09.11.1982
Sameinað þing: 14. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 479 í B-deild Alþingistíðinda. (270)

267. mál, bann við því að bændum sé greitt fullt verð fyrir afurðir

Landbrh. (Pálmi Jónsson):

Herra forseti. Aðeins til viðbótar um sláturkostnaðinn. Það er rétt að taka það fram, svo að það fari ekki milli mála, að þar er átt við slátur- og heildsölukostnað. Það er rétt, að farið hefur fram nokkur athugun á þessum málum. Sú athugun er ekki í gangi núna af minni hálfu, en hægt er að taka til athugunar að fara ofan í þessi mál fyrir t.d. næstu verðlagningu, sem er fyrir 15. sept. að ári.

Varðandi fsp. hv. 5. landsk. þm., þá held ég að ekki hafi verið mikið tilefni til hennar. Ég tók það fram, að það væri bændum hagstætt að fá sínar greiðslur sem fyrst og taldi að það væri einn mesti vandinn í þessum málum fyrir bændastéttina hvað fjármagnið, sem lagt er í rekstur landbúnaðarins, skilar sér seint. Ég sagði að staðgreiðsluverð mundi þá verða lægra en meðalverð og það segir sig sjálft vegna þess að verðhækkanir verða á verðlagsárinu, en ég sagði ekkert um að það væri bændum óhagstæðara, heldur tók ég fram að það væri mest virði að fá peninga sem fyrst í vasann. (Gripið fram í: Alveg sammála.)

Að öðru leyti held ég að ekki sé ástæða til að lengja þetta í þessum tíma af minni hálfu, þó að fjölmörg atriði séu þess efnis að ræða mætti nánar.