09.03.1983
Efri deild: 64. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2787 í B-deild Alþingistíðinda. (2707)

198. mál, fjáröflun til vegagerðar

Frsm. meiri hl. (Guðmundur Bjarnason):

Herra forseti. Fjh.- og viðskn. Ed. hefur tekið til meðferðar frv. til l. um breyt. á lögum um fjáröflun til vegagerðar. Nefndin hefur fjallað um þetta mál að undanförnu á allmörgum fundum og klofnaði í afstöðu sinni til málsins. Leggur meiri hl. n. til að frv. verði samþykkt með breytingum sem fram koma á þskj. 544 og ég mun nú gera grein fyrir.

Í grg. með frv. þessu kemur fram að það veggjald, sem hér er lagt til að tekið verði upp og fari eftir þyngd bifreiða, er að nokkru leyti byggt á tillögum starfshóps sem fjallaði um fjáröflun til vegaframkvæmda og lagði til í sínu áliti að innflutningsgjald af bifreiðum yrði lækkað, en þess í stað tekið upp það gjald sem hér er um rætt.

Í umfjöllun n. komu fram aths. frá ýmsum aðilum m.a. frá Samtökum atvinnubifreiðastjóra, sem gerðu grein fyrir því að það innflutningsgjald sem lækkað var á bifreiðum samkv. till. fjmrh. á s.l. ári hafi ekki náð til þyngri bifreiða og þess vegna hafi þau einskis notið í því. Það gjald, sem hér er lagt til að sé á lagt, sé því algerlega viðbótargjald á slíkar bifreiðar eða slíkan atvinnurekstur. Nefndin tók að nokkru tillit til þeirra sjónarmiða, sem þarna komu fram, og leggur í brtt. sínum til að gjaldið verði lækkað á þessum þyngri bifreiðum á þann hátt að tekinn sé upp nokkurs konar stigi á gjaldið, það fari lækkandi eftir því sem eigin þyngd hverrar bifreiðar er meiri eða eftir því sem hver bifreið er þyngri.

Það kom einnig fram í grg. með þessu frv. að fellt skyldi niður svokallað gúmmígjald. Gúmmígjald er mjög lág upphæð og þess vegna hefur það lítil áhrif á rekstur þessara bifreiða. Því varð það einnig að samkomulagi hjá meiri hl. n. að taka nokkurt tillit til þess og er hér einnig lagt til að tollur af hjólbörðum fyrir vörubifreiðar og langferðabifreiðar sé lækkaður um helming. Þessar breytingar hafa haft þau áhrif á upphæð gjaldsins, sem áætlað var í frv. að mundi nema eins og frv. var lagt fram samtals um það bil 123–125 millj., að gjald þetta lækkar í um það bil 109 millj. Það kemur einkum fram á þyngri bifreiðunum, þannig að gert var ráð fyrir að fólksbifreiðar og minni bílar allt að tveggja tonna eigin þyngd mundu greiða sem næmi 90 millj. af þessu gjaldi. Það er svipuð upphæð ennþá. Af bílum af millistærð, sem eru að eigin þyngd 2–5 tonn, ættu að innheimtast um það bil 6 millj. kr. samkv. upphaflegri till., en eftir þessar breytingar, sem við leggjum til, mundi það nema um 4.5 millj. Af stærstu bílunum, sem eru 5 tonn að eigin þyngd og þyngri, ætti gjald þetta samkv. upphaflegu till. að nema um 27 millj. kr., en samkv. brtt. okkar hefur það lækkað verulega eða niður í 14–15 millj.

Þá er gert ráð fyrir að sú tollalækkun á hjólbörðum sem er hér lögð til muni nema um það bil 7 millj. kr. í tekjutapi hjá ríkissjóði, sem kæmi þá fram sem lækkun reksturskostnaðar hjá þessum aðilum. Þá er það um það bil 7 millj. kr. sem þetta mundi þýða í nýjum álögum á stærri bifreiðar í staðinn fyrir 27 millj. í frv. eins og það er í upphafi. Teljum við að þarna hafi verið komið verulega til móts við þessa aðila þannig að þeirra útgjaldaliðir, sem samkv. upphaflegu frv. hefðu átt að vera 27 millj., eru nú aðeins 7 millj. eða um það bil 20 millj. kr. lægri.

