09.03.1983
Efri deild: 64. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2804 í B-deild Alþingistíðinda. (2716)

198. mál, fjáröflun til vegagerðar

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Þessar umr. gerast nokkuð langar og hafa verið nokkuð á dreif. Ég sakna þess eiginlega mest að hæstv. fjmrh. skyldi ekki heyra fyrri ræðu hv. 11. þm. Reykv. Það hefðu e.t.v. getað skapast skemmtilegar umr. upp úr því.

En það er sjálfsagt atveg rétt að þetta er ekki vinsæl skattheimta, eins og hv. síðasti ræðumaður komst að orði, frekar en önnur skattheimta. Ég geri ráð fyrir að það væri nokkuð sama hvaða leið hefði verið farin til að afla aukinna tekna nú til vegagerðar. Því hefði ekki verið tekið fagnandi af þeim sem eiga að borga. Það er nú yfirleitt venjan. Ég held að þær breytingar, sem hafa verið gerðar á þessu frv., séu til bóta. Ég styð það með þeim breytingum sem á því hafa verið gerðar.

Það er oft sagt um stjórnarandstöðuna hér að hún leggist gegn öllu sem ríkisstj. hverju sinni geri og greiði atkv. gegn því af prinsipástæðum. En það gildir ekki í þessu tilviki, vegna þess að hér hefur stjórnarandstaðan, hluti hennar, hinn ábyrgi hluti stjórnarandstöðunnar, komið til móts við ríkisstj. og stutt hana í þessu máli. Við teljum að hér sé um brýnt mál að ræða og ekki verjanlegt að standa annars vegar að langtímaáætlun um vegagerð, þar sem ríkir samkomulag og þar sem allir flokkar hafa unnið saman, en neita síðan að standa að tekjuöflun til málsins. slíkur málflutningur og slík afstaða borgar sig áreiðanlega hvorki til skemmri né lengri tíma litið.

Tilefni þess að ég kvaddi mér hljóðs núna var þó kannske fyrst og fremst að fagna þeirri yfirlýsingu, sem kom hér fram í ræðu hæstv. fjmrh., og þeirri staðreynd að nú á að lækka toll á hjólbörðum, að vísu ekki öllum hjólbörðum, en einhvers staðar verður að byrja. Eins og hæstv. fjmrh. lýsti hér yfir er verið að stíga fyrsta skrefið til almennrar lækkunar aðflutningsgjalda á hjólbörðum. Ég held að það hafi verið á árinu 1979 sem ég impraði á því oftar en einu sinni í fjvn. hvort ekki væri unnt að fella niður þetta svokallaða gúmmígjald, sem að vísu var orðið ákaflega lágt og fellur niður núna þegar þetta frv. verður að lögum, en sú hugmynd fékk ekki hljómgrunn. En það er hins vegar rík ástæða til að fagna því að sá skilningur er uppi meðal þeirra, sem hér ráða, að hjólbarðar séu svo mikilvæg öryggistæki að ekki sé réttlætanlegt með neinum hætti að tolla þá jafnhátt og gert hefur verið að undanförnu.

Ég kemst ekki hjá því að minnast á það aðeins í leiðinni, að í gær var samþykkt hér þáltill., sem ég hef flutt ásamt fleiri þm. Alþfl., um að settar verði gæðareglur og gæðakröfur um hjólbarða sem fluttir eru inn til landsins. Í þeirri till. er jafnframt hvatt til þess að leitað verði leiða til að lækka aðflutningsgjöld af hjólbörðum. Þessi till. var samþ. í Sþ. í gær og það er vissulega ánægjulegt að efni hennar skuli að hluta til þegar vera að komast til framkvæmda. Ég fagna því og ég vona eindregið að unnt verði að stíga fleiri skref og stærri í þessu efni þannig að veruleg tollalækkun geti náð til hjólbarða á almennum fólksbifreiðum, þeim bifreiðum sem mest er af í notkun hér, og það verði miklu fyrr en seinna.