09.11.1982
Sameinað þing: 15. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 484 í B-deild Alþingistíðinda. (274)

17. mál, verktakastarfsemi við Keflavíkurflugvöll

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Þingmenn Alþb. eru fylgjandi því að gerð verði úttekt á verktakastarfsemi við Keflavíkurflugvöll. Við erum þess vegna fylgjandi meginatriðum þessarar till., en teljum hins vegar nauðsynlegt að hún verði gerð nokkru ítarlegri og víðtækari áður en Alþingi afgreiðir hana endanlega. Heiti till. er „Till. til þál. um úttekt á verktakastarfsemi við Keflavíkurflugvöll“, en í texta till. er eingöngu vikið að einu af þeim þremur fyrirtækjum sem stundað hafa verktakastarfsemi við Keflavíkurflugvöll.

Auðvitað er það rétt að Íslenskir aðalverktakar hafa verið langumsvifamestir í viðskiptum við herinn. En það er engu að síður staðreynd að tvö önnur fyrirtæki, Keflavíkurverktakar og Suðurnesjaverktakar, hafa átt þar ríkan hlut að og Keflavíkurverktakar vaxandi hlut á undanförnum árum. Ég held t.d. að það sé rétt að Keflavíkurverktakar annist nú algerlega framkvæmdir og viðhald á herstöðinni við Hornafjörð, bæði byggingar mannvirkja sem og viðhald þar, og á Keflavíkurflugvelli sjálfum annist Keflavíkurverktakar allt viðhald. Þess vegna undrar það mig nokkuð að flm. till. skuli eingöngu hafa tilgreint Íslenska aðalverktaka í till. sinni hér, þegar heiti till. tekur til verktakastarfseminnar allrar.

Það hefur að vísu verið sagt að forráðamenn Alþfl. hér fyrrum, þess flokks sem hv. 1. flm. stundum nefnir gamla Alþfl., hafi átt nokkurn hlut að því, þegar Alþfl. fór með utanríkismál, að þessi tvö önnur fyrirtæki, Keflavíkurverktakar og Suðurnesjaverktakar, komu inn í þessa verktakastarfsemi og í vaxandi mæli, vegna þess að hitt fyrirtækið, Íslenskir aðalverktakar, hafi venjulega gengið undir heitinu og verið í reynd eins konar bandalag Framsóknar- og Sjálfstæðisflokksins og nauðsynlegt hafi verið fyrir Alþfl., sérstaklega á áratugunum 1960–1970, að ná með einum eða öðrum hætti ítökum í þessari verktakastarfsemi. Ég býst nú ekki við að það hafi verið ætlun hv. 1. flm. till. að undanskilja þessi verktakafyrirtæki tvö sem stundum hafa verið kennd við Alþfl. í daglegu tali þar suður frá. Ég reikna frekar með að það séu pennaglöp en ekki ætlunarverk að hin fyrirtækin tvö séu þarna undanskilin. Við teljum hins vegar nauðsynlegt, þm. Alþb., að öll verktakafyrirtæki, ekki bara framsóknar- og íhaldsverktakafyrirtækin heldur líka krataverktakafyrirtækin, séu tekin með í þessa athugun. Þess vegna eigi texti till. að vera í samræmi við heiti hennar, þar sem kveðið er á um úttekt á verktakastarfsemi á Keflavíkurflugvelli.

Einnig held ég að það hljóti að vera misritun hjá flm. að nefna dótturfyrirtæki Íslenskra aðalverktaka í texta till. Þar er sjálfsagt átt við eignarfyrirtæki eða foreldrafyrirtæki, ef menn eiga að búa til það nýyrði til samsvörunar við dótturfyrirtæki, eða móðurfyrirtæki fyrirtækisins. Það er sá skilningur sem við höfum í þetta lagt. Mér er ekki sérstaklega kunnugt um dótturfyrirtæki Íslenskra aðalverktaka, en það má vera vanþekkingu minni að kenna og væri æskilegt að það væri upplýst hér hvaða fyrirtæki er þar átt við. Móðurfyrirtækin eru hins vegar þekkt og að þeim var vikið hér í ræðu hv. frsm.

Með breytingum, sem ég hef hér getið, erum við sammála því að Alþingi belti sér fyrir slíkri úttekt. Og við teljum reyndar koma til greina að það væri á fleiri sviðum. Ég flutti á sínum tíma till. um sérstaka athugun á rekstri Flugleiða og Eimskipafélagsins. Þá var þeirri till. mótmælt í þingsölum á þeim forsendum að þar væri ekkert sérstakt að athuga og engir erfiðleikar í rekstri sem þingið þyrfti að skipta sér af. En það kom á daginn nokkrum misserum síðar að annað þessara fyrirtækja þurfti að leita eftir stuðningi þingsins vegna mistaka í stjórnun, fjárfestingu og rekstrarstefnu. Við erum þess vegna sammála því að það geti verið nauðsynlegt og eðlilegt í alla staði að Alþingi afli sér upplýsinga og framkvæmi eftirlit með meiri háttar fyrirtækjum í landinu. Við teljum einnig að síðasta málsgr. till. þurfi að taka breytingum við afgreiðslu hennar. Okkur finnst þar einum of mikið gæta þegar hugsunar að markmið athugunarinnar eigi að vera hvort ekki sé hægt að græða meira á þessum viðskiptum, og græða einhvern veginn öðruvísi og að fleiri geti grætt en þeir sem hingað til hafa grætt á þessum viðskiptum. Mér er mjög til efs að það sé markmið hv. 1. flm. eða þeirra annarra sem að till. standa að útbreiða hernámsgróða út um allt þjóðfélagið eða setja fram stefnu sem stuðli að því að sem flestir verði háðir viðskiptum við herinn og að þeir telji að því fleiri heimili í landinu sem fái til sín tekjur af þjónustu við hið erlenda herlið, því betra. Orðalag till. lætur hins vegar í þetta skína og þess vegna finnst okkur nauðsynlegt að við meðferð till. hér í Alþingi verði orðalag síðustu málsgr. tekið til endurskoðunar. Með fyrirvara um slíkar breytingar erum við eindregið fylgjandi því að Alþingi taki að sérverkefni af þessu tagi. Og ég er sammála öllum þeim almennu sjónarmiðum um eftirlitsverkefni Alþingis sem hv. 1. flm. setti hér fram.

