10.03.1983
Sameinað þing: 62. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2852 í B-deild Alþingistíðinda. (2823)

Um þingsköp

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Ég vil mjög styðja þau tilmæli sem hér hafa fram komið vegna þess að sannleikurinn er sá, að eins og var hér á fundi í gærkvöld, þá voru menn meira og minna búnir að missa sjónar á því sem verið var að gera. Auðvitað gengur það ekki til lengdar, ef menn sem eiga að afgreiða hér mikilsverð mál eru meira og minna orðnir sér ómeðvitaðir um hvaða mál eru til afgreiðslu og hvaða mál er verið að afgreiða. Ég get upplýst það, að á fundi fjh.- og viðskn. í morgun voru tekin fyrir tvö stór mál til afgreiðslu og við, sem eigum að skila þeim hingað til hv. Nd. Alþingis, höfum hreinlega ekki komist í það enn að ganga frá okkar álitum. En það er gert ráð fyrir því að taka þau til umr. jafnvel í dag. Þetta nær auðvitað ekki nokkurri átt og gengur ekki.

En ég vil líka kvarta mjög undan því við hæstv. forseta, að á sama tíma og þetta mikla vinnuálag er hér á þingi og allir þm., að ráðherrum meðtöldum, sitja hér á fundum langt fram á kvöld og nætur til þess að geta verið viðstaddir og svarað fsp. og veitt upplýsingar, þá skuli ávallt vera einn af hinum 60 þm. sem virðist vera stikkfrí í þessari vinnu. Það er hæstv. forsrh. sjálfur. Hann hefur ekki mætt hér á mjög mörgum þingfundum upp á síðkastið. Og það er athygli vert að hér fer fram utandagskrárumræða um starfshætti Alþingis við þessar aðstæður og það er ekki hægt að ræða það mál við hæstv. forsrh. því að hann er eini þm. af þessum 60 sem mætir ekki til funda. Sjálfsagt er mikið hjá hæstv. forsrh. að gera í forsrn. við þær pólitísku ákvarðanir sem hann virðist nú vera að taka. En ýmsir þm. þurfa nú að fara í framboð án þess að geta tekið sér frí frá þingstörfum.