt býr að miklu leyti við þetta og hv. alþm. mættu gjarnan kynna sér hvernig þetta er framkvæmt viða úti um land og hvaða kjör t.d. fátækir bændur verða við að búa fyrir það að fá ekki einseyring í peningum, heldur þurfa að knékrjúpa til að fá úttekt. það er svona enn hvað bændastéttina varðar víða og tími til kominn að Alþingi uppræti þetta kerfi — hefur raunar ekki staðið upp á Alþingi, heldur framkvæmdavaldið, því að till. í þessa áttina var hér samþykkt fyrir einum fjórum árum, eins og betur verður rætt n.k. fimmtudag.

En ég kem hér í pontuna aftur sérstaklega til að leita skýringa hæstv. ráðh. á því, hvað hann eigi við þegar hann segir að það komi ekki fullt meðalverð yfir árið út ef bændur fá grundvallarverð borgað að hausti. Ég skil ekki annað en að það hljóti að vera hagstæðara, a.m.k. í 70% eða 100% verðbólgu, að fá sína beinhörðu peninga strax að hausti heldur en biða eftir einhverju meðalverði, þar sem búið er að reikna inn vexti, geymslukostnað og annað slíkt, einhvern tíma seinna á árinu. Ég held að þetta hljóti að vera byggt á einhverjum misskilningi. Það getur ekki verið annað en það sé hagstæðara fyrir eigendur vörunnar að fá hana borgaða strax þegar þeir afhenda hana. Það er alveg útilokað að hitt kerfið geti verið hagstæðara og það vita bændur auðvitað manna best. Svo eru reiknaðir upp kannske 50 eða 60% vextir á skuldir bændanna vegna þess að það er ekki búið að færa inn á reikningana þeirra vöruna sem búið er að taka við af þessum fyrirtækjum.

Það er auðvitað alveg brýn nauðsyn að skilja að afurðasölufyrirtækin og verslunarfélögin. Því held ég að bændur séu að gera sér grein fyrir núna allir, — nánast allir séu að gera sér grein fyrir því. Það verður áreiðanlega haldið áfram að vinna að þessum málum. Og þessi kenning um að bændur eigi sjálfir þessi félög. Það eru um 40 þús. manns í samvinnufélögum. Bændur eru þó ekki nema 5 þús. eða eitthvað slíkt. Auðvitað eiga bændur ekki þessi félög frekar en neytendurnir. Þau eiga auðvitað að vera sjálfstæð afurðasölufélög, sem bændur sjálfir eiga í hlutafélagsformi eða samvinnufélagsformi, eins og t.d. á Vestfjörðunum og í Skagafirði, og þá fá bændur sitt rétta verð.