10.03.1983
Sameinað þing: 62. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2855 í B-deild Alþingistíðinda. (2828)

Um þingsköp

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Ég tel nú ekki að hæstv. forsrh. hafi einkarétt á því að tala með þjósti. Ég mun leyfa mér það þegar mér dettur í hug. Ég vil eingöngu, herra forseti, minna á það, að þingreyndir menn — mér margfalt þingreyndari hafa litið svo á að verkstjórn á Alþingi Íslendinga hverju sinni væri í grundvallaratriðum í höndum hæstv. forsrh. Ég held að það vefengi enginn þennan skilning á málinu.

Í öðru lagi vil ég segja það, að hæstv. forsrh. hefði verið í lófa lagið að semja við stjórnarandstöðu um þingrof og kosningar og afgreiðslu mála hér á þingi. En það var ekki gert.