09.11.1982
Sameinað þing: 15. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 481 í B-deild Alþingistíðinda. (273)

17. mál, verktakastarfsemi við Keflavíkurflugvöll

Flm. (Vilmundur Gylfason):

Herra forseti. Ég mæli fyrir till. til þál., sem er 17. mál á þessu 105. löggjafarþingi og fjallar um úttekt á verkrakastarfsemi við Keflavíkurflugvöll, eins og það er orðað í tillgr. Flm. auk mín eru hv. þm. Árni Gunnarsson, Magnús H. Magnússon, Sighvatur Björgvinsson, Jón Baldvin Hannibalsson, Jóhanna Sigurðardóttir og Karvel Pálmason.

Herra forseti. Tillgr. er svofelld:

„Alþingi ályktar að fela sérstakri rannsóknarnefnd, sem skipuð sé sjö mönnum og kosin af Alþingi, að láta fara fram ítarlega úttekt á fyrirtækinu Íslenskir aðalverktakar, enda hafi nefndin vald til þess að kalla þá fyrir sig sem hún telur eiga hluta að máli. Nefndin skal kanna viðskipti félagsins og dótturfyrirtækja þess frá upphafi, umfang viðskipta, verðákvarðanir, ágóða og skiptingu arðs. Þá skal nefndin kanna öll önnur viðskipti við varnarliðið.

Úttektin skal fara fram fyrir opnum tjöldum þannig að öllum almenningi gefist kostur á að fylgjast með þessari upplýsingaöflun.

Tilgangur úttektarinnar er að kanna hvort þessum viðskiptum verði komið haganlegar fyrir en nú er og hvort ágóða af þeim verði með öðrum hætti haganlegar og réttlátar skipt en nú er. Talsmaður nefndarinnar skal gefa Sþ. skýrslu að úttektinni lokinni.“

Í fyrsta lagi vil ég segja það um þetta mál að þó að það sé ekki nefnt í tillgr., þá er þessi till. flutt með hliðsjón af 39. gr. stjórnarskrárinnar sem kveður á um sérstakar rannsóknarnefndir og rannsóknarvald þeim til handa. Eins og hv. þm. vita hefur framkvæmd af þessu tagi, þ.e. með hliðsjón af 39. gr. stjórnarskrárinnar, verið æði þung í vöfum og það er aðeins örsjaldan sem til þessa hefur verið gripið. Ég nefndi okurnefndina hér rétt eftir stríð. Það hefur ævinlega farið svo, ég held að mér sé óhætt að fullyrða að ævinlega þegar fluttar hafa verið till. í þessa veru hafa aðilar, sem talið hafa sér skylt að rísa til varnar fyrirbærinu, — hvort sem um er að ræða okur, ferðamálastarfsemi eða verktakastarfsemi af því tagi sem hér er nefnd — talið að í tillgr. fælust aðdróttanir af einhverju tagi. Og til að fyrirbyggja misskilning áður en lengra er haldið, þá er ekki um slíkt að ræða hér. Mér finnst að það verði að verða ein af frumskyldum Alþingis að gera sér ljósa grein fyrir því, að úttekt eða eftirlit á einhverju, sama hvað það er, felur ekki í sér aðdróttanir um svik eða neitt slíkt.

Ég segi þetta vegna þess að ég hef lesið á gömlum bókum og nýjum um þetta hús hvernig umræður um efni af þessu tagi hafa áður þróast. Fyrir vikið hefur verið sest á mál af þessu tagi. Það gerðist t.d. árið 1978, þegar tillaga í þessa veru, ekki nákvæmlega eins, var hér flutt, að það varð nokkuð flokksleg skipting, þ.e. Sjálfstfl. og Framsfl. hér í þingsölum, sem þá höfðu nauman meiri hluta, greiddu atkv. á móti því að svona úttekt færi fram, en þm. Alþfl. og Alþb. greiddu atkv. með. Og þar með féll tillagan.

