09.03.1983
Neðri deild: 57. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2808 í B-deild Alþingistíðinda. (2726)

30. mál, heilbrigðisþjónusta

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ég byrja á að þakka hv. heilbr.- og trn. fyrir afgreiðslu hennar á þessu máli. Það hefur nú verið til meðferðar í Alþingi og flokkunum mjög lengi. Það var samstarfsnefnd með einum þm. úr hverjum flokki sem gekk frá þessu frv. á sínum tíma. Eins og hv. 5. þm. Reykn. gat um hér í dag er hér um að ræða mál sem er þannig til orðið.

Ég kvaddi mér hljóðs út af tveimur greinum frv. Það eru aðallega 2. gr. og 8. gr.

Varðandi 2. gr. frv. vil ég taka fram eftirfarandi: Samkv. 3. gr. gildandi laga um heilbrigðisþjónustu er landlækni skylt að sinna kvörtunum og kærum er varða samskipti almennings og heilbrigðisþjónustunnar. Ég tel að það sé í raun og veru ekki verið að breyta meðferð mála með þeirri till. sem hér liggur fyrir, þannig að þessari skyldu sé létt af landlækni, heldur að eingöngu sé verið að kveða á um umfjöllun slíkra kærumála á breiðari grundvelli og þá einnig á vegum aðila sem ekki eru starfandi á vegum heilbrigðisþjónustunnar. Þannig yrði óþarfi að vísa öllum kvörtunum, einnig hinum smæstu, til nefndarinnar. Tækist landlækni einum að leysa mál yrði e.t.v. óþarfi að vísa því til nefndarinnar, en þó fer hér alltaf eftir mati viðkomandi aðila, sem telur sig þurfa að bera fram kvörtun vegna heilbrigðisþjónustunnar. Í hvaða tilvikum mál kæmi til nefndarinnar færi vitanlega eftir mati hverju sinni og vilja þess sem tekur málið upp. Ég lít svo á að hér sé um að ræða sérstaka kæruleið, sem er sett fram neytandanum til hagsbóta, en ekki til þess að flækja málin, t.d. þannig að skilyrðislaust þurfi að vísa hinum smæstu málum til nefndarinnar.

Í öðru lagi, herra forseti, vil ég taka fram vegna 8. gr. tölul. 17.4., sem hv. 3. þm. Reykn. gerði að umtalsefni: Greinin er nú orðuð þannig:

„Heimilt er að greiða sjúkraliða laun úr ríkissjóði gegni hann störfum á heilsugæslustöð þar sem hjúkrunarfræðingur eða ljósmóðir fæst ekki til starfa.“

Hér er í fyrsta lagi ekki verið að segja að sjúkraliði gegni störfum hjúkrunarfræðings eða ljósmóður, heldur að heimilt verði, þar sem ekki er hjúkrunarfræðingur né ljósmóðir, að greiða sjúkraliðanum laun beint úr ríkissjóði. Hér er um að ræða mál sem oft hefur verið rætt á undanförnum árum og forráðamenn Hjúkrunarfélags Íslands hafa rætt við mig. Ég hef skýrt þeim frá því að hér sé um að ræða hrein undantekningartilvik, bráðabirgðaráðningu eða tímabundna ráðningu. Tímabundin ráðning gæti verið með þeim hætti að viðkomandi sjúkraliði væri ráðinn til starfsins, segjum í eitt ár eða svo, og þá væri gengið út frá því að auglýst yrði eftir hjúkrunarfræðingi eða ljósmóður til að gegna starfinu. Við höfum reynslu af þessu frá liðnum árum. Sérstaklega er þar um að ræða annars vegar Ólafsfjörð og hins vegar Suðureyri í Súgandafirði. Þar fengust ekki hjúkrunarfræðingar til starfa þrátt fyrir ítrekaðar auglýsingar og verulegar tilraunir og eftirgangsmuni rn. við að fá þetta fólk til verka. Það tókst ekki og þess vegna var ákveðið að ráða þarna sjúkraliða þannig að ákveðin þjónusta væri til staðar á þessum stöðum.

Vegna þess hvernig lögin um heilbrigðisþjónustu eru orðuð var hins vegar ekki heimilt að greiða sjúkraliðunum laun beint úr ríkissjóði. Þess vegna voru þessu fólki greidd laun, að mig minnir, úr læknishéraðasjóði, sem er að sjálfsögðu óeðlilegt fyrirkomulag. Hér er einungis verið að heimila að opna fyrir laun handa sjúkraliðum úr ríkissjóði í þessum undantekningartilvikum. Ég hef greint Hjúkrunarfélagi Íslands frá því að ég sé reiðubúinn að láta þennan skilning, sem ég hef hér greint frá, koma fram í bréfi til Hjúkrunarfélagsins, þannig að þar séu tekin af öll tvímæli.