Það er rétt að vekja sérstaka athygli á því, að gjald þetta er árgjald. Það hefur komið fram í umr. í n. að menn hafa ekki áttað sig nægjanlega á því að gjald þetta er árgjald, en greiðist í hlutfalli við það tímabil sem viðkomandi bifreið er á skrá og er það sama meðhöndlun og á tryggingariðgjöldum bifreiða. Ef bifreið er ekki á skrá nema hálft ár er því aðeins greiddur helmingur af þessu eða hálft gjald fyrir þá bifreið, þannig að gjaldið fer eftir því hversu bifreiðin er lengi á skrá á hverju ári og greiðist í hlutfalli við það.

Ef ég fer þá aðeins í gegnum brtt. nánar, þá eru þær á þskj. 544 og er 1. brtt. sem meiri hl. n. gerir um breyt. á 1. gr. frv. Þar segir:

„1. mgr. 2. gr. laganna orðist svo:

Af öllum bifreiðum og bifhjólum skal frá og með árinu 1983 greiða árgjald, veggjald, sem skal renna óskipt til vegagerðar. Skal gjaldið nema kr. 1.00 af hverju kg eigin þyngdar bifreiðar upp að 2000 kg, kr. 0.70 fyrir hvert kg frá 2001 kg til og með 5000 kg eigin þyngdar hverrar bifreiðar og kr. 0.50 fyrir hvert kg þar umfram. Þó skal hámark veggjalds vera 7600 kr. fyrir hverja bifreið.“

Svo hljóðar þessi 1. brtt. okkar. Það má geta þess, að þetta þýðir fyrir einstakar bifreiðar að t.d. 10 tonna bifreið greiðir samkv. þessari till. 6600 kr. í veggjald á ári í staðinn fyrir 10 þús. kr., eins og hún hefði gert eins og frv. gerir ráð fyrir upphaflega, og 7600 kr. hámarksgjaldið samsvarar því að vera gjald af bifreið sem er 12 tonn að þyngd. Yrði þar sett þak á þannig að það er ekki greitt hærra gjald af þyngri bifreiðum en 7600 kr. og miðast það þá við 12 tonna markið.

2. brtt, okkar er við 5. gr. frv., á þann veg að 5. gr. frv. verði 6. gr., en við bætist ný grein er verði 5. gr. og orðist svo:

„Tollur á vörum í tollskrárnúmeri 40.11.20 í 1. gr. laga nr. 120 31. des. 1976, um tollskrá o. fl., lækki úr 40% í 20%.“

Hér er sem sagt gert ráð fyrir að tollur af þeim vörum, sem eru í tollskrárnúmeri nr. 40.11.20 og eru stórir hjólbarðar fyrir vörubifreiðar og langferðabifreiðar, lækki úr 40% í 20% eða um helming. Þetta, eins og ég gerði grein fyrir áðan, er álitið að muni þýða lækkun tekna ríkissjóðs um um það bil 7 millj. kr., því að auk þess sem tollar lækka lækka auðvitað vörugjaldið og söluskatturinn í hlutfalli.

3. brtt. er við heiti frv. Þar sem hér er lagt til að inn í þetta frv. verði tekin viðbótargrein um breyting á tollskrá leggjum við til að heiti frv. verði breytt og það verði svohljóðandi:

„Frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 79 6. sept. 1974, um fjáröflun til vegagerðar, sbr. lög nr. 7811977, um breyting á þeim lögum, og um breyting á lögum nr. 120 31. des. 1976, um tollskrá o.fl., með áorðnum breytingum.“

Herra forseti. Ég vonast til að ég hafi gert þannig grein fyrir þessum brtt. og málinu eins og það kemur frá meiri hl. fjh.- og viðskn. að það sé nokkuð ljóst mönnum hvað hér er um að ræða. Það kemur fram í nál. að við teljum að þessi lækkun á tollum á hjólbörðum sé aðeins áfangi í því að ganga lengra í þá átt að lækka tolla af hjólbörðum almennt. Er það í samræmi við þál. sem samþykkt var hér í Sþ. í gær og fjallar einmitt um að Alþingi álykti að fela ríkisstj. að láta setja gæða- og öryggisreglur um innflutning og notkun hjólbarða með hliðsjón af því sem tíðkast í grannlöndum okkar og kanna jafnframt hvort unnt sé að lækka verulega innflutningsgjöld af hjólbörðum. Hér er sem sagt stigið nokkurt skref í þá átt.

Meiri hl. n. leggur sem sagt til að frv. verði samþykkt með þeim breytingum sem fram koma á þskj. 544 og ég hef gert grein fyrir.