Nú vil ég taka það fram og vísa í frv. til laga til breytingar á þingskapalögum, sem liggur fyrir hv. Nd., að ég tel að eftirlitsstarf Alþingis eigi að vera ein af frumskyldum þess. Ég vek athygli á því að alls staðar í nærliggjandi löndum, hjá þjóðum sem við teljum okkur félagslega og menningarlega skyldar, hefur þróun í vaxandi mæli verið sú, að þar sem sérfræðivald hefur þróast í átt til framkvæmdavalds og er farið að skipta meira máli og vega þyngra en það kannske gerði áður hafa þjóðþingin tekið sér rannsóknar- og eftirlitsvald í staðinn. Með því held ég að grunvallarhugsunin um skiptingu valds sé hvað best tryggð.

Hjá okkur hefur þetta verið öðruvísi. Hér hefur þetta þróast til skelfilegrar áttar, nefnilega þeirrar að löggjafinn hefur sóst eftir því að vera þátttakandi í framkvæmdavaldi. Þar með er auðvitað loku fyrir það skotið að hann geti haft eftirlit með sjálfum sér. Ég nefni Kröflunefnd, ég nefni bankaráð, ég nefni útvarpsráð. Eiginlega er sama hvaða stofnun framkvæmdavaldsins við erum að tala um. Vandinn er sá, eins og menn sjá auðvitað, að í fyrsta lagi gengur þetta gegn þeirri hugsun að valdþættirnir þrír skuli vera óháðir hver öðrum. Í öðru lagi liggur í athugum uppi að það er ekki á mannlegum forsendum hægt að ætlast til þess að menn séu færir um að hafa eftirlit með sjálfum sér. Lífið gengur ekki þannig fyrir sig. Enda gerast slysin. Ég nefni Kröflu, ég nefni bankastarfsemina og þannig mætti raunar lengi telja.

Þessari almennu stefnu þurfum við að breyta. Mér finnst að það ætti ekki að vera ástæða til að hafa á móti hugmyndinni sjálfri eins og menn hafa oft og iðulega haft á undanförnum árum. Og umfram allt þarf að vara við því að líta á eftirlitsstarfsemi á vegum Alþingis sem dóm. Slíkur dómur gæti komið seinna eða gæti ekki komið seinna. En eftirlitsstarfið sjálft felur aldrei í sér dóm, heldur er til styrktar þeirri starfsemi sem hér á sér stað og þeirri starfsemi sem á að fara fram út um samfélagið allt. Þetta var um aðferðina til að gera úttekt á þessari starfsemi.

Ég vil líka taka það fram að eins og sagt er í grg. með þáltill., þá hygg ég að flm. eigi það sameiginlegt að vera stuðningsmenn styrks samstarfs lýðræðisþjóða. Og það er af þeirri ástæðu sem þeir eru eindregið þeirrar skoðunar að öll viðskipti umleikis þetta samstarf eigi að vera öllum ljós, að um þau ríki ekki hin minnsta tortryggni og að það sé samstarfi lýðræðisþjóða til góða.

Herra forseti. Á árinu 1977 bar Magnús heitinn Kjartansson, þáv. hv. alþm., fram til utanrrh. spurningar sem lúta að þessu máli. Þeim var að vísu vísað frá sem óþinglegum, en satt að segja sé ég ekki alveg — þó ég hafi rýnt í þennan pappír — séð ástæðurnar fyrir því. En til kynningar á málinu mætti lesa hér um hvað hann spurði. Þó að ég hafi verið ósammála honum um mörg lykilatriði utanríkisstefnunnar sjálfrar, þá er ég samt þeirrar skoðunar að þessar upplýsingar ættu að liggja á hreinu.

Hann spurði í fyrsta lagi: „Hverjir eru hluthafar í Sameinuðum verktökum hf. og hversu há er hlutafjáreign hvers hluthafa um sig? Hverjir eru í stjórn hlutafélagsins og hverjir eru starfsmenn þess? Hverjar voru tekjur stjórnarmanna og starfsmanna hvers um sig fyrir þessi störf?“ Og svo tiltekur hann ár.

Hann spurði í öðru lagi: „Hverjir eru hluthafar í Regin hf. og hversu há er hlutafjáreign hvers hluthafa um sig? Hverjir eru í stjórn hlutafélagsins og hverjir eru starfsmenn þess? Hverjar voru tekjur stjórnarmanna og starfsmanna hvers um sig fyrir þessi störf?“ Og svo tiltekur hann ár.

