09.11.1982
Sameinað þing: 15. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 488 í B-deild Alþingistíðinda. (277)

17. mál, verktakastarfsemi við Keflavíkurflugvöll

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég hafði nú ekki hugsað mér að taka til máls hér á þessu stigi, því að till. sú sem hér er flutt til þál. um úttekt á verktakastarfsemi við Keflavíkurflugvöll er mjög í þeim anda sem ég hef aðhyllst þau ár sem ég hef setið í utanrmn. Í hvert sinn sem endurnýjun samninga hefur átt sér stað við Keflavíkurverktakana, Íslenska aðalverktaka eða við skulum segja Bandaríkjamenn, þá hef ég látið það ákveðið í ljós að þennan verktakamarkað þurfi að opna, hann þurfi að opna fyrir öllum verktökum á landinu, íslenskum verktökum. svo að sú einokunarstarfsemi sem rætt er um hér verði afnumin.

En þessi till., eins og hún liggur fyrir hér til þál., er alls ekki í þeim anda sem ég hafði hugsað mér, vegna þess að ég sé enga ástæðu til að ætla að hér hafi neins konar óheiðarleg starfsemi átt sér stað hingað til. Ég held að íslenskir verktakar hafi unnið nákvæmlega eftir þeim lögum og reglum eða reglugerðum sem Alþingi og ríkisstj. hafa sett um þessa starfsemi hverju sinni. Og ég hef heyrt — ekki hef ég nú haft fyrir því að leita það uppi til þess að lesa það sérstaklega — að það fyrirkomulag sem nú ríkir í Keflavík yfirleitt hafi verið sett undir forustu ráðh. Alþfl., þannig að hreinsunardeildin, sem nú er í gangi rétt fyrir kosningar skulum við ætla, er hér komin á stað enn einu sinni.

Hér hefði ég viljað sjá þessa þáltill. þannig orðaða, án þess að breyta nokkru þar um orðalag: „Till. til þál. um úttekt á verktakastarfsemi við Keflavíkurflugvöll.“ Og síðan: „Tilgangur úttektarinnar er að kanna hvort þessum viðskiptum verði komið haganlegar fyrir en nú er og hvort ágóða af þeim verði með öðrum hætti haganlegar og réttlátar skipt en nú er. Talsmaður nefndarinnar skal gefa Sþ. skýrslu um úttektina að úttektinni lokinni.“

Þetta hefði verið alveg nóg í mínum huga. Allt það sem er á undan í till. gefur til kynna að flm. haldi að hér sé um ólöglega starfsemi að ræða og að einhverju leyti óeðlilega að staðið, og ég harma það.

Hér er talað um að setja upp sérstaka rannsóknarnefnd. Þegar sérstök rannsóknarnefnd er sett í eitthvert mál, þá er eitthvert sérstakt tilefni. Það er eitthvert alveg sérstakt tilefni sem gefur það til kynna að hér sé eitthvað óeðlilegt að ske. Síðan segir að þetta eigi að vera ítarleg úttekt á fyrirtækinu Íslenskir aðalverktakar, „enda hafi nefndin vald til að kalla þá fyrir sig sem hún telur eiga hlut að máli.“ Þarna á að setja upp sérstaka rannsóknarnefnd sem kallar menn fyrir sig eins og þarna séu hreinir glæpamenn á ferðinni. „Nefndin skal kanna viðskipti félagsins og dótturfyrirtækja þess frá upphafi, umfang viðskipta, verðákvarðanir, ágóða og skiptingu arðs.“ Þarna er beinlínis gefið til kynna að hér hafi verið illa og óheiðarlega að málum staðið.

Ég verð að segja alveg eins og er að ef ég fengi boð um að verða rannsakaður á þennan hátt, væri ég í einhverju fyrirtæki slíku sem Íslenskum aðalverktökum, þá mundi ég líta á þetta sem rannsókn á einhverju því sem aðrir menn úti í bæ halda að hafi verið óheiðarlega að staðið.

