10.03.1983
Sameinað þing: 62. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2849 í B-deild Alþingistíðinda. (2816)

Um þingsköp

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að blanda mér efnislega í þessar umr. Ég hygg þó að nokkurs misskilnings kunni að gæta að því leyti sem hæstv. forseti raðaði niður, eftir því sem hann hugði að tök væru á að afgreiða, stjfrv., stjórnarmálum og afhenti hv. þingflokksformönnum. sú flokkun var af honum gerð, en á þeim málum sem hæstv. forsrh. hafði fyrir hann lagt að ríkisstj. legði áherslu á að næðu framgangi.

En erindi mitt var að fara fram á frestun þessarar umr. því að hér snúast umr. um verklag og verkstjórn hæstv. forsrh. sem að líkum lætur, og það er með öllu óþolandi að hann sé ekki viðstaddur þegar þær fara fram. Ég fer eindregið fram á að þessari umr. verði ekki haldið fram fyrr en að honum viðstöddum, því að það er ekki sæmandi, auk þess sem hann er sá sem helst getur setið fyrir svörum um allt verklag að þessu leyti.