Hann spurði í þriðja lagi: „Hverjir eru í stjórn Íslenskra aðalverktaka sf. og hverjir eru starfsmenn fyrirtækisins? Hvaða reglur gilda um val í stjórn fyrirtækisins? Hverjar voru tekjur einstakra stjórnarmanna og yfirmanna árin 1975 og 1976? Eru fleiri aðilar að Íslenskum aðalverktökum en Sameinaðir verktakar hf., Reginn hf. og íslenska ríkið? Ef svo er, þá hverjir?“

Í fjórða lagi var spurt: „Hversu stórt er hús Íslenskra aðalverktaka á Ártúnshöfða og hvert er fasteignamat þess? Í hvaða tilgangi hefur þetta hús verið byggt?“ Þessi spurning sýnist mér standa fyrir sínu á árinu 1982 og vakna hjá þeim sem hafa ekið um Ártúnshöfðann. Ég vildi gjarnan fá svör við þessu líka.

Hann spurði í fimmta lagi: „Hverjir fara með hlut ríkisins í Íslenskum aðalverktökum sf.? Hverjar voru tekjur þeirra hvers um sig fyrir þessi störf á gefnum árum? Hverjar voru hluthafatekjur íslenska ríkisins á gefnum árum? Í hverju er hlutverk ríkisins fólgið?“

Hann spurði í sjötta lagi: „Eru Sameinaðir verktakar hf. og Reginn hf. lokuð hlutafélög? Ef svo er, hversu lengi hefur það ástand haldist og hvers vegna?“

Hann spurði í sjöunda lagi: „Hvaða hlutafélög og einstaklingar hafa gegnt störfum fyrir bandaríska herinn á gefnum árum? Hverjar hafa verið tekjur hvers aðila af þeim störfum? Hvernig er háttað vali þeirra einstaklinga og hlutafélaga sem fá að vinna verkefni í þágu bandaríska hersins?“

Hann spurði í áttunda lagi: „Hversu miklar tekjur hafði Olíufélagið hf. af viðskiptum sínum við bandaríska herinn á gefnum árum? Flutti bandaríski herinn inn olíuvörur á þessum árum og ef svo er, þá hvernig? Hvernig er háttað stjórn birgðastöðvarinnar í Hvalfirði?“

Í níunda lagi var spurt: „Hversu mikil voru verslunarviðskipti bandaríska hersins við íslenska aðila á gefnum árum? Hvaða íslenskir aðilar önnuðust þau viðskipti og hverjar voru tekjur þeirra hvers um sig þessi ár?“

Í tíunda lagi var spurt: „Hvernig er háttað starfsemi skrifstofu þeirrar sem Íslenskir aðalverktakar starfrækja í New York? Hverjir starfa á þeirri skrifstofu og hverjar voru tekjur þeirra hvers um s:g á gefnum árum að meðtöldum fríðindum? Hver hefur verið arður af skrifstofunni á gefnum árum og hvernig hefur honum verið ráðstafað?“

Í ellefta lagi var spurt: „Greiðir bandaríski herinn fyrir framkvæmdir, þjónustu og viðskipti í dollurum? Ef svo er, hvernig er háttað eftirliti með því að gjaldeyri sé skilað samkv. íslenskum lögum. en ekki stolið undan eins og áður hefur sannast fyrir dómstólum?“

Í tólfta lagi var spurt: „Hvaða Íslendingar önnuðust framkvæmdir, þjónustu og viðskipti við stöð bandaríska hersins í Hornafirði og hverjar voru tekjur þeirra hvers um sig á gefnum árum?“

Í þrettánda lagi var spurt: „Hvernig er háttað samningum íslenska ríkisins og bandaríska hersins um starfsemi lóranstöðvarinnar á Snæfellsnesi?"

Í fjórtánda lagi var spurt: „Hverjir eiga sæti í Sölunefnd varnarliðseigna og hverjir eru stjórnendur fyrirtækisins? Hvernig er viðskiptum fyrirtækisins háttað að því er varðar kaup og sölu á varningi? Hverjar voru tekjur stjórnenda fyrirtækisins á gefnum árum? Hvernig er háttað skilum fyrirtækisins á tekjum sínum?“

Þetta voru fjórtán fyrirspurnir, sem prentaðar voru á sérstöku þskj., er var 123. mál 99. löggjafarþingsins á árinu 1977.