Svo kemur: „Úttektin skal fara fram fyrir opnum tjöldum þannig að öllum almenningi gefist kostur á að fylgjast með þessari upplýsingaöflun.“ Það er allt að því verið að segja: Þessi rannsókn skal fara fram í glerbúri á Lækjartorgi, þar sem allur almenningur getur fylgst með frá einum tíma til annars. Og Alþingi á að fara að staðfesta þetta. Svo kalla þessir menn sig lýðræðissinna.

Ég hef verið að tala um það hvað eftir annað í utanrmn., að það þurfi að standa öðruvísi að því að semja við Bandaríkjamenn um verklegar framkvæmdir hér. Ég hef talið óeðlilegt að Íslenskir aðalverkrakar væru beinir þátttakendur í samningsgerðinni í Bandaríkjunum þegar hún fer fram, sem fulltrúar eigenda Íslenskra aðalverktaka, sem fara þar að hluta til með umboð sem ríkið eitt á að hafa. Ég hef talið eðlilegt að ríkið semdi um opinberar framkvæmdir hér og síðan yrðu þær framkvæmdir sem vinna ætti hverju sinni boðnar út á hinum almenna íslenska verktakamarkaði. Og þá er ég kominn að öðru atriði sem ég er afskaplega ósammála hv. 11. þm. Reykv. um.

Ég vil að þetta fé, þetta kapítal, sem kemur inn í landið og ekki þarf að endurgreiða, — hér er um að ræða verklegar framkvæmdir í stórum stíl, á vegum erlendra aðila að hluta til að vísu, sem íslenska ríkið þarf ekki að endurgreiða, og ég tel að þetta fjármagn eigi að koma inn á hinn almenna vinnumarkað, almenna verktakamarkað og halda áfram að velta í þjóðfélaginu og vera undirstaða að frekari velmegun íslensku þjóðarinnar. Úr því að við höfum þessar framkvæmdir, þá á fjármagn að velta áfram á íslenskum verktakamarkaði. (VG: Þetta er það sem Matthías var að ræða um.) Ólafur Ragnar kom að þessu líka Hann taldi að þetta erlenda fé ætti ekki að koma inn á markaðinn. Þetta er nú í stórum dráttum það sem ég hef verið að segja í utanrmn. Og ég held að þó að þarna hafi verið um að ræða einhvers konar hálfgerða ríkiseinokun í verklegum framkvæmdum, þá sé orðið tímabært að endurskoða þetta fyrirkomulag, enda eru komin á íslenskan verktakamarkað mörg ný fyrirtæki sem hafa fengið að spreyta sig á ýmsum stórum verkefnum og hafa staðið sig mjög vel.

Hv. 11. þm. Reykv. er mjög vel talandi. En hann talar oft hraðar en hann hugsar. Það er eins og ágætur lærimeistari minn, Jónas Jónsson frá Hriflu, sagði einu sinni: Hann hefur mjög hagnýtar gáfur svona til heimabrúks, en tæplega „presentablar“, ef ég má orða það þannig, á Alþingi Íslendinga, þegar hann tekur þessa spretti sína. Þess á milli getur hann verið ágærur og margt gott hægt að læra af honum. En á þessum sprettum sínum talar hann hraðar en hann hugsar.

Ég átti að sjálfsögðu ekki að kalla fram í nafn Póllands þegar hv. þm. talaði um Tyrki. Það var afskaplega smekklaust af mér að gera það og ég bið hann afsökunar á því. En því kallaði ég það fram í að hugsjónir þeirra austantjaldsmanna fara svo mjög saman við margar af hugsjónum okkar virðulega 11. þm. Reykv. að ég gat ekki látið það vera. Þegar hann talar um einræði og að mannréttindi séu fótumtroðin einhvers staðar, þá held ég að það sé fyllilega sambærilegt við það sem við höfum kynnst í fréttum frá kommúnistaríkjum allt frá Stalínstímabilinu fram til þessa dags. það sem gerist í Póllandi og Afganistan sé fullkomlega sambærilegt við það sem er að ske í Tyrklandi. Hv. þm. hefur aldrei heyrt mig mæla því bót sem skeð hefur í Tyrklandi eða áþekku ástandi nokkurs staðar annars staðar.

