10.03.1983
Sameinað þing: 62. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2860 í B-deild Alþingistíðinda. (2834)

172. mál, varnir vegna hættu á snjóflóðum og skriðuföllum

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Mér finnst nú satt að segja að þetta mál sé þannig vaxið, að við eigum að reyna að sameinast um að laða fram jákvæða niðurstöðu. Það er mín meginafstaða í málinu. Ég hef engan áhuga á því að neyða tiltekna lausn á þessu máli og fyrirkomulag á því í stjórnkerfinu upp áeina stofnun fremur en aðra. Ég hef ekki heldur áhuga á því að láta kerfistogstreitu tefja þetta mál miklu lengur. Þess vegna lagði ég á það megináherslu að ná þessum stofnunum saman, sem þarna voru kallaðar saman til fundar með fulltrúum sínum, til þess að ná tiltekinni vinnuniðurstöðu frekar en láta málið standa fast langtímum saman eins og það hefur gert á liðnum árum. Og það er af þeim ástæðum sem töf hefur orðið á málinu. Það var ég að skýra hér áðan og það finnst mér óþarfi af hv. þm. að leggja út á verri veg. Töfin stafar af þessu, sem ég rakti mjög rækilega og samviskusamlega hér áðan, og ég held að það sé aðalatriðið að við þessar aðstæður ákveði alþm. að reyna að halda þannig á þessum málum að þeir leggi þessari starfsemi fé á fjárlögum næsta árs. Það er grundvallarpunkturinn í þessu máli. Og ég vil taka það fram út af orðum hv. þm. að ég var út af fyrir sig ekkert að rekja hér sérstaklega minn þátt og þátt Vilhjálms Lúðvíkssonar. Hans nafn kom eitthvað við sögu nokkrum sinnum. Það eru fjöldamargir aðrir einstaklingar sem hér hafa komið við sögu og ég skil ekki af hverju hv. þm. þurfti endilega að tína þennan eina ágæta mann út úr. Það er fjöldinn allur af góðu fólki sem hefur hjálpað til við að vinna að þessu máli núna á undanförnum mánuðum.

En vegna þeirra fsp. sem hv. þm. bar beinlínis fram um samgrn. í þessu efni, þá hef ég ekkert fyrir mér í þeim efnum annað en það, að samkv. greinargerðum tillögunnar frá 1978–1979, 279. máls, og frá 1980, 49. máls, kemur fram að vorið 1978 fól forsrn. samgrn. að fara með málefni sem varða snjóflóðavarnir. Samgrn. mun hafa falið Veðurstofu Íslands að annast þessi mál. Þannig fæ ég þetta mál í þeirri skýrslu sem tekin er saman fyrir mig um það og ég skýrði frá því eins og það kom mér sannast og réttast fyrir. Engu að síður taldi ég félmrn. skylt að sinna þessu, sérstaklega út frá skipulags- og byggingarsjónarmiðum, en ég hefði einnig talið að það gæti vel komið til greina að heilbr.- og trmrn. fjallaði um þetta mál sérstaklega vegna hinna nýju laga um Viðlagatryggingu Íslands, sem opna fyrir það að nokkru fé sé varið af tekjum Viðlagatryggingarinnar til rannsókna og forvarnarstarfs í þessu skyni.

Það er rétt að Alþingi var þeirrar skoðunar að semja þyrfti frv. til l. um snjóflóðavarnir eins og hér var getið um áðan. En það var niðurstaða manna eftir að hafa farið mjög ítarlega yfir málið á þessum vetri, að fyrst ætti að vinna eftir þeim lagaheimildum sem þegar eru fyrir áður en tekin væri ákvörðun um að setja sérlög um þetta mál, vegna þess að í slíkum sérlögum yrðu menn að taka fram hvar þetta mál ætti að vera til frambúðar. Og það stóð ekki þannig á, að menn væru tilbúnir til að taka af skarið um það. Þess vegna held ég að hér hafi verið valin mjög góð leið og ég er sannfærður um að hún skilar betri árangri en þófið sem verið hefur í þessum efnum á liðnum árum. Það leyfi ég mér a.m.k. að vona. Ég er reiðubúinn til þess að aðstoða hv. þm. og aðra, sem áhuga hafa á þessum málum, við að tryggja að þetta starf, sem þarna er verið að vinna, skili þeim árangri sem okkar fólk hefur orðið að bíða eftir allt, allt of lengi.