09.03.1983
Neðri deild: 58. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2829 í B-deild Alþingistíðinda. (2783)

30. mál, heilbrigðisþjónusta

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Það er aðeins vegna þeirra orða sem féllu hjá 1. flm. þessarar brtt. við 2. umr. málsins sem ég vildi gera örfáar aths.

Í sjálfu sér sé ég enga ástæðu til að vera að ræða við hann um hvort ég mundi sækja um yfirlæknisstöðu á Hrafnistu, en hins vegar gæti sú staða komið upp, ef hv. þm. mundi beita sér fyrir því að sjólög yrðu látin gilda þar og ég yrði ráðinn þar stýrimaður eða skipstjóri, að þá bæði mætti ég, ætti og gæti undir vissum kringumstæðum hjálpað þar til.

Hitt má til sanns vegar færa að sé rétt hjá hv. þm. að taka slíkt dæmi, vegna þess að það verður að teljast skylda ófaglærðra manna, ef hinir faglærðu eru ekki til staðar, að hjálpa ef um neyð er að ræða eða slys. Ég hef skilið þessa till. í 8. gr. svo, brtt. sem við ræðum hér, nr. 17.4. að hér sé eingöngu um að ræða heimild ef viðkomandi aðilar fást ekki til starfa — eins og stendur skýrt í greininni: hjúkrunarfræðingur eða ljósmóðir.

Vegna orða sem féllu líka hjá þessum hv. þm.: Hann veit og við vitum allir, hv. þm., að undir mörgum kringumstæðum taka hjúkrunarfræðingar að sér störf lækna, ekki aðeins héraðslækna, lækna úti um land, heldur líka oft og tíðum lækna hér í Reykjavík. Guði sé lof, segi ég. En það breytir því ekki, að ef hjúkrunarfræðingar eru ekki til staðar í þessum tilfellum tel ég rétt að það megi kalla aðra til. Þetta var skoðun okkar í nefndinni og að það væri á engan hátt — og þar eru m.a. tveir fyrrv. heilbrrh., eins og hér hefur komið fram, — verið að ráðast gegn þessari stétt. Við bæði virðum hana og metum sem slíka.

En það má vera, eins og mér var bent á hér fyrir framan þingsal rétt áðan, að þetta ákvæði sé vegna þeirra aðferða sem hæstv. heilbrrh. hefur tekið upp varðandi laun þeirra sem koma ófaglærðir til þessara starfa og þess tíma sem fólkið er ráðið til þó þess þurfi ekki. Ég held að hæstv. ráðh., áður en hann gefur út reglugerð um þetta mál, ef samþykkt verður svona, ætti að kynna sér hvernig launagreiðslur fara fram í öðrum starfsgreinum þegar fagfólk er ekki til staðar. Ég held að ég fari alveg rétt með það t.d. að ef maður sem ekki hefur réttindi er ráðinn í starf á skipaflotanum, sem er æðra, þar sem fagmann þarf, njóti hann þeirra launa sem starfinu tilheyra meðan hann gegnir því, en hins vegar eru uppsagnarákvæði hans á þann veg sem eru hjá hinum ófaglærða. Þegar hjúkrunarfræðingur kæmi og segði „Nú er ég tilbúinn að taka við starfinu“, þá ætti uppsagnartími að gilda eins og gildir fyrir sjúkraliða almennt, en ekki að vera til staðar 6 eða 12 mánaða ráðningarsamningur við viðkomandi aðila. Ef þetta er gert tel ég vera ráðist að starfi hjúkrunarfræðinganna. En þetta er hægt að leysa með reglugerð og ætti þess vegna að gera til að losa okkur út úr þessu máli, því að ég er alveg viss um að það er enginn hér inni sem vill á einn eða annan hátt ráðast að neinni þeirri stétt sem um er rætt í þessu ágæta frv. að öðru leyti.