Hitt er annað mál, að þegar hv. þm. kemur frá Evrópuþingi með hugmyndir og tillögur, sem hann hefur rætt þar við kollega sína, þá er hann þangað kosinn sem einstaklingur en hvorki sem talsmaður flokka né þjóðþingsins, Alþingis Íslendinga. Það eru valdir einstaklingar sem fara sem fulltrúar flokkanna á þessi þing og hafa ekki nokkurt umboð til að tala í nafni Alþingis Íslendinga. Þegar hv. þm. kemur svo heim sem fulltrúi utanrmn. og ætlar að fá aðra þm. í lið með sér til að staðfesta í frv.-formi eða þál. á Alþingi skoðun þá sem hann hefur komið með sem prívatmaður, fulltrúi síns flokks á erlendum vettvangi þar sem hann talar í nafni Íslendinga, þá er ekki víst að allir Íslendingar séu honum sammála. A.m.k — er ég einn af þeim sem ekki eru honum sammála.

Ég held að við ættum að fara að gera okkur grein fyrir því, að það er ekki alls staðar sem íslenskir aðilar eru fulltrúar Alþingis Íslendinga. Það er Alþingi Íslendinga sem kýs þá á suma fundi og þing en aðra ekki. Á þing eins og Evrópuþingið eru það flokkarnir sem tilnefna sína fulltrúa. Þess vegna harma ég það að hv. þm. skyldi fara á sprett í þessu máli og gera að umtalsefni þær umræður og þá afstöðu sem menn taka á lokuðum fundum utanrmn., sem yfirleitt eru trúnaðarfundir nema annars sé getið á fundunum sjálfum, þannig að ég frábið mig öllu tali um utanríkismál á þann hátt sem hér fléttaðist inn í umr. um þessa þáltill. um úttekt á verktakastarfsemi á Keflavíkurflugvelli. Allt þetta tal, allur þessi sprettur á ekki heima í þessum umr. og auðvitað hefði hæstv. forseti átt að gera aths. við það.

Ég vil sem sagt lýsa stuðningi mínum við að það verði kannað hvort hægt er að koma viðskiptum haganlegar fyrir á verktakastarfsemi við Keflavíkurflugvöll. En ég vil ekki og ég teldi það miður farið ef Alþingi Íslendinga ætlar nú að fara að skipa rannsóknarnefnd í fyrirtækin, sem hingað til hafa séð um þau verk sem þarna suður frá hafa verið unnin, einstaklinga sem að þeim hafa staðið í gegnum árin, með öllum þeim upplýsingum og spurningum sem hv. 1. flm. þessarar till. gat um. Þá er komið langt, langt út fyrir þau mörk sem ég hef hugsað mér. (Gripið fram í: Fluttir þú ekki svona tillögu um SÍS?) Nei, ég flutti ekki þá tillögu um SÍS. Ég flutti sams konar tillögu um SÍS og hv. 11. þm. Reykv. flutti um Flugleiðir. (Gripið fram í.) Það var ekki svona tillaga. (Gripið fram í: Nei.) Það var af gefnum ástæðum, vegna þess að það hefur margsinnis verið borið á SÍS eins og kom hér fram áðan, að það var þá staðfest, að þeir hafi hagað sér ósæmilega gagnvart sínum viðskiptavinum, bændum. Og það var nákvæmlega sama ásökun sem kom fram í sambandi við Flugleiðir. Þar voru Flugleiðir að fara fram á stórar upphæðir til styrktar starfsemi sinni, þannig að það er ekki hliðstætt dæmið sem hv. þm. tekur.

Ég hef ekki meira um þetta að segja. En ég tel tímabært að það sé kannað hvort hægt er að opna verktakastarfsemi við Keflavíkurflugvöll þannig að fleiri komist þar að með verklegar framkvæmdir. Og það yrði þá í allt öðrum tilgangi heldur en þessi tillaga leggur til grundvallar.