09.03.1983
Neðri deild: 57. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2826 í B-deild Alþingistíðinda. (2755)

216. mál, Landsvirkjun

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég gerði grein fyrir atkv. mínu um brtt. sem flutt var af virðulegum ritara þessarar hv. deildar og las þar upp úr nokkrum greinum, þar sem segir víða að nánari ákvæði skuli setja um hitt og þetta í reglugerð. Síðan kemur hér í 20. gr. svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Eignaraðilar undirbúi, í samráði við stjórn Landsvirkjunar, reglugerð fyrir fyrirtækið þar sem setja skal nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara. Reglugerðina setur ráðh. sá sem fer með orkumál.“

Sem sagt: Stjórn og eignaraðilar fyrirtækisins skulu gera þetta að þeim lögum sem endanlega skuli farið eftir. Ég tel það óeðlilegt.

Ég gerði hér þá aths. við 1. umr. líka, að í 12. gr. segir svo, með leyfi forseta:

„Stjórn Landsvirkjunar ræður löggiltan endurskoðanda til að endurskoða og staðfesta reikninga fyrirtækisins.“ Síðan kemur í lok greinarinnar: „Nánari ákvæði um reikningshald og endurskoðun skal setja í reglugerð.“

Endurskoðunin skal fara fram á vegum fyrirtækisins sjálfs og eignaraðila. Svona er þetta frv. allt. — Þar fyrir utan er hér verið að gera að lögum samkomulag sem var gert milli eignaraðila áður en þau lög sem nú gilda um Landsvirkjun voru leidd í gildi. Ég segi nei og tel þetta slæmt frv.