Eins og sjá má á þessu er auðvitað feikilega margt við skulum ekki orða það öðruvísi — sem íslenskur almenningur veit ekki um þessi viðskipti. Hann veit ekki um eignaraðild, hann veit ekki nákvæmlega hvað Reginn hf. er, hann veit ekki hvernig slær saman olíuviðskiptum annars vegar og almennum viðskiptum hins vegar. Hann veit um eitthvað óljóst í gamla daga, sem hét „olíumál“, en ekki meira. Menn vita ekki hverjir hafa tekjur af þessu og hvernig. Menn vita ekki hvort þessum verkefnum er ráðstafað eftir almennum leikreglum — þá á ég við með opnum útboðum — eða hvort þessu er útdeilt eftir einhverjum öðrum leiðum. Mér hafa sagt menn á þessu svæði að það sé mjög skringilegt hvernig þetta fer fram.

Kannske er óskynsamlegt á þessu stigi málsins að spyrja miklu fleiri spurninga, þó svo að það væri eðlilegt, vegna þess að það er vitaskuld verkefni nefndarinnar sem lagt er til að skipuð verði. Og segja má að það væri óklókt að spyrja öllu meira, þegar af þeirri ástæðu að það gæti spillt fyrir málinu, eins og sagt er. Hins verð ég þó að geta að menn hafa spurt: Gilda aðrar leikreglur um þetta fyrirtæki t.d. að því er varðar tollafríðindi á vinnuvélum og annað slíkt? Hefur það betri möguleika til að verða sér úti um ágóða, sem atvinnufyrirtæki eru nú stundum að reyna, heldur en önnur fyrirtæki? Og getur síðan verið að sá ágóði sé notaður til þess að byggja t.d. stórhýsið uppi á Ártúnshöfða, sem níu af hverjum tíu Reykvíkingum hafa keyrt fram hjá og spurt sjálfa sig með hvaða hætti risið hafi. Vitaskuld er svo margt í kringum þessi viðskipti þess eðlis að það hlýtur að vera bæði réttur samfélagsins og skylda stjórnandans að ekki hvíli leynd yfir.

Ég sagði hér áðan og það er skýrt tekið fram í grg. að við sem þetta mál flytjum erum stuðningsmenn samstarfs lýðræðisþjóða. En við viljum líka leggja þær skyldur á þetta samstarf að það veki ekki réttmæta tortryggni annarra. Og það er trúa mín- og raunar vissa að ef viðskipti af þessu tagi gefa tilefni til tortryggni, að ekki sé meira sagt, þá sé slíku samstarfi í hættu stefnt.

Við vitum að umræður um þetta fyrirtæki hafa verið miklar í ár og áratugi, og ævinlega blandnar tortryggni af þeirri ástæðu einni að menn hafa haft á tilfinningunni að ekki giltu almenn viðskiptalögmál. Við vitum líka að þessar umræður hafa á undanförnum árum mjög blandast almennum umræðum um utanríkismál. Ég er sannfærður um réttmæti þess að svona nefnd sé skipuð. Ég er sannfærður um að það gerir samfélaginu öllu gagn. Þess vegna mælist ég til þess að menn sameinist um það þjóðþrifaverk að skipa slíka nefnd og leggi til hliðar annan ágreining um hin almennu utanríkismál, þar sem auðvitað hver aðili fyrir sig stendur í sínum fulla rétti og á að halda fram sínum skoðunum.

Það segir hér í grg.: „Langvarandi einokun viðskipta býður ævinlega hættunni heim og vekur ávallt spurningar. Það er í þágu allra aðila að slíkum spurningum verði svarað. Á grundvelli slíkra upplýsinga er unnt að taka skynsamlegar og réttar ákvarðanir. Liggi litlar eða engar upplýsingar fyrir er slíkt auðvitað vart mögulegt og jafnvel ógerlegt.“ Þetta held ég að sé kjarni málsins hvaða skoðanir sem menn hafa á hinum almennu utanríkismálum. Mér finnst að þeim okkar sem styðja þessa samvinnu hafi verið ógreiði gerður með þessum skrýtnu viðskiptum. Ég endurtek: með þessum skrýtnu viðskiptum. Við viljum ekki standa að slíku. Við viljum ekki bera ábyrgð á slíku. Þess vegna, herra forseti, er þessi till. fram borin.