10.03.1983
Sameinað þing: 62. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2850 í B-deild Alþingistíðinda. (2820)

Um þingsköp

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Það eru tvö atriði sem þingið þarf að fá að vita. Í fyrsta lagi er brýnt að yfirlýsing verði gefin um þingrof og nýjar kosningar, ef hugmyndin er sú að kosningar fari fram 23. apríl eins og um hefur verið talað. En það þarf ekki að fara saman við þinglausnir.

Í annan stað þarf þingið að fá ákvörðun um þinglausnardag. Þetta eru tvö aðskilin mál. Það eru mörg fordæmi fyrir því, að ákvörðun um þingrof og þinglausnardagur fari ekki saman. Árið 1963 var t.d. gefin yfirlýsing um þingrof hinn 5. apríl, en þinglausnir fóru ekki fram fyrr en hinn 20. apríl. Það er þetta tvennt sem þingið þarf að fá að vita. Ákvörðunina um þingrof þarf að tilkynna alveg á næstu dögum ef kosningar eiga að geta farið fram hinn 23. apríl.

Hins vegar liggja fyrir þinginu margvísleg mikilvæg mál sem nauðsynlegt er að afgreiða. Hér er verið að kokka upp bráðabirgðalausnir og menn eru á þönum og geta ekki skoðað mál. Þess vegna þarf að liggja fyrir yfirlýsing um það hvenær þinglausnir eiga að fara fram. Þingið á að starfa áfram að dómi okkar Alþfl.-manna og menn eiga að ætla sér eðlilegan tíma til þeirra verkefna sem þarf að vinna. Og það er vitaskuld lágmarkskrafa að það þurfi ekki að vera ágiskun forseta Sþ. hver sé vilji ríkisstj., heldur að ríkisstj. láti sjálf í ljós sinn vilja, ekki síst með tilliti til þess hvernig ástandið er sem hér ríkir núna. Óvissan um hvort kosningar geti farið fram á réttum tíma, óvissan um það hvenær þinglausnir muni fara fram, óvissan um það hvaða mál eigi að afgreiða er gersamlega óviðunandi. Þingið getur að dómi okkar Alþfl.-manna alls ekki unað því, að hæstv. forsrh. haldi málum í þessari óvissu og þessari úlfakreppu. Því beini ég því eindregið til forseta Sþ. að hann taki nú í taumana og sjái til þess að hér verði komið skikkan á málin. Og ég geri jafnframt þá kröfu til annarra flokka, sem aðild eiga að ríkisstj., Framsfl. og Alþb., að þeir sinni þessari skyldu við þingið.