10.03.1983
Sameinað þing: 62. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2846 í B-deild Alþingistíðinda. (2811)

Um þingsköp

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Síðustu daga og vikur hafa forsetar þingsins og þm. lagt sig í líma við afgreiðslu ýmissa mikilvægra mála sem ríkisstj. hefur óskað afgreiðslu á fyrir þinglok. Nefndir og deildir þingsins hafa setið á látlausum fundum frá því snemma á morgnana til miðnættis. Ég er ekki að kvarta undan vinnuálaginu. Það hefur hins vegar komið fyrir hvað eftir annað að frsm. nefnda hafa lýst yfir því, að vart hafi gefist nægur tími til að fjalla um mikilvæg frv. og tillögur. Þetta hefur komið rækilega í ljós í umr. síðustu daga. En þm. hafa gert það sem í þeirra valdi hefur staðið til að gegna þingskyldu sinni og reynt að koma í veg fyrir meiri röskun á stjórn þjóðmála en þegar er orðin. Enn er eftir að afgreiða mikilvæga málaflokka. Nefni ég sérstaklega lánsfjáráætlun og vegáætlun.

Við þessar aðstæður hefði ég talið eðlilegt að þingið nyti aðstoðar og stuðnings hæstv. forsrh. En því fer nú aldeilis fjarri. Hæstv. forsrh. lætur ekki svo lítið að greina þinginu frá áætlunum sínum um þingrof og nýjar kosningar. Inn í þingsali berast flugufréttir um þingrof á morgun, á mánudag eða einhvern tíma í næstu viku. Hæstv. forsrh. hefur ekki tekið þátt í fundum með forsetum þingsins og formönnum þingflokkanna, þar sem reynt hefur verið í góðri samvinnu að greiða fyrir framgangi mála. Ekki einu sinni hefur hann látið í té lista yfir þau mál sem hann vill fá afgreidd fyrir þinglausnir. Mál eru afgreidd samkv. óskum einstakra þm. og ráðh. Þessi óvissa veldur gífurlegum erfiðleikum og margvíslegum óþarfa vandamálum. Stjórnarflokkarnir reyna að skapa sér hvert tækifærið á fætur öðru til að slíta stjórnarsamstarfinu. Hæstv. forsrh. reynir að niðurlægja formenn flokkanna í stjórnarskrármálinu á meðan hann hugar að eigin framboðsmálum. Allt verður þetta til að draga upp dekkri mynd af þinginu en fyrir er og vart er á það bætandi.

Stjórnarflokkarnir virðast nauðugir viljugir taka þátt í þessu valdaspili sem ég tel bæði ódrengilegt og óheiðarlegt. Formaður Alþfl. hefur ritað forsrh. bréf og krafist svara um þingrof og nýjar kosningar. Með leyfi forseta hljóðar þetta bréf svo:

Alþfl. telur að yfirlýsingu um þingrof og kosningar hinn 23. apríl eigi að gefa út nú allra næstu daga, en þinglausnir geti beðið um sinn. Þetta jafngildir því að þingið starfi áfram að mikilvægustu málum, þótt þingrof hafi verið dagsett svo að kosningaundirbúningur geti hafist.“

Þingið getur ekki lengur tekið þátt í þessu sjónarspili. Þess vegna krefst ég þess, herra forseti, að hæstv. forsrh. skýri frá því þegar í stað, hvenær hann ætlar að senda þingið heim og efna til nýrra kosninga. Fáist þau svör ekki er það skoðun mín að þm. eigi að neita að taka þátt í afgreiðslu mála með þeim hætti sem verið hefur síðustu daga. Ástandið er ekki lengur sómasamlegt.

Herra forseti. Þar sem hæstv. forsrh. lætur ekki svo lítið að vera hér við upphaf fundar í Sþ. vildi ég biðja forseta að koma þessu áleiðis til hans.