10.03.1983
Sameinað þing: 62. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2848 í B-deild Alþingistíðinda. (2815)

Um þingsköp

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Ég vil taka undir orð hv. þm. Árna Gunnarssonar sem hann lét falla hér áðan. Við höfum ekki orðið varir við það formenn þingflokka, a.m.k. ekki formenn þingflokka stjórnarandstöðunnar, að hæstv. forsrh. hafi nokkurs staðar nálægt komið í þeim viðræðum sem farið hafa fram milli formanna þingflokka og forseta um þinghald. Það eina sem við vitum um aðild hæstv. forsrh. að því eru að vísu lausafregnir, sem við höfum ekki fengið staðfestar, að hann hafi haft ýmislegt við það að athuga sem reynt hefur verið að ná samkomulagi um, án þess að koma þar nokkru sinni nálægt sjálfur. Ég hef ekki eitt aukatekið orð heyrt frá hæstv. forsrh., hvorki um þinglok né hvaða mál eigi að afgreiða frá þinginu, nú um langa hríð.

Herra forseti. Ég vil einnig láta það koma fram að plaggið, sem hæstv. forsrh. afhenti okkur fyrir milligöngu hæstv. forseta Sþ., ég man ekki hvort það var fyrir 2–3 vikum eða lengri tíma, var aðeins listi yfir öll stjfrv., sem flutt hafa verið á Alþingi í vetur, en þess ekki látið getið með einu aukateknu orði hvaða frv. af öllum þessum bálki ætti að reyna að afgreiða. Þetta var aðeins samantekt yfir öll stjórnarmál sem flutt hafa verið hér. Sá listi sem mér var afhentur ásamt öðrum formönnum þingflokka fyrir 2–3 dögum var frá hæstv. forseta Sþ. kominn og var okkur afhentur sem hans persónulega álit á því, hvaða stjórnarmál væri e.t.v. hægt að afgreiða og hvaða stjórnarmál þyrfti að afgreiða áður en þinglausnir færu fram. Ég spurðist sérstaklega fyrir um það hvort þessi listi væri til orðinn með vitund og stuðningi ríkisstj. Hæstv. forseti upplýsti að svo væri ekki. Ég óskaði þá eftir því við hæstv. forseta að hann færi með þennan lista á vettvang ríkisstj. svo að við fengjum upplýsingar um það, hvort persónulegt álit forseta um mál sem hægt væri að afgreiða og þyrfti að afgreiða nyti stuðnings ríkisstj., eða hvort ríkisstj. hefði á þeim málum einhverja aðra skoðun og þá hverja. Ég hef ekki enn fengið nein svör við þessari beiðni minni frá hæstv. forseta. Hann tók þetta verk að sér og hefur ekki svarað þessari spurningu enn. Það er sjálfsagt vegna þess að hæstv. forseti hefur sjálfur engin svör fengið frá ríkisstj. Ég hef ekki trú á því, hafi hæstv. forseti Sþ. fengið þau svör, að hann liggi á þeim svörum við okkur.

En ég vil ítreka það, sem kom fram hjá formanni þingflokks Alþb., að okkur hafa engin tilmæli borist frá hæstv. forsrh. um afgreiðslu mála. Okkur hefur engin vitneskja borist frá honum um það hvernig hann eða ríkisstj. hyggst haga hér þingstörfum. Það eina sem við höfum orðið varir við afskipti hæstv. forsrh. virðist vera það, að hann hafi reynt að hafa áhrif á samkomulagstilraunir, sem reyndar hafa verið í þinginu, til óhagræðis fyrir það samkomulag sem reynt var að gera.