09.03.1983
Neðri deild: 59. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2840 í B-deild Alþingistíðinda. (2799)

198. mál, fjáröflun til vegagerðar

Páll Pétursson:

Herra forseti. Hér er um hinn mesta vandræðaskatt að ræða, sem kemur illa og óheppilega niður. Það er miklu réttara að mínum dómi að miða skattlagningu sem þessa við notkun tækjanna fremur en þyngd þeirra. Þetta er að vísu einfalt í innheimtu, en það er eftir því óréttlátt.

T.d. kemur þessi skattur ákaflega illa við búrekstur, vegna þess að búrekstur krefst þess að jeppi sé á búinu í flestum tilfellum. Gjarnan er hann lítið notaður, en ákaflega nauðsynlegur til að unnt sé að reka búskapinn með eðlilegum hætti. Mér sýnist að þrjú lambsverð á s.l. hausti fari í þennan skatt eða hátt á þriðja lambsverð — bara til að borga þennan aukaskatt af jeppa sem kannske er mjög lítið notaður en þó óhjákvæmilegt að hafa. Jafnframt krefst búskapur í stórum stíl þess að á búinu sé vörubíll. Hann er líka lítið notaður í flestum tilfellum. Þetta er veruleg skattheimta fyrir tæki sem eru lítið notuð.

Ég viðurkenni þó að þetta mál skánaði í meðferð Ed., en mér fyndist að það þyrfti enn að batna.