10.03.1983
Sameinað þing: 62. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2854 í B-deild Alþingistíðinda. (2827)

Um þingsköp

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Ég get ekki látið hjá líða að vekja athygli þingsins á því, að hæstv. forsrh. hefur það yfirbragð á máli sínu hér að það geti verið undir þingstörfum komið hvort kosningar geti farið fram hinn 23. apríl. Þetta er alrangt. Það virðist mega ráða það af ræðu hæstv. forsrh. að þingkosningum þurfi e.t.v. að fresta vegna þess að afköst í þinginu séu ekki nægilega mikil. Þetta er gersamlega rangt.

Hitt er rétt, að ákvörðunarvaldið um það hvort tekst að hafa kosningar 23. apríl n.k. er í höndum hæstv. forsrh. En til þess að það takist þarf hann að birta yfirlýsingu um þingrof þessa dagana. Annars hefst það ekki, annars verður að fresta kosningum. En þingið getur og á að halda áfram störfum og þinglausnir geta og eiga að fara fram síðar. Það er þetta sem er kjarni málsins.

Auðvitað veit hæstv. forsrh. ekki bara þetta, heldur veit hann líka að það greiðir fyrir þingstörfum að í fyrsta lagi sé ætlaður eðlilegur tími til afgreiðslu þeirra mála sem þarf að afgreiða og í annan stað að lagðar séu línur um það á hvaða tíma þinglausnir eiga að fara fram. Að þessu leyti var sú umr. sem hér fór fram mjög þörf. Það er fyllsta ástæða til þess að ítreka það að skýrari svör fáist frá hæstv. forsrh., að hann gefi afdráttarlaus svör. En það liggur í hendi forsrh. sjálfs hvort hann birtir yfirlýsingu um þingrof þessa dagana og sér til þess að sá vilji þingsins komi fram, að kosningar fari fram 23. apríl eða ekki. Það er ekki þinginu um að kenna ef það getur ekki lokið störfum sínum nógu snemma. Forsrh. getur hvenær sem er birt þessa yfirlýsingu.