10.03.1983
Sameinað þing: 62. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2849 í B-deild Alþingistíðinda. (2818)

Um þingsköp

Ólafur G. Einarsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að tala um hæstv. forsrh. svo að það er vonandi í lagi að ég segi hér nokkur orð. Það er út af fyrir sig fallega gert af hæstv. forseta að taka upp hanskann fyrir hæstv. forsrh. Það veitir ekkert af. En ég vil aðeins segja hvernig þessir málalistar, sem hér hafa komið til umr., horfa við mér.

Okkur formönnum þingflokka hafa verið afhentir tveir listar yfir óafgreidd mál. Sá fyrri, ég man ekki hvenær, einhvern tíma í febr., yfir öll óafgreidd mál í þinginu og stöðu þeirra, hvort þau væru komin til nefndar eða hver væri staða þeirra í þingdeildum og Sþ. Ég held að ég megi fullyrða að þessi listi hafi ekki verið gerður að frumkvæði hæstv. forsrh. Hann var gerður af skrifstofu Alþingis og ég hef grun um að það sé vegna beiðni frá ritara þingflokks sjálfstæðismanna um að við fengjum í hendur slíkan lista.

Seinni listinn, sem var afhentur fyrir örfáum dögum, þremur dögum eða svo, var afhentur okkur formönnum þingflokka af hæstv. forseta Sþ. Þar voru talin upp óafgreidd stjfrv. og þáltill. Það var skýrt tekið fram af hæstv. forseta Sþ. að þessum lista væri ekki raðað í forgangsröð af ríkisstj., hvorki hæstv. forsrh. né öðrum hæstv. ráðh., heldur væri þessi listi gerður af sér og eins og honum þætti líklegast að lögð yrði áhersla á afgreiðslu mála.

Þetta er það sem við höfum haft til þess að fara eftir. Það hefur háð okkur í starfi hér í þinginu — þar tek ég undir með hv. þm. Árna Gunnarssyni — að við höfum ekki fengið að vita hvenær þinglausnir yrðu. Það er ekki hægt að láta okkur hafa í hendur lista sem þennan og segja svo jafnframt að þinglausnir skuli fara fram á föstudag. Í þessu tilviki gengur það ekki upp, það er alveg ljóst. Og ég held að hæstv. ríkisstj. sé loksins orðið það ljóst líka, að ef á að ljúka hinum allra nauðsynlegustu málum verður þingi ekki slitið á föstudaginn kemur. Þetta vildi ég láta koma hér fram, herra forseti.