10.03.1983
Sameinað þing: 62. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2849 í B-deild Alþingistíðinda. (2819)

Um þingsköp

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að þakka hv. 6. þm. Norðurl. e. fyrir að vekja athygli á þeirri pólitísku stöðu sem hér er nú á Alþingi Íslendinga. Þannig stendur á, að á dagskrá þingsins eru tvær tillögur, sem hafa það í för með sér, að ef sú fyrri verður samþykkt, sem er á dagskrá síðdegis í dag, um viðræðunefnd við Alusuisse, mun Alþb. hlaupa úr ríkisstj. Ef hin till., um samkomudag Alþingis, — þær eru reyndar tvær, en ef önnur þeirra verður samþykkt mun Framsfl. fara úr ríkisstj. Ef báðar þessar tillögur verða samþykktar, þá sitja eftir í hæstv. ríkisstj. þrír ráðh. Tveir, hæstv. dómsmrh. og hæstv. landbrh., sem þegar eru ráðnir sem frambjóðendur Sjálfstfl., og hæstv. forsrh., sem ennþá er að velta því fyrir sér hvort hann eigi að bjóða sig fram á móti sínum fyrri félögum hér í Reykjavík, og mun þá sitja í minnihlutastjórn sjálfstæðismanna væntanlega þegar báðir stjórnarflokkarnir eru hlaupnir fyrir borð. Þetta er sannarlega skrýtin staða. Ég tek undir það með hv. þm. að það sé mjög nauðsynlegt að höfuðpaurinn sjálfur hæstv. komi hér og geri grein fyrir málinu.