10.03.1983
Sameinað þing: 62. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2850 í B-deild Alþingistíðinda. (2821)

Um þingsköp

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Ég ætla ekki að bæta hér miklu við. Ég tel að það þurfi að nota tímann til afgreiðslu mála í hv. Alþingi. En þó vil ég taka undir orð þess þm. sem hóf þessar umr., að nauðsyn var að hefja þessa umr. og benda á hvernig málum er hér háttað.

Ég öfunda ekki hæstv. forseta af því hlutskipti sem hann hefur undir þessum kringumstæðum. Það þarf að koma betri skipan á. Forsrh. verður að hafa frumkvæði að því að skapa sátt og samlyndi við afgreiðslu mála. Og þá er fyrsta skilyrði að ákveða hvenær á að ljúka störfum þingsins og hvaða málum á að leggja áherslu á að ljúka. Þegar þingheimur veit þetta, þá ganga störf betur. Ég hef átt hér sæti í 20 ár og ég minnist þess ekki að slíkt ástand hafi nokkru sinni verið fyrr en á síðustu þremur árum Forsrh. hafa allan þennan tíma gengið fram fyrir skjöldu að ná samkomulagi við stjórnarandstöðu og stjórnarflokka í afgreiðslu mála. Við verðum að halda virðingu þingsins í heiðri og starfa samkv. því.

Að síðustu langar mig til að beina þeirri ábendingu ekki eingöngu til hæstv. forseta Sþ. heldur einnig til forseta deilda, að það hefur verið svo mikill gusugangur undanfarna daga, fundir frá því snemma á morgnana og fram á nótt í nefndum, í þingdeildum og í Sþ., að ég held að ég hafi aldrei átt verra með að fylgjast með en í gærkvöld hér í hv. Nd., samhliða því að sitja nefndafund eftir nefndafund, á meðan þingfundir eru haldnir, til þess að greiða fyrir afgreiðslu mála. Ég ætla því að óska eftir því við alla forsetana þrjá að þeir láti sér ekki koma til hugar að hafa kvöldfund í kvöld, fjórða kvöldið í röð. Ég er sannfærður um það að þm. úr öllum flokkum, hvort sem þeir fylgja þessari ríkisstj. eða ekki, láta ekki bjóða sér fjórða kvöldfundinn í röð. A.m.k. ætla ég fyrir mitt leyti ekki að mæta ef boðað verður til kvöldfundar.