10.03.1983
Sameinað þing: 62. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2851 í B-deild Alþingistíðinda. (2822)

Um þingsköp

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Það er alveg rétt, sem hv. þm. Matthías Bjarnason sagði, að síðustu daga í þessari viku og fyrri viku hefur verið ótrúlegt vinnuálag hér í þinginu. Nefndafundir hafa verið haldnir frá því snemma á morgnana og fram að fundum í deildum og Sþ. og oft og tíðum einnig á kvöldin. Hér eru fjölmörg veigamikil mál til umfjöllunar og afgreiðslu og það er varla að nægur tími gefist í nefndum þingsins til þess að skoða þau sem skyldi. Ég hef fundið fyrir því sem formaður í fjh.- og viðskn. Ed. að hafa ekki haft nægan tíma til þess að fjalla um mál, sem þangað hafa komið, og eiga þó ýmis höfuðmál þingsins eftir að koma til okkar.

Það er mjög erfitt á sama tíma og maður verður hér á kvöldin að sitja fundi í deild og Sþ. að þurfa sem formaður nefnda að undirbúa þar fundi og tryggja að viðræðuaðilar og gögn séu þar þegar fundir eiga að hefjast snemma næsta morgun. Ég vil því eindregið taka undir þá ósk hv. þm. Matthíasar Bjarnasonar, að það verði ekki kvöldfundur hér í kvöld svo að tími gefist til þess í kvöld fyrir nefndaformenn og aðra ábyrga aðila í nefndum þingsins að undirbúa þau mál sem enn er eftir að fjalla um í nefndum þingsins. Ég er ekki að biðja hæstv. forseta um leyfi handa þm. í kvöld, heldur fyrst og fremst að það gefist tóm í kvöld til þess að undirbúa þá lokalotu í deildafundum á morgun sem þarf óhjákvæmilega að eiga sér stað. Ég tek því eindregið undir þessa ósk, að fundum verði lokið hér um 7–8 leytið í kvöld.

Það hefur komið fram í þessum umr. að hér hefur mikið verið að gerast undanfarna daga og ýmsir sakna áhrifa forsrh. í meðferð þeirra mála. Eru helst flokksbræður hans sem hafa hér í ræðustól saknað mjög áhrifa hans á gang mála. Mér finnst þessar umr. nú gefa nokkuð ranga mynd af því hvernig þetta hefur gengið.

Ég vil upplýsa það, að mér finnst forsetar þingsins, forseti Sþ. og forsetar deilda, hafa staðið sig mjög vel í því að láta mál ganga hér fram og formenn nefnda og þingflokksformenn einnig. Ég segi það, þó ég eigi þar sjálfur hlut að máli, að ég tel menn hafa stuðlað að því með góðum árangri við erfiðar aðstæður að afgreiðsla mála gengi fljótt og vel. Og ég er ekkert viss um að þau vinnubrögð kunni að batna þótt sá hv. þm. og ráðh. sem hér hefur títt verið nefndur í umr. færi að blanda sér mikið inn í það.