Að lokum vil ég setja fram þá ósk við hv. síðasta ræðumann að þegar hann vísar til Atlantshafsbandalagsins eða NATO þá geri hann okkur þann greiða að nefna það ekki samtök lýðræðisþjóða eða samstarf lýðræðisþjóða. Við vitum báðir að á okkar tímum eru þjóðir í Atlantshafsbandalaginu sem ekki eru lýðræðisþjóðir. Jafnaðarmenn sitja nú í fangelsum og bíða dauðarefsingar fyrir það eitt að vera jafnaðarmenn í aðildarríki NATO, Tyrklandi. Verkalýðsforustumenn sitja þar í fangelsum og bíða dauðadóms. Og allir helstu þingmenn og stjórnmálaleiðtogar landsins á undanförnum árum og áratugum hafa nú verið settir í tíu ára bann við þátttöku í stjórnmálastarfsemi. Innleidd hefur verið þar stjórnarskrá sem allir sannir lýðræðissinnar sjá í hendi sér að er skopstæling á lýðræði. Það er sérkennilegt að Morgunblaðið skuli í dag birta á forsíðu frétt um þessa atkvæðagreiðslu í þeim dúr að þarna hafi áunnist einhver sigur fyrir lýðræðið, þar sem öllum er ljóst að með þessari stjórnarskrá er verið að hefta lýðræðið í landinu a.m.k. í tíu ár með því að banna verkalýðsfélögum að starfa, banna stjórnmálaflokkum sem þar hafa starfað að starfa, banna jafnaðarmannaflokki Tyrklands að starfa, banna verkalýðsforingjum landsins að starfa. Það land er ekki lýðræðisland. (AG: Hvað, Pólland?) Tyrkland (AG: Tyrkland, fyrirgefðu.) sem hefur tekið upp að mörgu leyti sams konar aðferðir og beitt er í Póllandi, sem Alþingi hér hefur fordæmt, m.a. hv. þm. Albert Guðmundsson. En þegar átti að fordæma sams konar aðferðir í Tyrklandi var hv. þm. Albert Guðmundsson allt í einu hættur að hafa áhyggjur af lýðræðinu, hættur að hafa áhyggjur af fangelsun verkalýðsleiðtoganna, hættur að hafa áhyggjur af fangelsun jafnaðarmanna, hættur að hafa áhyggjur af fangelsun frjálslyndra afla, vegna þess að þá kom það allt í einu við NATO-hjartað í hv. þm. Albert Guðmundssyni. Lýðræðið náði ekki lengra en svo að þegar kom að meðlimaríki Nato var allt í lagi að loka augunum fyrir þeim fangelsunum og hindrunum sem þar ættu sér stað.

Þegar við hv. þm. Vilmundur Gylfason fluttum hér till. um Tyrkland þá voru hv. þm. Albert Guðmundsson og aðrir ekki tilbúnir að ljá henni lið. Og þegar ég reyndi í utanríkismálanefnd að fá sams konar ályktun um Tyrkland og gerð var gagnvart Póllandi þá neitaði hv. þm. Albert Guðmundsson að taka þátt í því.

Það er þess vegna alveg ljóst að hér ríkir tvískinnungur gagnvart lýðræði, gagnvart fangelsun verkalýðsleiðtoga, gagnvart fangelsun stjórnmálamanna, eftir því hvort í hlut á ríki utan NATO eða innan NATO. Ég veit að þessi tvískinnungur á ekki við hv. síðasta ræðumann. Þess vegna setti ég fram þá frómu ósk að þegar hann vísar hér í framtíðinni til þessa bandalags þá annaðhvort nefni hann það með nafni eða nefni það hernaðarbandalag, sem það er, en noti ekki heiti sem alls ekki á við, samtök lýðræðisríkja. Að hann geri það af virðingu við þá jafnaðarmenn sem eru í fangelsum og bíða dauðarefsingar í Tyrklandi, geri það af virðingu við þá jafnaðarmenn sem voru í fangelsum og biðu dauðarefsingar í NATO-ríkinu Grikklandi, geri það af virðingu við þá jafnaðarmenn sem biðu fangelsunar og dauðarefsingar í NATO-ríkinu Portúgal og geri það af virðingu við þá jafnaðarmenn sem á Spáni hafa gagnrýnt aðild þjóðar sinnar að NATO.