09.03.1983
Neðri deild: 57. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2824 í B-deild Alþingistíðinda. (2750)

216. mál, Landsvirkjun

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Ég ætla að leyfa mér að leggja hér fram brtt. við 13. gr. þessa frv. Brtt. er við 3. mgr. og er á þá leið að niður falli orðin „að dómi ráðherra“.

Í 13. gr. er gert ráð fyrir að ekki sé hægt að gera orkusölusamning til langs tíma við iðjuver, sem nota meira en 1000 millj. kwst. á ári, án þess að leyfi ráðh. þurfi. Hitt skilyrðið er það, að samningurinn megi ekki verða til að valda hærra raforkuverði til almenningsveitna en ella hefði orðið. Ég hygg, herra forseti að orðin „að dómi ráðherra“ séu einhver dýrustu orð í íslenskri lagasmíð.

Spurningin er hvort við eigum að eiga það undir dómgreind ráðh. hvort hann lætur gera samninga, sem kemur í ljós að valda mikilli hækkun á raforkuverði til almenningsveitna, eða hvort lögin skulu vera fortakslaus á þann veg að það sé óheimilt að gera slíkan samning. Að sjálfsögðu yrði það þá að vera dómstólaatriði, ef til kæmi að slíkur samningur yrði gerður, hvort stjórn Landsvirkjunar væri ábyrg fyrir samningnum eða hvort Landsvirkjun, þ.e. eigendurnir, yrðu að bera skaða af samningnum. Einnig hlyti að koma til greina hvort samningurinn sem slíkur væri þá ekki ógildur því að það hefði ekki verið heimilt að undirrita hann á sínum tíma.

Ég tel að sú reynsla sem við höfum fengið í þessari ríkisstj., þar sem raforkuverð frá Landsvirkjun hefur verið hækkað um 800%, hljóti að koma mönnum til að hugleiða hvort ekki sé eðlilegt að lög séu fortakslaus hvað þetta ákvæði áhrærir. Vildu menn kannske í framtíðinni, ef þannig stæði á að iðjuver í kjördæmi ráðh. væri hagstætt ef samið væri um mjög lágt raforkuverð, en yrði óhagstætt ef samið væri um eðlilegt raforkuverð, eiga það yfir höfði sér að ráðh., til að koma fyrirtækinu á laggirnar, skrifaði upp á raforkuverð sem væri fjarri öllum raunveruleika?

Ég tel að þetta ákvæði í lögum þurfi að vera fortakslaust. Ég tel mjög óeðlilegt að Landsvirkjun geti haft þann rétt, geri hún óhagstæðan samning, að hægt sé að velta raforkuverðinu yfir á almenning í þessu landi. Og við höfum reynsluna af því hvað það þýðir að hafa þessi orð inni: að dómi ráðherra. Spurningin er þessi: Vill Alþingi Íslendinga gera þessa grein fortakslausa? Vill hún hafa það alveg á hreinu að slíka samninga sé óheimilt að gera — samninga sem leiða til þess að raforkuverð hjá öllum almenningi á Íslandi hækkar? Ef Alþingi vill hafa þetta fortakslaust á að fella niður orðin: að dómi ráðherra. Vilji Alþingi geta velt slíkum hækkunum yfir á almenning þarf að hafa þetta inni. En það er líka rétt að það komi þá fram hverjir það eru sem vilja hafa leyfi til þess að hægt sé að velta yfir á almenning hækkunum sem stafa af samningum við stóriðju í landinu, herra forseti.